Heimferð og stutt endurlit

Á morgun held ég heim til Íslands eftir tæpa þrjá mánuði hér í Varsjá. Þessi dvöl kom til frekar óvænt en reynslan af henni hefur m.a. kennt mér að vera opnari fyrir því að grípa óvænt tækifæri.

Það er líklega til marks um að dvöl mín hér hafi verið vel heppnuð að mér finnst eins og að ég sé nýkominn hingað – en samt eru þrír mánuðir liðnir. Ég mun koma heim reynslunni ríkari, sáttur við dvölina og vongóður um að koma aftur hingað síðar. Nú hef ég reynt að búa í stórborg – nokkuð sem mig skorti áður. Ég hef þurft að reiða mig á enskukunnáttu mína og allskyns handapat og látbragð til að komast í gegnum dagana. Ég hef kynnst nýjum skóla, kennsluháttum, kennurum og síðast en ekki síst, nemendum af ýmsum uppruna og víða að úr heiminum.

Síðasta vikan hér hefur enn á ný fært mér heim sanninn um að lífið er núna (sbr. heiti pistils sem ég skrifaði á þetta blogg í febrúar). Verandi dálítið teningslaga persóna ákvað ég fljótlega eftir að ég kom hingað að vinna skipulega að rannsókninni minni og sækja þau námskeið sem ég var skráður í en láta skoðunarferðir um borgina og annað slíkt bíða þar til undir lok ferðarinnar. Ætlaði svo að nýta síðustu vikuna mína hér til að kanna borgina betur og vera aftur dálítill túristi. Þar af leiðandi lét ég margt sem mig langaði að gera bíða. En svo gerist það að ég eyði megninu af síðustu vikunni minni hér í að vera lasinn og orkaði því ekki að gera ýmislegt af því sem mig langaði að gera. Það eykur bara á löngunina að koma aftur.

Ég var varaður við því áður en ég hélt hingað að það væru miklar líkur á að ég myndi fyllast trega og söknuði til Íslands eftir viku eða tvær í nýju landi. Til þess kom þó aldrei. Dagararnir hafa verið misgóðir eins og gengur en eftirsjá eftir að hafa farið hingað hefur aldrei gert vart við sig. Samt verður gott að koma aftur heim. Ganga aftur inn í umhverfi sem maður þekkir og njóta þess að tala íslensku og vera þátttakandi fremur en áhorfandi að samfélaginu.

Með von um að skilja pestina eftir í Póllandi skála ég í pólskum hnetuvodka og hugsa hlýlega til Íslands!

 

Kraká og Auschwitz

Fyrir komuna til Póllands voru tveir staðir sem mér fannst ég verða að heimsækja meðan ég dveldi í landinu. Kraká og Auschwitz. Á báða þessa staði hef ég nú komið. Báðir eru þeir eftirminnilegir. Hvor á sinn hátt.

Það tekur rétt rúma tvo klukkutíma að ferðast með lest frá Varsjá til Krakár. Ég er mjög ánægur með lestarsamgöngurnar hérna. Lestirnar eru nýlegar og í öll fjögur skiptin sem við ferðuðumst með lest í síðustu viku voru þær á réttum tíma. Lestarferðir hér eru þægilegur ferðamáti og frekar ódýr. Líkt og í Wroclaw er lestarstöðin í Kraká nærri miðbænum sem gerði ferðir til og frá gististað mjög þægilegar.

Eftir að hafa komið til Krakár að kvöldi var að morgni lagt af stað til Auschwitz. Farkosturinn þangað var smárúta, sem ekið var af ákaflega viðkunnalegum heimamanni. Ferðafélagarnir voru breskir hermenn á þrítugsaldri sem greinilega höfðu lagt sig fram um að kynna sér skemmtanalíf Krakár kvöldið áður, sem hefur það orð á sér að vera mjög líflegt. Bæði upplitið á þeim og umræðuefninu á leiðinni báru vitni um það. Ferðin frá Kraká til Auschwitz tekur tæpar tvær klukkustundir.

Í Auschwitz bættumst við í stærri hóp ferðamanna og vorum leidd í gegnum búðirnar undir leiðsögn. Ég reikna með að það sé venjan frekar en að fólk sé á eigin vegum, einkum ef aðsóknin er yfirleitt jafnmikil og hún var þennan dag. Byggingarnar eru þröngar og ekki nema hluti þeirra opinn gestum Hóparnir þurfa því að fara skipulega um og á jöfnum hraða svo ekki myndist örtröð.

Við byrjuðum á að ganga um eldri hluta búðanna. Sá var reistur á 3. áratugnum sem herskálar fyrir pólska herinn og byggingarnar þjónuðu því hlutverki fram að stríði þegar þær komust á vald nasista. Öðru máli gegnir um yngri hlutann, sem nefnist Birkenau, en hann var reistur af nasistum á stríðsárunum í þeim tilgangi að vera þrælkunar- og útrýmingarbúðir. Fjórar af fimm gasklefum búðanna voru þar – einungis einn í eldri hlutanum. Hann er raunar sá eini sem enn stendur, þeir í Birkenau voru sprengdir í loft upp fyrir stríðslok. Einn af föngunum en þrír af nasistum skömmu áður en þeir voru hraktir burt af rússneska hernum.

Upplifunin að koma til Auschwitz var dálítið önnur en ég hafði búist við. Ég var meira hugsi en sorgmæddur meðan ég dvaldi þar. Sannast sagna hafði ég hálf kviðið fyrir að fara til Auschwitz – en fannst ég samt verða að fara. Ég sé heldur ekki eftir því. Sennilega hafði áhrif á upplifunina hve margir ferðamenn voru þarna og hvað ferðin gekk greiðlega. Margt að sjá og heyra en lítill tími fyrir hugann til að vinna úr því. Kannski var þetta bara of óraunverulegt? Að vera loks kominn á þennan stað hörmunga, kvala, fjöldamorða og mannvonsku sem var á því stigi að maður fær ekki skilið hana. Standa andspænis stöðum sem maður hefur áður lesið um og séð á myndum. Áhrifin af því að fara til Auschwitz hafa því í mínu tilviki komið meira eftirá en meðan ég var staddur þar.

Það skipti miklu að hafa góðan leiðsögumann. Okkar var kona á að giska á sextugsaldri, mjög fær og greinilega með mikla reynslu. Það eina sem truflaði við hana var framsögnin. Enskan sem hún talaði var fín en meðan hún lýsti grimmd og hryllingi búðanna hljómaði hún ávallt eins og flugfreyja sem er að leiðbeina manni um notkun öryggisbelta og björgunarvesta. En skilaboð hennar til okkar að ferðalokum voru skýr. Þó byggingarnar í Auschwitz hrörni má það sem þar gerðist ekki gleymast – og aldrei endurtaka sig.

Dvölin í Kraká varð önnur er til var stofnað. Raunar líður mér dálítið eins og ég eigi eftir að koma þangað, þrátt fyrir að hafa gist þar tvær nætur – sem er alltof stuttur tími. Ætlunin var að fara í ferð með leiðsögn um miðborgina að morgni dagsins sem haldið var aftur til Varsjár. Sú ferð féll hins vegar niður. Kvöldið eftir komuna frá Auschwitz hittum við íslenskan vin okkar sem býr þessa dagana í Katowice. Ánægja endurfundanna var slík að lokadagurinn í Kraká einkenndist öðru fremur af ámusótt sem ásamt rigningu hélt aftur af framtaksemi og stóð skoðun á miðborginni fyrir þrifum. Ég verð því að fara aftur til Krakár síðar enda borgin heillandi við fyrstu kynni.

Wroclaw

Áður en ég fór til Póllands fyrir næstum þremur mánuðum sögðu vinir og kunningjar, sem heimsótt höfðu Pólland, að ég yrði að heimsækja Kraká meðan ég væri hérna. En eftir komuna hingað var mér bent á aðra borg sem ekki síður væri áhugaverð. Sú heitir Wroclaw og er í suðvestur Póllandi.

Wroclaw varð eins og margar aðrar borgir í mið-evrópu illa úti í hildaleik annarrar heimstyrjaldar. Á þeim tíma var borgin þýsk og nefndist þá Breslau, en nafniu var breytt í Wrocalw eftir stríð. Um 90% íbúanna fyrir stríð voru þýskir en skömmu fyrir stríðslok voru nær allir íbúarnir fluttir burt þar sem fyrirséð var að harðir bardagar yrðu í borginni. Sem varð raunin. Fæstir íbúanna sneru aftur því að eftir stríðið varð borgin pólsk og var byggð Pólverjum sem fluttust þangað, flestir frá Úkraínu. Það hefur þó ekki verið neitt sældarlíf að hefja búsetu í Wroclaw eftir stríðið því borgin var í rúst. En hún var endurbyggð og verður ekki annað sagt en að það hafi tekist vel.

Fyrstu kynni mín af Wroclaw voru á brautarstöðinni við komuna þangað. Brautarstöðvar eru sjaldnast mjög sjarmerandi byggingar en þar er þessi sannarlega undantekning. Að innan er hún hlýleg og þægileg en þegar maður kemur út um aðalinnganginn og snýr sér við verður manni starsýnt á bygginguna sem líkist meira kastala en samgöngumiðstöð. Frá stöðinni er svo nokkurra míntútna labb í gamla miðbæinn. Hann er bæði fallegur og snyrtilegur. Wroclaw var fyrr á öldum mikil verslunarborg, með þremur stórum verslunartorgum (aðrar borgir létu sér jafnan 1-2 nægja).

Morguninn eftir komuna til borgarinnar fórum við í gönguferð með leiðsögn um miðborgina. Það hitti svo skemmtilega á að leiðsögumaðurinn, sem jafnframt er annar eigandi fyrirtækisins (Wroclaw City walk) sem skipuleggur þessar gönguferðir, bjó og starfaði á Íslandi í rúmt ár. Þessi gönguferð var í einu orði sagt frábær og óhætt að mæla með henni fyrir þá sem leggja leið sína til Wroclaw. Leiðsögumaðurinn var ákaflega fróður um borgina og fór með okkur á marga staði. Ef ég ætlaði að segja frá þeim öllum yrði þessi pistill það langur að enginn myndi lesa hann. Læt því nægja að nefna nokkur atriði.

Víða á gangstéttum og torgum Wroclaw má sjá málm-dverga sem ókunnir myndu klóra sér í kollinum yfir hefðu þeir ekki skýringu á tilvist þeirra. Dverganir voru tákn friðsamlegrar andspyrnuhreyfingar gegn stjórnvöldum í Póllandi á 9. áratugnum og gegn sovétskum áhrifum í landinu. Hreyfingin kom þessum dvergum fyrir víða en hver og einn hefur ákveðna sögulega merkingu.

Í gamla ráðhúsinu sem stendur við aðaltorgið, og er mjög sérstök bygging reist í blöndu af endureisnar- og gotneskum stílum, er m.a. að finna veitingastað sem leiðsögumaðurinn sagði vera þann elsta í Evrópu. Stofnaður árið 1275. Fyrir ofan dyrnar inn á staðinn gefur að líta tvær styttur, aðra af drukknum manni með ölkrús og hina af eiginkonu hans sem er illúðleg og býr sig undir að tyfta þann fulla með skó. Annars eru margar styttur og margvíslegar skreytingar utan á ráðhúsinu sem setja mikinn svip á það og gera að verkum að maður staldrar þar við nokkra stund til að virða það fyrir sér. Og ef mann skyldi langa að kaupa blóm þá eru þau seld allan sólarhringinn á torginu.

Wroclaw er háskólaborg þar sem 1 milljón manns býr en með stúdentunum er talið að íbúatalan sé um 1,4 milljónir. Hlutfall ungs fólks er því hátt og virtist næturlífið vera fjörugt í samhengi við það. Borgin er ein af menningarborgum Evrópu árið 2016 og verður ekki séð annað en að hún bera það heiti með sæmd. Eitt af því sem leiðsögumaðurinn nefndi að einkenndi borgina er umburðalyndi gagnvart mismunandi trúarbrögðum. Trúleysingjarnir frá Íslandi voru leiddir inn í kaþólska kirkju sem einkenndist eins og fleiri slíkar af miklum íburði. Það var þó ekki hann sem vakti athygli okkar heldur annað. Það var biðröðin í skriftastólinn sem náði nánast út að dyrum. Fólk á ýmsum aldri beið þar eftir því að játa syndir sína fyrir páskahátíðina. Hvort presturinn þurfi sálfræðiaðstoð eftir þessa törn skal ósagt látið. Leiðsögumaðurinn sagði að flestir gengju einungis til skrifta einu sinni á ári, þá annað hvort fyrir jól eða páska. Trúin væri hjá mörgum orðin meira hefð. Aðspurður sagði hann að ákveðinn kynslóðamunur birtist í þessum efnum í því að yngra fólkið hefði margt hvert snúið baki við kirkjunni, vegna spillingarmála og fégræðgi sumra þjóna hennar, en liti þó á sig sem kaþólskt eftir sem áður.

Það eru afbragðsgóðir veitingastaðir í miðborg Wroclaw og hótelið sem við gistum á var mjög sjarmerandi. Án þess að vera tilgerðarlegt var það bæði nútímalegt og bar líka yfirbragð 19. aldar. Herbergið með einkennandi dökkum viði og rúmi með himnasæng. Til að finna innganginn að hótelinu þurfti að ganga inn í port þar sem hótelið var á aðra hönd og veitingastaður og Vinotek á hina. Inn á þeim stað bað ég um vínseðil en fékk þau svör að hann væri enginn því tegundirnar væru um 500 og síbreytilegar.

Ég mæli hiklaust með ferð til Wroclaw en bendi þeim sem þangað vilja fara á að reikna sér meira en 2 daga. Það er alltof stuttur tími.

Mér þykir vænt um framsóknarmenn

 

Eftir að hafa alið mestan minn aldur á Austurlandi, í einu helsta kjörlendi Framsóknarflokksins, þekki ég marga framsóknarmenn og sumir þeirra eru góðir vinir mínir. Þeir framsóknarmenn sem ég þekki eru almennt gott fólk sem vill samferðamönnum sínum og samfélaginu vel og margir þeirra starfa að samfélagsmálum í þeim anda. Og þó ég sé oft ósammála þeim og nálgun þeirra á ýmis mál og áherslur þeirra samrýmist ekki mínum hef ég ekki í samtölum við þetta ágæta fólk fundið ástæða til að draga virðingu þess fyrir réttaríkinu og lýðræðinu í efa. Mér þykir því vænt um næstum alla þá framsóknarmenn sem ég þekki. Og einmitt þess vegna finnst mér skrítið að Framsóknarflokkurinn skuli birtast mér sem fyrirbæri sem er allt annars eðlis en þeir framsóknarmenn sem ég þekki.

 

Það er eitt sem mér hefur jafnan þótt einkenna framsóknarmenn meira en aðra þá sem hafa yfirlýstar pólitískar skoðanir. Það er bjargföst foringjahollusta sem á ekki sinn líkan í öðrum íslenskum stjórnmálaflokkum á síðari árum. Hollusta sem er í slíkum hæðum að það minnir á annarskonar stjórnarfar en það lýðræðisfyrirkomulag sem hefur verið við lýði á Íslandi. Ég hef stundum velt því fyrir mér hvað valdi þessu. Vegna þess hversu rótgróin og útbreidd þessi hollusta er virðist rökrétt að leita skýringarinnar í menningunni innan flokksins. Hana þekki ég ekki af eigin raun en sem áhorfandi og af samtölum við framsóknarmenn staldra ég við eitt atriði.

Þegar leiðtogar þurfa að þjappa sínu fólki að baki sér er utanaðkomandi ógn (raunveruleg eða tilbúin) eitthvað sem jafnan má treysta á. Bandaríkjaforsetar eru t.a.m. sjaldan vinsælli en þegar þeir fara í stríð. Því þá má krefjast skilyrðislauss stuðnings fólks og láta að því liggja að þeir sem ekki fylgi með í stuðningnum séu ekki trausts verðir. Séu jafnvel svikarar. En það er ekkert stríð á Íslandi og verður vonandi aldrei. En samt virðist vera hægt að finna ógn sem er nógu stór til að þjappa fólki svo þétt að baki forystufólki stjórnmálaflokks að undrum sætir.

Stjórnmálaumræða á Íslandi er á köflum óbilgjörn og maður þarf ekki að skima samfélagsmiðlana lengi til að rekast á rætin og jafnvel andstyggileg ummæli um fólk og flokka. Þetta er plagsiður sem því miður virðist fremur vera að eflast heldur en hitt. En hann beinist ekki bara að Framsóknarflokknum, þó að sá flokkur fái vissulega sinn skerf af ómálefnalegum gusum. Samstarfsflokkur Framsóknar í ríkisstjórn fær líka sitt og þeir flokkar sem mynduðu ríkisstjórnina þar á undan fengu yfir sig næsta samfelldar skammir og illyrði meðan þeir voru við völd – og fá enn þó þeir séu ekki lengur við stjórnvölin. Raunar þurfa stjórnmálahreyfingar á Íslandi ekki að komast í ríkisstjórn til að þurfa að búa við það að verða fyrir barðinu á þessum plagsið. En honum er þó oft að ósekju ruglað saman við gagnrýna umræðu sem er nauðsynleg fyrir viðhald og þróun lýðræðis.

Það sem skilur Framsóknarflokkinn frá öðrum í viðbrögðum við illyrðum í sinn garð er að forsvarsmenn þess flokks eru einir um að álíta þau vera ofsóknir og tala opinberlega á þann veg að engir aðrir þurfi að þola neitt sambærilegt. Það stenst auðvitað enga skoðun en samt virðast margir framsóknarmenn trúa þessu einlæglega. Og kannski er það ekki skrítið. Þessháttar orðræða er ekki ný komandi frá forystu Framsóknarflokksins. Hún hefur beitt þessu bragði oft og ítrekað í gegnum árin, að því er virðist í þeim tilgangi að styrkja eigin valdastöðu og þagga niður gagnrýni innanhúss. Og hvers vegna að hætta núna? Þetta hefur augljóslega virkað.

En það er komin upp fordæmalaus staða í íslenskum stjórnmálum. Forsætisráðherra hefur orðið opinber af dómgreindarbresti sem er á því stigi að ekki verður við unað og honum er ekki sætt í embætti. Þó mögulega hafi engin lög verið brotin er hagsmunaáreksturinn af þeirri stærð að lýðræðisfyrirkomulagið mun bera varanlegan skaða af sitji forsætisráðherrann áfram í embætti. Traustið sem þarf að ríkja er horfið.

Ég get skilið að vinir mínir og kunningjar sem eru framsóknarmenn séu hugsi þessa dagana. Jafnvel dálítið ráðvilltir. En það reynir á ykkur núna. Er hollustan við formanninn þess virði að setja fordæmi sem grefur undan lýðræðisfyrirkomulaginu og réttarríkinu og setur það í hættu einungis til að viðhalda valdastöðu formannsins? Hvað þið gerið eða gerið ekki á næstunni snýst ekki bara um trúverðugleika ykkar, valdastöðu eða framtíð flokksins ykkar. Málið er mun stærra en það.

[Þessi grein birtist á Kjarnanum 22. mars 2016 (sjá: http://kjarninn.is/skodun/2016-03-21-mer-thykir-vaent-um-framsoknarmenn/)

Heima og heiman

Eftir 10 vikur í Varsjá eru nú aðeins tæpar 3 vikur eftir af dvöl minni hér – í þetta sinn, ætti ég kannski að segja. Reynsla þess tíma sem er liðinn hefur á mun fleiri máta verið hvetjandi til þess að koma hingað aftur frekar en hitt. Hvort tími fleytir mér hingað síðar verður bara að koma í ljós. Það er helst ef stjórnmálaþróunin hér heldur áfram með þeim hætti sem verið hefur að landið verði ófýsilegur viðkomustaður.

Mér finnst viðeigandi eftir að hafa dvalist hér það lengi að telja megi vikurnar í tveggja stafa tölu að draga reynsluna saman í nokkra punkta sem hvorki eru þó tæmandi úttekt né mjög alvarleg.

Ég hef EKKI saknað íslenska vetursins. Og þó að veðurfarið sé trúlega ekki það sem dregur fólk hingað þá er ég farinn að skilja betur en áður af hverju sífellt fleiri Íslendingar kjósa að stytta veturinn með því að dvelja um lengri eða skemmri tíma í hagstæðara loftslagi. Að ganga á broddum flesta daga og vera sífellt með hugann við að detta ekki og fótbrota AFTUR er eitthvað sem ég vel verið án. Þó enn sé ekki komið vor í Varsjá hef ég samt góðar vonir um að það gangi eftir að árið 2016 verið ár tveggja vora hjá mér.

Ég er orðinn nokkuð fær í „gangbrautarsvigi“ eftir dvölina hér. Þetta er dálítið önnur íþróttagrein hér í borgarsamfélaginu. Heima snýst hún um að sneiða hjá snjósköflum, hálkublettum og viðutan ferðamönnum. Þessi áunna þekking mun þó tæplega nýtast mér mikið heima, helst ef ég bregð mér í miðbæ Reykjavíkur á menningarnótt eða þorláksmessu.

Ég á eftir að sakna almenningssamgangnanna hér þegar ég verð aftur kominn heim. Kerfið hér er þéttara og ferðir tíðari. Og þó farþegar sitji hér jafnan prúðir, alvörugefnir og þögulir eins og kirkjugestir – og ég hafi heyrt dæmi þess að skvöldrurum sé umbúðalítið sagt að halda kjafti – þá venst það betur en að verða vitni að heimiliserjum í háværum símtölum í strætóum í Reykjavík.

Það verður gott að „fá málið aftur“. Eins lærdómsríkt og það er að þurfa að gera sig skiljanlegan með látbragði og handapati, víða þar sem maður kemur, og að þjálfast betur í tungumáli sem er ekki móðurmál manns þá verður léttir að geta aftur tjáð sig á móðurmálinu, því tungumáli sem maður hugsar á. Að upplifa sig sem virkan þátttakanda í samfélagi er líka nokkuð annað en að vera áhorfandi og gestur í samfélagi þar sem flest er framandi – þó sú reynsla sé manni holl og víkki sjóndeildarhringinn.

Ég mun sakna verðlagsins hér þegar ég kem heim. Ég mun vafalítið eiga eftir að sitja heima yfir bjór með vinum og nöldra látlaust yfir íslensku verðlagi, þ.á m. því að fyrir verð eins bjórs heima hafi ég drukkið þrjá til fjóra í Varsjá. Að sama skapi mun ég ekki óska eftir því að tekjur mínar séu í samræmi við það sem gerist hér.

Ég hef haft ánægju og marga kviðfyllina af því að kynna mér matarvenjur heimamanna. Pylsur eru ekki bara SS-pylsur! Að panta mat af matseðli sem þú skilur ekki (skólamötuneytið) er líka áhugaverð reynsla þar sem spennan felst mest í því hvað fyrir mann verður borið. Þá kemur sér vel að matvendnin var ræktuð úr mér í æsku. En ég er farinn að sakna þess að elda sjálfur (svo ótrúlegt sem það kann að hljóma!) – hef ekki haft aðstöðu til þess síðan ég fór að heima. Já, og svo missti ég af þorranum. Mig langar í súrmat og hákarl! En kysi þó heldur pólskan vodka en íslenskt brennivín með því.

Meira kynslóðabil?

Við mótumst af umhverfi okkar. Bæði því sem við ölumst upp í og því (eða þeim) sem við kjósum að búa í eftir að við komumst á fullorðinsaldur. Samfélögin sem við tilheyrum (og tilheyrðum) hafa áhrif á viðhorf okkar, þó því fari fjarri að þau áhrif séu á einn veg.

Með þessu má að hluta skýra meiningarmun milli búsvæða (t.d. hið hefðbundna reipitog milli höfuðborgar og landsbyggðar) sem gengur jafnan þvert á kyn, aldur, atvinnu, menntun, stjórnmálaskoðanir og annað það sem líka hefur áhrif á hvernig við hugsun. Hvað af persónulegri reynslu trompar svo annað er hins vegar ekki alltaf auðvelt að sjá fyrir þegar kemur að einstökum málum. Svo erum við líka félagsverur og höfum ríka tilhneigingu til að skipa okkur í hópa, m.a. eftir uppruna eða aldri.

Það er einmitt aldursmunurinn sem ég er dálítið hugsi yfir núna. Kynslóðabil hefur líklega alltaf verið til staðar. Sem er svo sem ekki að undra. Samfélög taka breytingum og við drögum dám af þeim breytingum, en hvernig við vinnum úr því ræðst m.a. af fyrri reynslu. Við breytumst líka sjálf með hækkandi aldri. Sumir kalla það þroska. Persónulega finnst mér sú skýring afskaplega yfirlætisfull gagnvart þeim sem eru yngri enda er henni oftast beitt af þeim sem virðast telja að hækkandi aldur einn og sér gefi skoðunum þeirra meiri vigt – óháð því þó þær byggist mögulega á þröngsýni og sleggjudómum.

Mér hefur fundist ég greina aukinn skilningsskort og óþol milli kynslóða á Íslandi undanfarin ár. Maður rekur augun í skrif eldra fólks sem talar um þá yngri sem reynslulausa, heimtufreka letingja sem aldrei hafi þurft að leggja neitt á sig. Og á móti sér maður hæðnisleg skrif yngra fólks þar sem hinir eldri eru afgreiddir sem forpokaðar og íhaldssamar tímskekkjur sem skilji ekki samtímann. Þessir aldursfordómar ganga í báðar áttir. Kannski væri réttara að segja í allar áttir.

En af því mér finnst sem þetta sé að aukast þá velti ég fyrir mér hvað veldur. Það sem ég staldra við er hvort meginástæðan sé sú að íslenskt samfélag hafi þróast þannig undanfarna áratugi að samgangur milli aldurhópa hafi minnkað. Raunar finnst mér það líkleg skýring, kannski af því hún rímar við mína eigin reynslu frá uppvaxtarárunum. Er það e.t.v. orðinn veruleiki margra í dag að fólk á ólíkum aldri (t.d. á tvítugsaldri og sjötugsaldri) umgengst sáralítið nema í gegnum fjölskyldutengsl? Ýtir samfélagið í dag undir hólfun eftir aldri? Séu svörin við báðum þessum spurningum já, er kannski ekki að undra að skilningsskortur og óþol milli kynslóða fari vaxandi. Við erum jú jafnan dómhörðust þegar þekking okkar á aðstæðum annarra er minnst.

 

„Já, látt‘ann heyra það!“

Þessa setningu eða einhverja náskylda útgáfu hennar hafa flestir einhvern tíma heyrt. Jafnvel oft og ítrekað. Ég hef oft heyrt þennan frasa og líklega einhvern tíma notað hann sjálfur. Þó blessunarlega sé orðið það langt síðan síðast að ég man ekki eftir neinu tilviki.

Það sem felst í hvatningunni sem þessi orð mynda er ekki að ræða málin af yfirvegun með það í huga að komast að skynsamlegri niðurstöðu sem sátt sé um. Nei, í þessu felst að sá sem hvatningin beinist að eigi að skeyta skapi sínu á einhverjum. Hella skömmum og skætingi yfir þann sem viðkomandi er ekki sáttur við. Æsa sig og reyna að þagga niður í andstæðu viðhorfi með því að einoka umræðuna og sleppa sér lausum – beita jafnvel illyrðum og ógnunum. Þessi frasi og aðrir sömu gerðar eru hvatning til andlegs ofbeldis, þess að reyna að hafa sitt fram og vinna einhverskonar sigur í samskiptum með hörku og yfirgangi. Gildir þá einu hver málstaðurinn er.

Þetta er úrræði þeirra sem eiga erfitt með rökræður og vita líklega innst inni að þeir hafi ekki sitt fram í gegnum þær. Þetta er endurspeglun pirrings og reiði sem safnað er saman og er svo látinn gjósa. Oft á kostnað einhvers sem ekki á mikla sök á pirringnum eða reiðinni. Þetta er leið þeirra sem jafnan eru undirleitir gagnvart hverskonar valdi en gjósa svo yfir þá sem þeir telja sig ráða við. Þetta er eitt skýrasta einkenni íslensku þrætuhefðarinnar (oft kölluð umræðuhefð) og blasir víða við í einhverri mynd á samfélagsmiðlum og í kommentakerfum.

Ef við viljum bæta samskiptahætti okkar og umræðuhefð er mikilvægt að spyrna gegn hegðun sem þessari. Vinna gegn því að það sé talið eðlilegt og sjálfsagt að leyfa reiði að byggjast upp þar til hún brýst út með því að maður hellir sér yfir samferðamenn sína. Ekki svara mér því til að það séu nú bara mannlegt að koma svona fram. Slík eðlishyggju-svör eru engin rök. Þau eru aðeins afsökun fyrir hegðun sem er mótuð af umhverfi en er ekki meitluð í stein.

Það er niðurdrepandi að búa við aðstæður þar sem einu viðbrögðin sem þú færð við orðum þínum og gjörðum eru aðfinnslur og skammir. Þetta þekkja margir sem starfað hafa í félagsmálum og stjórnmálum. Ef þú gerir eitthvað á þeim vettvangi sem orkar tvímælis eða gerir mistök þá má jafnan ganga að því vísu að einhverjir „láti þig heyra það“. En fáir bæra á sér til að hrósa fyrir vel unnin verk (enda mætir slíkt oft aðkasti). Þau eiga að vera sjálfsögð. Svona umhverfi er til þess fallið að drepa niður framtak og frumkvæði fólks og er að mínu viti ein af meginástæðum þess að margt fólk sem fengur væri að í félags- og stjórnmálum er tregt til að gefa sig að þeim.

Við verðum að vera óhræddari við að hrósa því sem vel er gert. Ekki bara okkar nánustu heldur líka öðrum sem við þekkjum kannski lítið eða ekki. Það fylgir því vellíðan og hvatning að fá hrós fyrir það sem maður gerir. En það verður eftir sem áður að vera vegna einhvers sem máli skiptir (ekki hrósa mér fyrir að loka útidyrahurðinni á eftir mér eða fyrir að smjatta ekki á matnum). Líkt og oflof verður að hæðni verður hrós að markleysu ef það er ofnotað. En trúlega er hættan af því ekki mikil á Íslandi, allavega ekki í almennri umræðu. En hvað sem því líður ætla ég að reyna að vera duglegri við að hrósa fólki fyrir það sem það gerir vel. Láta fólk í kringum mig heyra einmitt það.