Helgarröltið

Sá staður hér í Varsjá sem heimamenn eru mjög samtaka um að benda manni á að skoða er gamli bærinn. Það staðfestist hér með að sú ábending er góð enda mjög gaman að labba þarna um og virða fyrir sér húsin og mannlífið.

Gamli bærinn í Varsjá var upprunalega reistur á 13. öld og var girtur með borgarmúrum. Hann ásamt konungshöllinni, sem stendur við Kastalatorgið í jaðri gamla bæjarins, eru á lista UNESCO yfir friðaðar menningarminjar. Fyrir leikmann er þó erfitt að átta sig á hvað eru minjar og hvað endurgerðir í gamla bænum. Hann hefur verið endurnýjaður margsinnis, m.a. bæði fyrir og eftir aðra heimstyrjöldina þegar þýski herinn eyðilagði gamla bæinn með skipulegum hætti.

Þegar ráðist var í uppbygginguna eftir stríðið var leitast við að hafa endurgerðina eins “upprunalega” og hægt var, m.a. með því að nota það efni sem nýtilegt var úr rústunum sem þýski herinn skildi eftir sig. Hvort endurgerðin er vel heppnuð út frá byggingafræði skal ósagt látið (enda hef ég takmarkaða þekkigu á því) en hún er allavega mjög sjarmerandi. Í miðjum gamla bænum er markaðstorgið sem á sér jafn langa sögu og bærinn sjálfur. Það var fram á 18. öld miðpunktur allrar borgarinnar.

Þó gamli bærinn sé ekki stór að flatarmáli þá er auðvelt að eyða tímanum þar. Virða fyrir sér húsin og virkismúrana og njóta útsýnisins yfir Vistulu, lengsta og vatnsmesta fljót Póllands, sem rennur gegnum landið frá landamærunum við Tékkland. Ég er nú þegar búinn að fara tvisvar um gamla bæinn og á örugglega eftir að fara nokkrar ferðir til viðbótar.

Myndirnar sem ég birti á facebook síðunni minni í gær eru frá ferð minni um gamla bæinn um nýliðna helgi.