Mótmæli

Áður en ég kom hingað – og raunar einnig síðan – hef ég lesið um pólitíska ólgu í Póllandi vegna aðgerða núverandi ríkisstjórnar, sem tók við völdum í október. Í dag fylgdist ég með þessari ólgu í návígi.

Um hádegisbil rölti ég af stað í gegnum Lazienki garðinn áleiðis niður í miðborg. Þegar ég hafði gengið nokkra stund fór ég að verða var við lúðrablástur og heyrði rödd berast í gegnum hátalara. Ég beygði af aðalstígnum í garðinum inn á annan sem liggur í áttina að hliðinu sem er beint framan við forsætisráðuneytið, sem er við sömu götu og ég bý við. Ráðuneytið er raunar í ca. 7-8 mínútna göngufjarlægð frá dvalarstað mínum.

Þegar ég kom út úr garðinum blasti við mér mannfjöldi. Fólk á öllum aldri, sumt með börnin sín með sér, hafði safnast saman fyrir framan forsætisráðuneytið og sífellt bættust fleiri við. Lítið var um mótmælaskilti en þeim mun meira um að fólk sveiflaði fánum – þeim pólska og fána ESB. Ég gekk inn í hópinn og fór að svipast um eftir einhverjum sem væri líklegur til að geta skýrt fyrir mér tilefni mótmælanna.

Ég gaf mig á tal við mann – á að giska á fertugsaldri – sem talaði ágæta ensku.  Hann sagði mér að þessi mótmæli beindust gegn ríkisstjórninni og ýmsum aðgerðum hennar. Af þeim má helst telja umdeilda skipan í stjórnlagadómstól Póllands, lagasetningu á ríkisfjölmiðla (sem setur þá undir beina stjórn fjármálaráðherrans) og það nýjasta, sem eru lög sem gefa lögreglunni víðtækar heimildir til að fylgjast með borgurunum og afla gagna um þá. Það síðast talda var megintilefni mótmæla dagsins. Viðmælandi minn sagði að þessi mótmæli væru vikulega enda fjölgaði sífellt tilefnunum. Ég tók einmitt eftir því um síðustu helgi þegar ég var að koma með strætó úr miðborginni að þá var gatan lokuð og mér var sagt að það væri vegna mótmæla.

Þó mótmælin væru friðsöm og lögreglumenn sem þarna voru víða virtust mjög afslappaðir þá leyndu áhyggjurnar sér ekki í svip fólksins. Viðmælandi minn sagði að hann og margir aðrir upplifðu atburði síðustu vikna þannig að stjórnvöld væru markvisst og vísvitandi að grafa undan lýðræði í landinu. Fólk byggist ekki við að stjórnin léti staðar numið við það sem hún hefði þegar gert. Hann sagði að fólkið sem þarna væri að mótmæla vildi sýna í verki að það vildi verja lýðræði og frelsi í landinu. Samskonar mótmæli væru í flestum stærstu borgum Póllands og víða meðal Pólverja búsettra erlendis.

Þrátt fyrir kuldann í dag (10 stiga frost) var gríðarlegur mannfjöldi saman kominn. Viðmælandi minn sagði að það hefði verið áætlað að um 20 þúsund manns myndu koma og ég held að það hafi síst verið vanáætlað. Þegar ég olnbogaði mig út úr hópnum og hélt áfram áleiðis til miðborgarinnar mætti ég samfelldri röð fólks sem greinilega var á leið til mótmælanna. Þegar ég svo sneri aftur heim á leið tæpum tveimur klukkustundum síðar mætti ég mótmælendum þar sem þeir gengu fylktu liði í átt til forsetahallarinnar. Þá sá ég enn betur hversu gríðarlega fjölmenn mótmælin voru.

Pólskur samnemandi minn svaraði mér í vikunni á eftirfarandi hátt, þegar ég spurði hann um stjórnmálaástandið hér: “Við lifum á áhugaverðum tímum.”
Ég held að það sé nokkuð til í því.