Brennivín, pillur og skýrara verðskyn

Yfirskrift þessa pistils er ekki stutt lýsingin á mínu plani fyrir helgina. Hún mun verða fremur hófstillt hjá mér. Mun einkennast af rölti og safnaferðum. Jú, ef til vill þátttöku í mótmælum. Og kannski verslunarferð, ef ég nenni.

Á nýjum stað þarf maður að finna út úr ýmsu, þ.á m. hvar maður nálgast þá verslun sem mann vanhagar um. Ég er farinn að verða örlítið hagvanur miðborg Varsjár og næsta nágrenni dvalarstaðar míns og því búinn að uppgötva nokkuð hvað er hvar af því sem mig vanhagar um.

Maður fer ósjálfrátt að miða þessa hluti – líkt og ýmislegt annað raunar – við það umhverfi sem maður þekkir að heiman. Í slíkum samanburði verður þó auðvitað að taka tillit til mismunar í íbúafjölda milli Reykjavíkursvæðisins og Varsjár (sem telur alls ríflega 2,6 milljónir íbúa þegar samliggjandi bæir eru taldir með). Auk þess ber að ítreka að sá hluti Varsjár sem ég er orðin kunnugur er miðborgin og næsta nágrenni hennar.

Ég staldraði fljótt eftir komu mína hingað við hversu mikið er af verslunum. Allskyns verslunum – út um allt. Af ýmsum stærðu – þó flestar séu smáar. Verslanir í miðborginni virðast lifa ágætu lífi þrátt fyrir tilkomu verslunarmiðstöðva. Það kom mér reyndar á óvart að verslunarmiðstöðvarnar sem ég hef komið í eru ekki eins stórar og ég hafði búist við. Á að giska svipaðar Kringlunni að flatarmáli – jafnvel heldur minni.

Hér þarf maður ekki að labba langan veg til að versla í matinn. Ég veit um 5 litlar matvöruverslanir í innan við 5 mínútna göngufæri frá dvalarstað mínum (líklega eru þær fleiri) sem er í um 40 mínútna göngufjarlægð frá miðborginni. En þær eru allar litlar og vöruúrvalið takmarkað. Minna helst á ríflega stórar vegasjoppur heima hvað snertir fjölda vörutegunda, þó samlíkingin nái ekki mikið lengra.

Það er líka óþarfi að fara langan veg eftir bjór, léttvíni eða sterku víni. Ef það sem maður leitar að fæst ekki í matvöruverslunum (tegundavalið af áfengi er þó takmarkað í litlu búðunum, eins raunar úrval af öðru þar) þá eru litlar áfengisbúðir víða. Kyrfilega merktar ALKOHOL. Held að það hljóti því að vera erfitt að vera afturbata-alki hérna. Síðan eru söluturnarnir, litlu kassalaga plexigler-sjoppurnar sem selja gosdrykki, nammi, strætómiða, blöð, tóbak o.fl. Þær eru með reglulegu millibili við fjölfarnar götur.

Það sem ég er þó mest hugsi yfir er mikill fjöldi apóteka. Þau eru það þétt í miðborginni að það má líkja því við söguna sem ég heyrði einhvern tíma af kirkjum í Skagafirði, þ.e. að ef þú værir staddur við eina þá sæirðu alltaf allavega eina aðra. Vitanlega má fá fleiri í þessum apótekum en lyf og væntanlega bera þau sig þrátt fyrir fjöldann. En þetta er eitt af því sem opinminntur ferðalangur klórar sér í höfðinu yfir.

Í dag las ég grein á íslenskri fréttasíðu þar sem fyrrum viðskiptaráðherra, Gylfi Magnússon, gagnrýnir kreditkortafyrirtækin fyrir næsta hömlulausa gjaldtöku. Hef ekki sett mig mikið inn í þessi mál en á þó ekki erfitt með að trúa því að slík gagnrýni sé réttmæt. Síðan ég kom hingað hef ég reynt að venja mig á að nota reiðufé. Manni finnst þetta skrítið, verandi vanur því að sveifla kortum seint og snemma heima á Íslandi, og vera nær aldrei með pening á sér. En það er eitt sem ég rek mig á strax við að taka þetta skref (til baka myndi einhver segja). Verðskynið verður allt annað. Þegar maður er að meðhöndla peninga daglega og sér þeim fækka í veskinu er maður meira með á nótunum um eyðsluna. Ég fer því með brosi á vör í hraðbankana hérna. En þeir eru eins og apótekin – út um allt.