Veður og færð

Það er vel þekkt að félagsmótun og uppruni setur mark sitt á mann. Verandi Íslendingur og alinn upp í sveit er ég sífellt að spá í veðri – og á veturna líka í færð á vegum. Íslenskir sauðfjárbændur eiga mikið undir veðurfari og því er eðlilegt að sá hluti félagsmótunar skuli vera ríkur í mér. Og þó ég hafi búið í þéttbýli meira og minna síðustu 20 ár leitast ég alltaf við að hafa á hreinu hvernig veðurspáin er og hvort eitthvað sé tíðinda af færð – jafnvel þó að ég sé í Reykjavík og eina ferðalag mitt þann daginn sé í skólann og til baka aftur. Þetta er bara greipt fast í mig.

Að sjálfsögðu var þessi ríka tilhneiging til veðurrýni með í farangrinum hingað til Varsjár. Ekki aðeins fylgist ég með því hvað er framundan í veðrinu hér – sem er sannarlega ekki eins fjölskrúðugt og breytilegt eins og heima á Íslandi – heldur hef ég ekki misst af veðurfréttunum á RÚV eitt einasta kvöld á þeirri viku sem liðin er síðan ég kom hingað. Áráttuhegðun, einhver??? 😉

En til að viðhalda áráttunni þarf maður að ræða veðrið. En hér hef ég engan til þess. Jú, ég hef reyndar reynt en það eina sem heimamenn segja er: “Já, það er ansi kalt.” Þar með er það útrætt af þeirra hálfu. Þetta er fjarri því nóg til að svala þörf Íslendingsins til að tjá sig um veðrið í löngu máli og í tíma og ótíma. En þetta er skiljanlegt. Hér hefur verið hægviðri og kalt alla daga síðan ég kom hingað. Eina breytingin var þegar snjóaði svolítið á föstudagskvöldið. Við það varð Indverji sem varð a vegi mínum mjög uppnæmur, enda hafði hann aldrei séð þetta áður. Brosti eins og krakki í leikfangabúð þar sem hann mændi á snjóhulið umhverfið og flögrandi snjókorn. Ég reyndi að spilla ekki gleðinni fyrir honum þó mér þætti þessi logndrífa frekar hversdagsleg. Þegar ég sagðist svo vera frá Íslandi kom örlítið skrítinn svipur á manninn – svona eins og hann héldi að ég væri að grínast.

En þrátt fyrir snjóinn sem féll voru gangstéttir hér flestar auðar daginn eftir, sem er mjög gott fyrir mann sem hefur það á afrekaskránni að hafa fótbrotnað við að detta í hálku á leiðinni á barinn á nýársnótt. En það voru ekki hlýindi sem ollu því að gangstéttirnar eru auðar. Nei, hér stökkva menn af stað, hver sem betur getur um leið og hættir að snjóa og skafa gangstéttir og tröppur. Hér og þar mátti sjá fólk sveifla handverkfærum við snjóhreinsun. Og það eru ekki bara íbúarnir sem nota handverkfærin. Ég vildi að ég hefði munað að taka mynd af sturtuvagninum sem ég sá kúffullan af snjó á laugardaginn, en skammt frá honum var vinnuflokkur vopnaður sköfum og skólfum.

Þá er ég búinn að tjá mig á íslensku (við Íslendinga) um veður og færð í Varsjá og get því farið ánægður í rúmið.