Togstreita og aðgreining

Við sem fylgjumst með almennri umræðu og notum samfélagsmiðla verðum reglulega vör við deilur. Yfirleitt snúast deilurnar um dægurmál, oft um “málið” sem allt snýst um í umræðunni á Íslandi þann daginn og er jafnan gleymt tveimur dögum síðar. Svona deilur (ég á dálítið erfitt með að nota hugtakið rökræður í þessu sambandi) þróast gjarnan í nokkurskonar liðsíþrótt sem má draga saman í reiðilegu spurninguna: “Af hverju eru ekki allir eins og “við”?”

Nú er ég búinn að alhæfa hressilega. Það er líklega vegna þess að ég er eins og aðrir smitaður af þessari umræðuhefð – hef alltof oft staðið mig að því að taka þátt í henni, eins yfirborðskennd og hún jafnan er. Sem betur fer leiðast ekki öll opinber skoðanaskipti út í deilur, en sá samskiptamáti er þó alltof algengur og virðist mörgum eðlilægur. En þó ég hafi verið þátttakandi í slíku (reyni þó almennt að forðast það) finnst mér þessi umræðuhefð (sem líklega væri réttara að kalla þrætuhefð) samt ekki í lagi. Hún þarf að breytast. Verða yfirvegaðri og lausari við upphrópanir, tortryggni og dilkadrátt sem lítið gerir annað en að festa í sessi aðgreiningu, skilningsleysi og jafnvel heift milli fólks sem skilur ekki og (það sem verra er) reynir ekki að skilja hvert annað.

Okkur virðist mjög lagið að skapa og viðhalda togstreitu um hin aðskiljanlegustu mál og draga okkur í aðgreinda hópa. Nálgast umræðuna eins og kappleik þar sem það eina sem gildir er að hafa einhvers konar (ímyndaðan) sigur á (oft ímynduðum) mótherja. Ekki ástunda rökræður heldur frekar að reyna að þagga niður í mótaðila. Taka ekki tillit til mótraka heldur halda fram málstað með sem einstrengingslegustum hætti og af sem mestri þrjósku og hörku – þannig að jafnvel þróist yfir í áreitni og dónaskap. Í slíku samhengi skipum við okkur í liðin: landsbyggðarfólk gegn höfuðborgarbúum, listunnendur gegn íþróttaaðdáendum, menntamenn gegn bændum, heimamenn gegn ferðamönnum o.s.frv. Alltaf “við” gegn “hinum” sem eru “eitthvað annað”.

Þegar ég lít á eigin uppruna og stöðu kemur eftirfarandi í ljós. Ég er uppalinn á landsbyggðinni og hef alið mestann minn aldur þar, en er nú búsettur á höfuðborgarsvæðinu. Ég hef áhuga á listum og menningu en fylgist líka með íþróttum og stunda þær að einhverju marki. Ég er menntamaður og háskólanemi en hef jafnframt sterkar tengingar við búskap æskuheimilis míns og er vanur líkamlegri vinnu. Á Íslandi er ég heimamaður en hér í Varsjá er ég ferðamaður (skiptinemi). Svona gæti ég líklega haldið lengra áfram. Það er því ekki að undra að maður verði dapur þegar reglubundnir hanaslagir milli fyrrnefndra hópa hefjast með öllum sínum sleggjudómum og skilningsleysi. Það þarf ekki annað en að nefna Reykjavíkurflugvöll og listamannalaun til að öllum sé ljóst hvað ég á við.

Þrátt fyrir allt hef ég jafnan verið frekar tregur við að merkja mig hópum. Það er reyndar slæmt þar sem ég tel að okkur sé almennt betur borgið með því að vinna saman frekar en að hver sé sjálfum sér næstur. En það sem hefur fælt mig frá eru stimplarnir sem sífellt er veifað yfir fólki og eigna manni viðhorf og kenndir – sem oft passa ekki við sannfæringu manns, en aðrir hafa skilgreint sem óhjákvæmilegan fylgifisk þess að tilheyra viðkomandi hóp. Annað er svo það að stilla manni upp með að vera sjálfkrafa í andstöðu við annan hóp ef maður tilheyri einum. Ég er ekki að tala hér fyrir afstöðuleysi heldur einungis að benda á þann niðurdrepandi plagsið þrætuhefðarinnar að þurfa sífellt að skilgreina aðra og skapa óþarfa aðgreiningu.

Það má ekki aðeins finna fordóma og dómhörku í máli þeirra sem skilgreina sig utan einhvers hóps um þá sem þeir telja að tilheyri honum. Þetta á líka við innan hópa (formlegra og óformlegra) þar sem einstaklingar leitast við að skilgreina “viðhorf hópsins” fyrir sjálfum sér og öðrum. Slíkt fellur oft í far tvíhyggju, þ.e. því að stilla þeim sem eru á áþekkri skoðun upp með tvo valkosti, annað hvort „mína“ afstöðu eða „hina“ (sem skilgreind er þannig að ómögulegt er að styðja hana). Aðrar leiðir eru ekki í boði. Annað hvort ertu með “okkur” eins og “við” skilgreinum afstöðuna. Ef ekki: þá ertu móti okkur. Önnur afstaða er illa séð og er í raun afneitað, þ.m.t. þeirri að sætta sig ekki við svo svarthvítar skilgreiningar og láta ekki aðra setja sér mörk um hvaða skoðanir maður eigi að hafa og á hvaða forsendum.

Hæðni er vinsælt vopn í orðaskilmingum og mikið notað innan hópa til að gera þá sem utan standa hlægilega og tortryggilega. Bak við hæðnin glittir oft í óþol fyrir þeim sem eru á öðru máli. Hún getur því virkað sem þöggunarmeðal. Hæðnin er enda eitthvað sem oft er beitt til að leggja fólk í einelti. Fáir treysta sér til að taka undir viðhorf einhvers sem “skoðanasystkin” hefur gert hlægileg og kjósa því heldur að þegja. Annað þekkt mælskubragð, sem miðar að því að þagga niður í öðrum og er fyrir löng orðin klassískt í þrætuhefðinni, er að gera öðrum upp (neikvæðar) tilfinningar og láta að því liggja að skoðun byggist á þeim. “Við hvað eruð þið hrædd?” er í þessu samhengi ekki spurning heldur staðhæfing sem miðast við að láta aðra finna til skammar fyrir skoðanir sínar. Láta mótaðilann (og aðra tilheyrendum) fá á tilfinninguna að forsenda skoðana hans sé hlægileg íhaldssemi. Þetta bragð leitast við að láta þann sem er beittur því falla í það far að þræta fyrir að vera ekki óttasleginn eða hengja haus og gefast upp. Það er enda oft notað af þeim sem tala fyrir einhverjum breytingum en eru orðnir rökþrota og grípa þá til þess ráðs að reyna að þagga niður í mótaðilanum og “vinna þannig sigur”.

Íslenska þrætuhefðin leiðir sjaldan til vitrænnar eða skynsamlegrar niðurstöðu. Hún afhjúpar hins vegar reiði, dómhörku, óþol og jafnvel ákveðið form ofbeldishegðunar (þöggun). Hvort sem umræðuhefðin þróast til betri vegar er erfitt að spá um (því miður bendir fátt til þess), en það er allavega gott að halda því á lofti að ríkjandi hefð er meingölluð og að henni má breyta.