Skólinn – fyrstu kynni

Skólinn sem ég stunda nám við þessa dagana heitir á ensku Graduate School for Social Research (GSSR). Þetta er sjálfstæð stofnun sem ekki er hluti af Varsjárháskóla, eins og ég hélt raunar áður en ég kom hingað. GSSR er þó steinsnar frá Varsjárháskóla í miðborginni og fer ég úr strætónum beint fyrir framan aðalinngang Varsjárháskóla.

GSSR er (eins og nafnið ber með sér) háskóli fyrir framhaldsnema (masters- og doktorsnema) í félagslegum rannsóknum. Áherslan er á félagsfræði og heimspeki og dregur framboð af námskeiðum dám af því. Sagnfræðingurinn var samt ekki í vandræðum með að finna eitthvað við sitt hæfi. Hafði raunar aldrei áhyggjur af því þar sem skil milli fræðigreina hafa með tímanum gerst óljósari enda margt gagnlegt hægt að sækja til annarra greina en þeirrar sem maður sjálfur leggur stund á. Íslenskur sagnfræðingur sem ástundar félags- og menningarsögu er því ágætlega staðsettur í GSSR.

Skólinn hefur víðtækar tengingar við háskólastofnanir í öðrum löndum, bæði innan og utan Evrópu, og er t.a.m. í formlegum tengslum við Lancaster University í Bretlandi. Liður í því er líka að laða hingað námsmenn víðsvegar að úr heiminum auk heimamanna. Þetta virðist hafa tekist ágætlega því að á þessum fyrstu dögum mínum hér hef ég rætt við samnemendur frá Eþíópíu, Nígeríu, Nepal, Turkmenistan, Kambódíu, Makedóníu og Úkraínu, auk Pólverja. Þrátt fyrir þessi fjölbreyttu þjóðerni hef ég þó ekki enn hitt nema lítinn hluta nemendanna. Ástæða þess er sú að fyrsta misseri af þremur er að ljúka nú um mánaðamótin og nemendurnir hér í GSSR eru önnum kafnir við verkefna- og ritgerðaskil. Ég reikna með að hafa meira af þeim að segja þegar nýtt misseri hefst í byrjun febrúar.

Misserin hérna eru þrjú. Það fyrsta hefst í október og lýkur núna í lok janúar. Í byrjun febrúar hefst annað misseri sem stendur til loka apríl og þriðja misserið hefst í byrjun maí og stendur til loka júlí. Það veldur mér örlitlum vandræðum að koma inn á miðju námsári vegna þessa að verulegur hluti námskeiðanna sem eru í boði eru kennd tvö samliggjandi misseri eða spanna öll misserin. En það kemur fljótt í ljós hvort ég fæ að sækja þau námskeið sem ég óskaði eftir.

Og þar til nýtt misseri hefst hef ég af nógu að taka við mína eigin rannsókn.