Þróun sem verður að stöðva

Ég er hugsi yfir pólitískri þróun í Evrópu. Lagasetningin í danska þinginu í gær sem heimilar yfirvöldum að gera upptækar eigur hælisleitenda hefur hneykslað marga og ekki að ástæðulausu. Hún er beinlínis ógeðfelld og  jafnframt nýjasta merkið um þróun sem er varasöm, raunar uggvænleg.

Undanfarin ár hefur fylgi vaxið við stjórnmálaflokka, bæði á Norðurlöndum og víðar um álfuna, sem vilja taka harðar á flóttafólki, útlendingum og fólki af öðrum uppruna og trúarskoðunum en eru ríkjandi í landinu. Þetta er hægrisinnaðir flokkar sem ala á populisma. Talsmenn þeirra eru óbilgjarnir í orðum og boða einfaldaðar lausnir við flóknum úrlausnarefnum. Gefa sig út fyrir að vera þeir sem þora þegar hefðbundin stjórnmálaöfl hiki. Orðaræða þessara flokka elur markvisst á ótta og þjóðernisrembingi og leitast við að stilla þeim sem ekki falla að staðalmyndum þeirra upp sem ógn. En í raun eru það þessir flokkar og þeirra fylgismenn sem eru hin eiginlega ógn. Þeir eru ógn við mannréttindi og lýðræði með sinni þjóðernissinnuðu einangrunarhyggju. Því miður þarf maður ekki að leita lengi í opinberri umræðu heima á Íslandi, hvað þá á samfélagsmiðlum, til að finna viðhorf sem rýma við þau sem hér er lýst.

Til viðbótar stjórnmálaflokkum sem hafa áðurnefndan boðskap hafa víða í Evrópu sprottið upp hópar sem ganga enn lengra. Í þeim kemur saman fólk undir merkjum illa dulinni kynþáttahyggju og hótana um ofbeldi. Áhyggjur mínar snúast ekki um tilvist þessara hópa sem slíkra, heldur að því að þau viðhorf sem þeir boða eru tekin að hafa sýnileg áhrif á hvernig sumum ríkjum álfunnar er stjórnað. Dæmið frá Danmörku kemur þar strax upp í hugann. Annað dæmi er svo Ungverjaland sem hefur verið á leið frá lýðræði til fasísks einræðis undanfarin ár. Það sést m.a. í því hvernig þar hefur verið þrengt að fjölmiðlum og á framgöngu stjórnvalda þar gagnvart flóttafólki. Skýr merki eru á lofti um að núverandi stjórnvöld hér í Póllandi sé lögð af stað í svipaða vegferð.

Og hvað er hægt að gera? Við því er ekkert einfalt svar. Hins vegar er alveg á hreinu hvað á ekki að gera. Við sem viljum viðhalda og verja lýðræði, mannréttindi og frelsi fjölmiðla og viljum sjá samfélög okkar þróast sem umburðalynd, víðsýn og fjölbreytt megum ekki sitja þegjandi og vona að þessi óáran líði hjá. Því hún mun ekki hverfa nema tekist sé á við hana. Hún þrífst á þögn meginþorra fólks sem vill fá að lifa í friði og forðast pólitísk átök – er jafnvel áhugalítið um stjórnmál og samfélagsmál yfirleitt. Þessa þögn túlka populistar síðan blygðunarlaust sem stuðning við sinn málstað. Málstað sem byggir á ætlaðri ógn sem andlýðræðisleg öfl reyna að nota til að skerða réttindi fólks, oftast í nafni öryggishagsmuna eða annarra ástæðna sem þau gefa sér.

Pólverjar hafa þúsundum saman farið út á götur um hverja helgi síðan fyrir jól og mótmælt friðsamlega þeim aðgerðum stjórnvalda sem mótmælendur telja ganga gegn lýðræði í landinu. Þeim sem hingað kemur (og ekki hefur fylgst neitt með þróun mála) kynni að koma það á óvart að hér sé pólitísk ólga enda borgin friðsæl og ekkert að sjá dagsdaglega sem vekur ótta. En þetta er yfirborðið. Sú þróun sem ég er að vara við gerist sjaldnast í stökkum heldur í smáum skrefum sem geta verið búin að leiða fólk langt af leið áður en það áttar sig. Og þá kann að vera erfitt að snúa við.

Tortryggni gagnvart öðru fólki vegna litarháttar, þjóðernis, trúarbragða eða annars elur á samfélagslegri aðgreiningu og fordómum sem geta (og hafa) brotist út í ofbeldi. Kynþáttahyggja og þjóðernisrembingur hafa áður fengið að þróast með skelfilegum hætti í Evrópu – oftar en einu sinni og oftar en tvisvar á undangenginni öld. Það eru ekki nema 20 ár síðan fjöldamorð á óbreyttum borgurum áttu sér stað á Balkanskaga, réttlætt með þjóðernisrembingi og aðgreiningu milli trúarhópa. Verum ekki svo bláeyg að halda að það geti ekki gerst aftur.