Dálítið týndur en samt glaður

Þegar maður kemur úr umhverfi sem maður þekkir vel og gengur inn í samfélag sem maður hefur aldrei tekið þátt í verður maður óhjákvæmilega að hugsa og hegða sér á annan hátt en maður er vanur. Þetta eru svo sem engin ný tíðindi. Einkum fyrir þá sem hafa ferðast á eigin vegum eða flust búferlum til annarra landa. Fyrir mig er hins vegar margt nýtt við þessa reynslu.

Ein ástæða þess að ég stökk á það tækifæri að fara hingað til Varsjár í skiptinám var að mér fannst vanta í minn reynslubanka að hafa búið erlendis. Ég hef prófað mörg búsetuform á Íslandi og á að baki nokkrar ferðir sem túristi erlendis. En að fara til að búa er ekki það sama og að vera túristi. Það vissi ég (af reynslu annarra) áður en ég fór og það blasir við mér á þessum fyrstu dögum.

Hafandi búið í miðbæ Reykjavíkur síðastliðið ár (og áður í sex ár skömmu uppúr síðustu aldamótum) er ég orðinn vanur því að á vegi mínum verði stóreygir og opinmynntir ferðamenn sem skima í allar áttir, ráfa stefnulítið og taka mikið af myndum. Dálítið týndir en almennt voða glaðir með lífið og tilveruna. Ég hef stundum labbað framhjá hverjum ferðamanninum á eftir öðrum á leið minni yfir Skólavörðuholtið, nývaknaður og úrillur af nepjunni og ónógri kaffidrykkju. Þá hefur stundum gerst að ég hef látið einhvern sem ég mæti pirra mig af því hann/hún er of upptekinn af því sem fyrir augu ber hinum megin götunnar. Jafnvel svo mjög að viðkomandi er við það að klessa á mig þegar ég labba framhjá.

En skyndilega er ég kominn í einmitt þetta hlutverk. Allt er nýtt og margt er öðruvísi en heima. Ég er strax farinn að skammast mín fyrir pirringinn á Skólavörðuholtinu. Þessir dagar hér hafa fengið mig til að hugsa um hvað það er auðvelt að festast í sínu umhverfi, þar sem manni finnst flest liggja ljóst fyrir, og fara ósjálfrátt að stimpla þá sem hálfgerða einfeldninga sem virðast eiga erfitt með að ráða fram úr því sem heimanninum þykja “sjálfsagðir hlutir”.

Síðustu daga hef ég þurft að leita að öllu sem mig vanhagar um. Skólanum, verslunum, strætóstoppum o.s.frv. Ég geng ekki að neinu vísu. Og í landi þar sem fleiri en færri sem maður hittir eru ekki talandi á ensku hef ég þurft að brosa meira en ég geri venjulega og nota ýmiskonar látbragð til að gera mig skiljanlegan. Verð líklega betri í actionary eftir dvölin hér. Ég þarf að vera auðmjúkari en ég er vanur – sem er mjög hollt. Ég hef stundum þessa fyrstu daga upplifað mig dálítið ósjálfbjarga og smærri en ég er vanur – en það er samt mjög gott. Og hollt. Hvers vegna? Jú, vegna þess að ástæðan er að ég er að læra eitthvað nýtt, kynnast einhverju nýju, afla mér reynslu sem ég fengi ekki annars. Þetta hefur verið góð reynsla og ánægjuleg og vonandi verður svo áfram.

Ég held að ég muni koma kurteisari, brosmildari og umburðalyndari heim í apríl.

One thought on “Dálítið týndur en samt glaður

Comments are closed.