Ferðin

Mér þykja flugferðir yfirleitt ekki skemmtilegar og hlakkaði því ekki neitt sérlega til að vakna um miðja nótt (aðfaranótt síðasta mánudags) til að fara til Keflavíkur. Hef aldrei verið morgunhressa týpan! En þangað komst ég þó tímanlega og var ásamt öðrum farþegum smalað í flugvél Wow Air á tilsettum tíma. Þar fengum við svo að sitja í klukkustund áður en lagt var af stað. Ástæðan var bið eftir farþegum úr tengiflugi. Hvort sem það var ástæðan eða ekki þá byrjaði fljótlega í fluginu kritur milli sætaraða skammt fyrir aftan mig. Tungumálaörðugleikar gætu hafa spilað inn í en tilburðir til flugdólgsháttar voru til staðar. Flugfreyjan þaggaði hins vegar snarlega niður í þeim sem átti upptökin (að ég tel). Það gerði hún kurteislega en ákveðið og ekki á þann sykursæta og blíða hátt sem steríotýpu flugfreyja Wow Air myndi gera í auglýsingu frá félaginu. En friður hélst og það var fyrir mestu.

Ef Íslendingar eru ósáttir við verðlag á matvælum heima þá ættu þeir að bregða sér á Kastrup og kaupa sér að éta þar. Syfjaður dröslaðist ég inn á veitingastað og pantaði mér borgara og bjór – án þess að spá mikið í því hvað það kostaði. Ég var auðvitað draumaviðskiptavinurinn þarna – soltinn og án nokkurrar verðlags-tengingar. Þessi staður var ábyggilega opnaður fyrir fólk eins og mig.

Að endingu lenti ég í Varsjá eftir stutt flug þangað frá Köben. Þetta var möguleg einhvers konar karlakórsferð sem ég var staddur í því að ca. 70% farþeganna voru boldangskarlar á miðjum aldri sem maður átti auðvelt með að máta í að vera annað hvort tenórar eða bassar. Sá engan líklegan kontratenór samt.

Eftir að hafa endurheimt eigur mínar af bandinu gerði ég mig líklegan til að næla mér í leigubíl. Við útganginn röltir til mín vörubílstjóra-legur-karl og spyr mig hvort ég sé að leita að bíl. Ég játti því og þá vísaði hann mér á röðina þar sem stóðu kyrfilega merktir leigubílar. Eftirá komast ég að því að ástæðan fyrir þessu er tvíþætt: leigubílafyrirtækin eru að verja hagsmuni sína og jafnframt að verja grunlausa túrista fyrir ólöglegum leigubílum sem reyna að lokka til sín opinmynnta ferðamenn og rukka þá óhóflega og af lítilli kurteisi fyrir aksturinn. Ég fékk hins vegar notalegan eldri mann sem bílstjóra og saman nutum við þessa að hlýða á einhverskonar pólska útgáfu af Gulbylgjunni þar til hann skilaði mér á leiðarenda.