Lífstíll

Yfirskrift þessa pistils er hugtak sem sífellt skýtur upp kollinum í umræðum fólks á meðal, bæði í raunheimum og á netinu. Lífstíll, með allskyns viðskeytum og forskeytum, er orðin ein af mest tuggðu klisjunum í íslensku máli. Þetta hugtak tekur í einhverri mynd til nær alls í daglegu lífi fólks – mataræðis, klæðaburðar, áhugamála o.s.frv.

Ísland er neyslusamfélag og lífstílarnir sem mesta athygli fá eru jafnan mjög áberandi markaðsdrifnir. Lífstíll í þessu samhengi vísar til erkitýpu sem ætlast er til að fólk horfi til og leitist við að tileinka sér. Kaupi þennan drykk, þetta efni, þessa bók o.s.frv. Með það að markmiði að ná þessum eða hinum skilgreinda árangrinum.

Á síðasta ári komst í umræðuna lífstíll sem virðist í fljótu bragði vera á skjön við aðra sem brenndir eru marki neysluhyggju. Þetta er mínimaliskur lífstíll. Á Facebook má finna hóp sem nefnist „Áhugafólk um mínimaliskan lífsstíl“. Hann telur hátt í 10 þúsund manns. Ég skal viðurkenna að ég hef ekki gengið í þennan hóp en fylgst dálítið með umræðu um þetta hugtak. Óinnvígðir geta fræðst um  hvað felst í mínimaliskum lífsstíl á “útidyrum” umræddra Facebook-síðu. Þar segir:

„Mínimalískur lífsstíll er að hafa í lífi þínu aðeins það sem þú þarft og *nýtur* þess að hafa. Laus við óþarfa. Það eru engar reglur um hvað á að eiga mikið af hinu eða þessu. Mínimalískur lífsstíll snýst ekki um að eiga eins lítið og maður getur eða að eiga bara nauðsynjar, heldur að það sem þú átt gefi lífi þínu gildi. Þess vegna er mínimalískur lífsstíl jafn ólíkur á milli einstaklinga og við erum mörg.“

Af þessari fáorðu skilgreiningu að dæma getur maður í raun skilgreint sig sem mínimalista í lífsháttum alveg sama hvernig maður hagar lífi sínu. Þetta er bara spurning um að taka upp merkið. Ef mér finnst það brýn lífsnauðsyn að eiga 400 fm einbýlishús með viðeigandi bílskúr og keyra um á glænýjum upphækkuðum jeppa get ég vel haldið því fram að minn lífstíll sé mínimalískur. Skilgreiningin er svo opin að hún segir í raun ekkert. En það skiptir sennilega minnstu. Þetta tísku-skilgreining. Þær snúast um að laða að – ekki að vera rökréttar.

Ég er almennt áhugalítill um þá lífstíla sem haldið er að okkur enda flestir dellur sem detta jafnharðan úr tísku. En í þessu tilfelli sperrti ég eyrun. Er það sem ég var alinn upp við og hef tamið mér í mörg ár nú komið í tísku? Já og nei. Þetta er tíska og því þurfti að búa til nýtt hugtak sem virkar inn í orðræðuna. Já og skrifa bók um efnið. Það tilheyrir líka. Las einmitt í vikunni pistil á Stundinni eftir höfund bókar um efnið. Sá pistill sagði minna en lýsingin hér að ofan um hvað fælist í hugtakinu enda tilgangur pistilsins líklega einkum sá að koma því að (sem kemur fram neðanmáls) að höfundur hafi skrifað bók um efnið.

Það er raunar eðlilegt – og jafnvel mætti segja fyrirséð – að leitast sé við að koma mínimalisma í tísku. Með því að fara “all in” í þá tísku getur fólk losað sig við allt dótið sem það sankaði að sér þegar það tileinkað sér fyrri tískubólur í lífstíl. Og þegar þessi bóla er sprungin þá er nóg pláss á heimilinu fyrir þá næstu. Þegar þú verður búinn að kaupa bók um mínimaliskan lífstíl, ryðja til í stofunni og losa þig við allan óþarfa, þá er ekki annað en að gera en að bíða eftir næstu tísku. Kannski verður það maximal lífstíllinn? Inntak hans gæti verið eftirfarandi: “Kauptu eitthvað á hverjum degi og helst eins fyrirferðarmikið og hægt er. Hladdu sem mestu dóti inn í íbúðina þína alveg þangað til þú átt erfitt með að ganga um hana.” Þetta myndi smellpassa í beinu framhaldi af mínimalismanum og vera auk þess í anda neysluhyggjunnar.

Annars ætti ég kannski manna síst að vera að gera grín af þessu. Ég hef frá unglingsaldri haft takmarkaða löngun til að eignast hluti umfram það sem ég þarfnast. Ég bý í lítilli leiguíbúð og hef aldrei átt eigið húsnæði – langar það ekki. Ég keyri um að 16 ára gömlum bíl og dreymi ekki um að eignast jeppa, o.s.frv. Ég lít því á sjálfan mig sem nægjusaman mann en hef ekki haft hugmyndaflug í að búa til tísku-hugtak yfir það.

En í neyslusamfélagi er nægjusemi illa séð. Hún hefur þótt púkaleg og gamaldags svo ekki sé talað um hvað hún er vond fyrir hagvöxtinn. Það var því líklega nokkuð sjálfgefið að ef þú ætlar að “selja” fólki nægjusemi þá verður að kalla hana öðru nafni. Fara á smá hugtaka-flakk, sem er frekar auðvelt hjá þjóð sem er vanist hefur kennitöluflakki.