Frá einum stað til annars

Eitt af því sem maður þarf að kanna fljótt á nýjum slóðum er hvernig maður kemst milli staða.

Fyrstu dagana mína hér labbaði ég það sem ég þurfti að fara. Var þá oft á gangi í hátt í 2 klukkutíma á dag. Það er reyndar þægilegt að vera gangandi hér því að landið er frekar flatt, gangbrautir góðar og ökumenn taka gott tillit til gangandi vegfarenda. Skylst að viðhorf ökumanna til hjólreiðafólks sé ekki alltaf jafn skilningsríkt. Samt er ágætlega búið að hjólafólki og eru sérmerktir stígar fyrir það við flestar helstu samgönguæðar sem ég hef farið um. Mér virðist þó vera frekar lítið um að fólk sé hjólandi, hvort sem það er árstíminn sem veldur eða að það sé ekki orðin eins útbreitt hér að ferðast á hjóli og það er heima.

Sá ferðamáti sem ég hef notað hér (annað en fæturnir og leigubíllinn frá flugvellinum) eru strætisvagnar. Það er mjög þægilegt að nota strætó hérna og tíðni ferða er góð. Vagnar á þeim leiðum sem ég hef ferðast með eru yfirleitt á 10 mín fresti frá morgni til kvölds. Nýting á vögnunum er líka góð og stutt á milli stoppa. Á annatímum er sjaldgæft að nokkurt sæti sé laust og á göngunum er staðið þétt. Einn morguninn varð ég að sleppa fyrsta vagninum sem kom á biðstöðina mína og taka næsta því að sá fyrri var svo troðfullur af fólki að það var ekki pláss fyrir fleiri. Samt eru þetta stórir vagnar sem ganga héðan og til miðborgarinnar – c.a. helmingi stærri en strætóarnir heima. Vagnarnir hér eru líka góðir hvað snertir upplýsingar. Skilti yfir stoppustöðvar viðkomandi leiðar er í öllum vögnum og í þeim nýjustu eru skjáir sem veita ýmsar upplýsingar og láta vita með hljóði og mynd um næsta stopp.

Í borginni er sporvagna- og lestakerfi en ég hef ekki ennþá þurft á því að halda. Það er kostur hér, fyrir þá sem þurfa að nota fleiri en eina gerð almenningssamgangna, að sömu miðarnir ganga í allt þrennt (strætó, lest og sporvagn). Það er hægt að kaupa ýmsar gerðir miða og sjálfsalar fyrir ódýrustu gerðirnar eru mjög víða. Auk þess er hægt að kaupa miða í litlum söluturnum sem eru víða við aðal umferðargöturnar.

Þrátt fyrir almenna notkun borgarbúa á öllum aldri á almenningssamgöngum er bílaumferðin nokkuð þung, einkum síðdegis. Bílaflotinn hér er frekar nýlegur tilsýndar, virðist á svipuðum aldri og almennt gerist heima (16 ára gamli jepplingurinn minn myndi hýfa meðalaldurinn upp hér eins og heima). Gatnakerfið sýnist mér vera ágætt en þar sem ég hef ekki keyrt bíl hér er ég tæplega dómbær á það. Leigubílar eru víða og virðist því tiltölulega einfalt að ná í slíkan ef á þarf að halda.

Upplifunin mín er sú að Varsjá er borg almenningssamgangna frekar en bílaumferðar. Hvort það er meðvituð stefna Varsjárborgar eða tilviljun sem ræður þá staldraði ég við að ódýrustu miðarnir í strætó (lestir og sporvagna) eru nokkru ódýrari en bensínlítrinn. Ódýrasti miðinn kostar ca. 108 kr. íslenskar meðan bensínlítrinn er á ca. 135 krónur.