Lífið er núna!

Ég er einrænn. Það eru engin tíðindi, hvorki fyrir sjálfan mig né þá sem mig þekkja. En þó ég sé einrænn og hafi ekki þörf fyrir að vera í næsta stöðugum samskiptum við fólk, frá því ég vakna á morgnana og þar til ég sofna á kvöldin, lít ég ekki svo á að ég sé félagsfælinn. Allavega ekki svo að það hái mér. Hef líklega bara ríka tilhneigingu til að haga hlutunum eftir eigin höfði. Svo er ég sjálfhverfur – eins og svo margir, þó fæstir gangist við því.

Það að vera einrænn hefur oft valdið mér vangaveltum og stundum hef ég verið með hálfgert samviskubit yfir að kjósa frekar einveru og rólegheit fremur en að hitta fólk eða mæta á viðburði, þegar það stendur til boða. Því er ekki að leyna að þetta tengist vafalaust því að ég var verulega þunglyndur í rúman áratug og þá lokaði ég mig oft af. Svo má ekki vanmeta vanann. Hann er eitt sterktasta aflið í okkur flestum og nær oft að halda manni í sömu skorðum. Vaninn ásamt þunglyndinu var líklega það sem hélt mér frá því að prófa skiptinám þegar ég var í HÍ 2000-2006. Ég hugsaði oft um það þá en ég hafði mig aldrei af stað.

Það hljómar kannski sem ákveðin mótsögn að einstaklingur eins og ég ákveði að stökkva til og flytja til framandi lands. Kann að vera. En mér finnst það ekki. Að vera einrænn og sjálfum mér nægur hefur þvert á móti reynst vera ótvíræður kostur þessar fyrstu vikur mínar hér í Varsjá. Ég þekkti engan hér áður en ég kom. Síðan kem ég hingað þegar misseri í skólanum er að ljúka og væntanlegir samnemendur eru á fullu við verkefnaskil og hafa eðlilega lítinn tíma til að spjalla við þann nýkomna. Stundirnar með sjálfum mér hafa því verið margar undanfarið – en lífið er gott.

Mesta átakið og hæsti þröskuldurinn á vegi þess að gera eitthvað nýtt er að taka ákvörðunina. Þetta er eiginlega mjög svipað því að velja á milli þess að eyða kvöldi fyrir framan sjónvarpið eða fara út og hitta fólk, fara á sýningu eða gera eitthvað sem manni ber ekki skylda til. Erfiðasti hlutinn á leiðinni er að hafa sig uppúr sófanum. Það sem á eftir kemur er yfirleitt minna mál og oftast bæði gefandi og áhugavert.

Fyrir rúmum þremur árum tók ég ákvörðun sem kom ýmsum í kringum mig á óvart. Ég ákvað að segja upp ágætu starfi og leggja út í óvissuna. Ákvörðunin að hætta í starfinu í Héraðsskjalasafninu var búin að vera að veltast í mér í töluverðan tíma áður en ég gerði upp hug minn. Og þó ég vissi að ég myndi sakna samstarfsfólksins og vinnustaðarins fannst mér þetta rétti tíminn til að breyta. Óvissan um hvernig ég myndi framfleyta mér var það sem truflaði mig mest. En ég lét vaða og sé ekki eftir því. Ég ákvað að elta eigin væntingar til lífsins, afla mér meiri menntunar og nýrrar reynslu í von um að skapa mér síðar líf og starfsvettvang sem falli að hæfileikum mínum og áhugasviði. Það er enn löng leið þangað. En ferðin hefur verið frábær til þessa.

En var það sem knúði mig til að taka þessa ákvörðun fyrir þremur árum? Það var einföld uppgötvun sem má draga saman í þrjú orð: Lífið er núna!
Þessi einfalda fullyrðing á við hvað sem maður er að gera og hvar sem maður er. Ég er óþolinmóður og hef þörf fyrir að takast á við ný verkefni. Sumir finna ró og ánægju í því að hafa líf sitt í föstum skorðum. Það á ekki við mig. Ég hugsaði: Hvers vegna að bíða með að lifa þangað til á morgun, eftir viku eða á næsta ári? Mér fannst ég vera að festast í vananum. Var í þægilegu umhverfi og í vinnu sem ég var farinn að kunna vel á. Mér fannst ég vera orðinn latur og syfjaður. En ég gat rifið mig upp. Ég gat breytt til. Þegar ég fór að hugsa málið sá ég að hindranirnar í veginum voru færri en ég hélt. Það eina sem raunverulega hamlaði mér var ég sjálfur. Löngunin til að leggja af stað og reyna að grípa tækifærin sigraði. Löngunin til að byggja upp reynslu og þekkingu, ögra sjálfum mér og reyna eitthvað nýtt.

Hvert þetta allt saman leiðir mig á endanum veit ég ekki. En ég er ánægður með lífið og það skiptir mestu.