Kennslustund með truflun

Í dag mætti ég í fyrstu kennslustundina í skólanum. Fyrirkomulagið á kennslunni hér er almennt þannig að kennslustundir eru lengri og strjálli en maður á að venjast að heiman. Þær eru yfirleitt viku eða hálfsmánaðarlega og þá í 3-4 klst í senn. Þar sem verulegur hluti nemendanna eru í vinnu meðfram náminu (sumir í fullu starfi) þá fer stór hluti kennslunnar fram síðdegis á virkum dögum eða á laugardögum.

Þessi fyrsta kennslustund var mjög áhugaverð. Ég var búinn að vera dálítið spenntur fyrir henni því að ég hef ekki setið í tímum að staðaldri í tæp tólf ár, eða frá vorinu 2004 þegar ég kláraði síðasta masterskúrsinn heima. Þetta er námskeið í samtíma félagsfræðikenningum og er á MA-stigi en doktorsnemum er heimilt að sækja þennan kúrs.

Prófessorinn sem kennir námskeiðið er frekar spes týpa en mjög skemmtilegur. Það eru klárlega meðmæli með honum sem fagmanni að takast að halda góðri athygli nemenda í fjórar klukkustundir (með tveimur stuttum hléum) þegar námsefnið er nokkuð tyrfið. Raunar er náunginn frekar fyndinn á köflum. Í byrjun kennslustundarinnar veifaði hann framan í okkur bók sem hann kom með. Ég man ekki titilinn á bókinni en hann sagði þetta vera fræga bók um kenningar – mjög lélega, en fræga. Hann kvaðst hafa fengið bókina að láni hjá öðrum prófessor en gleymt að skila henni. Svo dó sá prófessor og því ástæðuaust að skila bókinni. Eftir þessa kynningu tók hann bókina (sem er nokkuð þykk) og stakk henni undir skjávarpann (til að stilla hann af á tjaldinu) með þeim orðum að þetta væri helsta gagnið sem mætti hafa af þessari bók.

Skömmu áður en kennslustundinni lauk (um kl. 16.30 að staðartíma) barst skyndilega háreisti utan af götu. Eitthvað sem hljómaði sem slagorð og öskur frá hópi fólks. Gluggarnir á kennslustofunni eru beint ofan við andyrið inn í skólann sem vísar að litlu torgi hér í miðborginni. Þegar þessi hávaði hafði varað í stutta stund heyrðist eitthvað sem hljómaði eins og tvær litlar spengingar (eins og frá frekar stórum kínverjum). Andartaki síðar heyrðist í sírenum lögreglubíla og hávaðinn hljóðnaði um leið. Þetta stóð ekki langa stund og þar sem ég hafði ekki útsýn út um gluggann sá ég ekki hvort þarna var um einhvern verulegan fjölda að ræða.

Kennslustundinni lauk skömmu síðar og þá upplýsti einn nemandinn okkur um það (eftir að hafa leitað upplýsinga í símanum sínum) að þarna hefði verið um að ræða mótmælaaðgerðir hóps sem berst gegn komu innflytjenda (og að því er mér skylst útlendingum í Póllandi almennt). Líklega var það því ekki tilviljun að hópurinn stoppaði einmitt þarna því að við þennan skóla eru margir útlendingar og í kennslustundinni í dag var fólk bæði frá Afríku og Asíu þó meirihlutinn séu Pólverjar.

Þegar ég kom út á götu (ca. 15 mínútum eftir að hávaðanum lauk) var allt með kyrrum kjörum fyrir utan. En á stuttri göngu frá skólanum að strætóskýlinu mætti ég 8-10 lögreglubílum í röð.

Ég læt hér fylgja slóð á frétt af þessum mótmælum. Hef ekki fundið fleiri en þessa.

http://www.thenews.pl/1/10/Artykul/239661,Antiimmigration-protests-in-Poland