Samfélag mótsagna

Eftir rúmlega mánuð í Varsjá er komið að því að skrifa smá pistil um það hvernig samfélagið hér og umhverfið í borginni blasir við mér. Það segir sig sjálft að þessi umfjöllun er ekki djúp eða fræðileg heldur mótuð af því sem fyrir augu mín hefur borið og það sem mér hefur verið sagt. Ég er alveg viðbúinn því að hafa misskilið eitt og annað og er meðvitaður um takmarkanir þess að skrifa um þetta efni eftir svo skamma dvöl hér. Þessi pistill er því fyrst og síðast vitnisburður um mína upplifun.

Það sem við mér blasir hér er samfélag sem hefur yfirbragð margvíslegra mótsagna. Ég ætla hér að ræða um fáein atriði.

Byrjum á fólkinu. Það fólk sem ég mæti á ferðum mínum um borgin er upp til hópa mjög vel til fara. Ég myndi hiklaust segja almennt betur til fara en maður á að venjast heima. Samt fylgir þessu ekki tilgerð. En maður fær á tilfinninguna að það sé ákveðinn metnaður fyrir því hér að vera vel til fara, hvort sem er á virkum degi eða um helgar. Án þess að ég hafi lagst í einhverja rannsókn á því þá sýnist mér að verðlag á fatnaði sé mun hagstæðarar hér en heima (ég er þá að tala um m.t.t. til kaupmáttar, ekki einungis verðs) og því auðveldara fyrir þá sem hafa þokkalegar ráðstöfunartekjur að endurnýja fataskápinn reglulega. Hafa ber í huga að það svæði sem ég þvælist mest um er miðborgin. Stíllinn kann að vera allt annar í úthverfunum.

En þrátt fyrir þetta þarf maður ekki að horfa lengi til að sjá annarskonar veruleika birtast í fasi fólks og klæðaburði. Ég hef ekki séð mikið af betlurum eða útigangsfólki, en þó ber það við. Nokkrum sinnum hef ég verið stoppaður af fólki sem greinilega er að biðja um pening, en talar ekki ensku og ég skil ekki pólsku. Eftirminnilegasta og erfiðasta “samtalið” sem ég hef átt þannig var við mann sem gaf sig að mér við gangbraut. Það vantaði framan á báða handleggi hans við olnboga.

Annað sem vakti athygli mína strax hér fyrstu dagana er hve algengt er að mæta fólki sem réttir að manni auglýsingabæklinga frá matsölustöðum. Flestir þeir sem sinna þessum störfum (sem ég reikna ekki með að sé sérlega vel launuð) bera það með sér að hafa ekki að öðru að hverfa. Atvinnuleysið hér er rúm 10% en hefur farið heldur minnkandi. Heimamaður sem ég ræddi við hér um daginn sagði mér að stemmingin væri víða þannig að fólk héldi fast í þau störf sem það hefði (jafnvel þó það væri e.t.v. ekki ánægt). Það væri hikandi við að taka áhættuna á að skipta um starf því ef samdráttur yrði á nýja staðnum þá væru þeir sem hefðu stystu starfsreynsluna jafnan þeir fyrstu sem misstu vinnuna.

Ég hef áður nefnt að bílaflotinn sem fyrir augun ber hérna. Hann er ekki óáþekkur því sem maður sér á götunum á Íslandi – bæði að gerð og aldri – og bílaumferðin allmikil. Nýting á almenningssamgöngum virðist þó mikil líka (allavega á þeim strætóleiðum sem ég nota mest) og ungt fólk er þar áberandi. Maður leyfir sér því að draga þá ályktun að bílaeign sé ekki eins almenn og heima – sem raunar er eðlilegt þegar borið er saman stórborgarsamfélag og dreifbýlissamfélagið á Íslandi (Reykjavík og nágrenni þar með talið).

Mestu mótsagnirnar sem blasa við mér hérna snúa að húsum. Í dag gekk ég um íbúðargötu þar sem öðru megin voru nýlega málaðar blokkir með nýjum gluggum og snyrtilegum görðum í kring. Handan götunnar voru mun eldri blokkir í augljósri niðurnýðslu, með veggjakroti og óræktarbletti fyrir framan þar sem illgresi virtist hafa náð að dafna vel síðasta sumar. Annarsstaðar sá ég hús sem stóð stakt, gluggalaust og að mestu þaklaust, greinilega mjög gamalt og löngu yfirgefið. Ég hef séð fleiri slík þó ekki samt eins hrörlegt og þetta. Þó það megi víða sjá glæsileg og nýtískuleg hús er samt mjög áberandi víða að það skortir á viðhald og lagfæringar. Þetta er ekki síst áberandi á sumum reisulegum steinhúsum í miðborginni sem virðast hafa verið byggð fljótlega eftir aðra heimsstyrjöldina.

En til að enda þetta á jákvæðum nótum þá langar mig að nefna almenningsgarðana. Þeir eru margir í Varsjá. Og þó að veturinn sé líklega ekki besti tíminn til að skoða þá er greinilegt að það er lagður metnaður í að halda þeim vel við þannig að þeir séu til prýði og ánægju. Það virðist líka falla í kramið því að um helgar er fjöldi fólks á ferli um garðana.