Örlítið um isma og forsendur

Í strætóferð morgunsins var ég að velta fyrir mér námskeiðum sem ég mun taka hérna við skólann, en þau virka bæði áhugaverð og ögrandi ef marka má kennsluáætlanirnar. Þessar vangaveltur leiddu svo hugann að námskeiðum sem ég tók við HÍ á sínum tíma þegar ég var þar í BA og MA námi í sagnfræði.

Innan þessarar samgöngu-tengdu-hugleiðinga-minna skaut upp í kollinn minningu af námskeiði sem ég tók þegar ég var um það bil að klára BA námið fyrir rúmum áratug síðan. Meginefni þess námskeiðs (sem snerist þó reyndar líka um fleira) var innihald hugtaks sem hefur verið fyrirferðarmikið í almennri umræðu heima undanfarin ár. Hugtakið femínismi. Áður en ég skráði mig í þetta námskeið hafði ég ójósa hugmynd um hvað fælist í femínisma og þó þekkingin yxi í námskeiðinu leiddi það ekki til þess að gengi þaðan út og “vissi þetta alltsaman”. Hef raunar aldrei litið á mig sem neinn sérfræðing í þessum efnum, þó ég viti umtalsvert meira nú en ég gerði þá.

Ef ég man rétt þá voru það nokkrar skólasystur mínar (sem einnig sátu námskeiðið) sem hvöttum mig til að taka þetta námskeið. Fyrir það er ég þakklátur því þegar upp var staðið reyndist þetta með betri námskeiðum sem ég tók við HÍ. Áhugi nemendanna á efninu var meiri en almennt gerðist og umræðurnar fjörugri að sama skapi. Sjálfur hélt ég mig yfirleitt til hlés en fylgdist með. Kynjahlutföllin voru dálítið fyrirsjáanleg ca. 80/20. Við vorum þrír strákar sem hófum námskeiðið, hver á sínum forsendum. Ég var þarna aðallega fyrir sakir almennrar forvitni og áðurnefndar hvatningar. Hafði litist hvað best á þetta valnámskeið af þeim sem voru í boði. Hinir tveir höfðu sínar ástæður. Annar var kominn þarna til að sannfæra sjálfan sig um að efni námskeiðsins væri tómt rugl. Hinn var jákvæðari gagnvart efninu en lét af því að ástæðan fyrir valinu væri hans eigin leti og því hefði ráðið miklu að kennslustundirnar voru jafnan eftir hádegi. Ég held ég muni rétt að ég hafi verið sá eini af okkur þremur sem lauk námskeiðinu. Brottfallið kvennamegin var hins vegar lítið eða ekki neitt.

Það sem eftir stendur hjá mér þegar ég hugsa um þetta námskeið er að það átti stóran þátt í að opna minn huga fyrir inntaki femínisma og færa mig nær skilningi á honum. Sá skilningur er ekki eins einfaldur og oft mætti ætla af almennri umræðu þar sem fólk dregur sjálft sig og aðra í fylkingar og einfaldar femínisma niður í að vera næsta marklaust slagorð. Þessi hugmyndastefna á sér margar hliðar og þó markmiðin séu nokkuð þau sömu hjá þeim sem kenna sig við þennan tiltekna -isma þá var einn helsti lærdómur minn af námskeiðinu (og reynslunni síðar) að það er fjarri því einhlýtt hvaða leiðir fólk vill fara að markmiðunum.

Í umræðu um femínisma (líkt og um aðrar pólitískar hugmyndastefnur) verður að gera greinarmun á málstað og einstaklingum. Engin ein persóna er hugmyndastefna hold klædd, til þess er þær of margslungnar og víðfeðmar. Því er firra að fella dóma yfir hugmyndastefnu vegna túlkunar eins eða fárra einstaklinga á henni. Slíkir dómar segja jafnan meira um þá sem fella þá fremur en um efnið sem er til umræðu.

Einstaklingurinn er aldrei stærri en málstaðurinn.