Ekki sama áskorun og fyrr

Eins og ég hef sagt hér áður þá hef ég upplifað mig dálítið týndan fyrstu dagana í þessari borg, sem ég hef aldrei heimsótt áður. Borg sem er fjölmennasta samfélag sem ég hef búið í til þessa. Skrefin út í heiminn úr Breiðdal æsku minnar hafa verið mörg. Þetta er eitt það stærsta.

Samt er ekki yfir neinu að kvarta. Ég kann vel við Varsjá og er smám saman að komast betur inn í samfélagið hérna. Hef hins vegar efasemdir um að þessir þrír mánuðir muni duga mér til að komast sem neinu nemur inn í tungumálið. Enda það að læra tungumál aldrei verið mín sterka hlið. Er rétt svo búinn að læra að bjóða góðan daginn á pólsku (dzień dobry), en þekkingin nær ekki mikið lengra. Reikna því með að þurfa áfram að nota handapat, bros og kurteisi til að komast áfram þegar viðmælandinn er ekki talandi á ensku.

En ferðalög sem þetta samt orðin miklu mun einfaldari en maður ímyndar sér að þau hafi verið áður fyrr. Tilkoma internetsins og allra þeirra upplýsinga sem þar má finna einfaldar afskaplega margt. Með nettengingu getur maður ráðið fram úr flestu sem maður þarf að ráða fram úr. Ég á sannast sagna erfitt með að ímynda mér hvernig hefði verið að koma hingað fyrir segjum 25-30 árum. Miðað við þann kynslóðamun sem ég finn á enskukunnáttu hér hefði enskumælandi Íslendingurinn væntanlega verið alveg mállaus í samfélaginu og lítt geta stuðst við merkingar á tungumáli sem hann gæti lesið. Hefði því þurft að leita, gangandi eða akandi, að öllu sem hann hefði vanhagað um.

Þó er líklega annar kynslóðamunur sem vegur á móti. Ég held að eldri kynslóðir (ekki bar á Íslandi heldur víðar) hafi haft mun betra sjónminni en mín kynslóð og fólk yngra en ég. Hafi munað betur staði og verið ratvísara. Við sem ólumst upp við sívaxandi upplýsingaflæði og sífellt betra aðgengi að upplýsingum höfum ekki sömu þörf fyrir að muna. Við þurfum meira á því að halda að kunna að leita í upplýsingafrumskóginum.