Kennsla, spilling og ritstuldur

Þá er vormisserið hafið hér í skólanum (hefst um miðbik febrúar) og ég búinn að sitja nokkrar kennslustundir og málstofur. Var búinn að vera dálítið spenntur fyrir því að kennslan byrjaði þar sem ég hef ekki setið tíma með reglubundnum hætti síðan 2004.

Ég sá líka kennslustundirnar og málstofurnar sem tækifæri til að komast í frekari kynni við aðra nemendur, en flestir þeirra eru lítt á ferli í skólanum nema þeir séu að sækja kennslustundir, málstofur, fundi eða komi til að hitta kennara eða starfsmenn skólans. Slíkt er svo sem ekki óvenjulegt í rannsóknarnámi en helgast líka af því að námsaðstaðan hér er ekki alveg uppá það besta. Sameiginlega vinnurýmið sem ætlað er nemendum (og ég nota á hverjum degi – og þar er þessi pistill skrifaður) er frekar lítið og ekkert sérstaklega hentugt auk þess sem vandamál hafa verið með nettengingar í húsinu. Að vísu sleppur það til þar sem tölvustofa er fáeinum skrefum frá.

Kennslan hér er í frekar kunnugleg að formi. Kennarinn reifar efnið og leiðir umræður og nemendur kom með spurningar og innlegg. Fljótlega fer svo að ganga á með nemendafyrirlestrum. Námsmatið felst almennt í fyrirlestrum nemenda og ritgerðaskilum. Í þeim námskeiðum sem ég sit, og öðrum sem ég las um í kennsluskrá (bæði á MA og doktorsstigi), sá ég hvergi getið um skrifleg lokapróf. Ég fæ að sitja þrjú námskeið og eina vikulega málstofu meðan ég er hérna. Þar sem fyrirkomulag doktorsnáms míns við HÍ byggir á að vinna að rannsókn sem lýkur með skilum á lokaritgerð (í fyllingu tímans) ber mér ekki að taka nein námskeið. En mér fannst annað ótækt verandi kominn hingað. Ég sé námskeiðin sem bestu leiðina til að afla mér nýrrar þekkingar hér og kynnast skólanum, kennsluháttum og nemendum.

Annars hef ég verið að velta fyrir mér starfsumhverfi háskólafólks hér, bæði nemenda, kennara og fræðimanna. Fyrir skömmu sat ég fund þar sem megin umræðuefnið var hvernig væri að vera erlendur nemandi við þennan skóla. Þar koma margt áhugavert fram sem of langt mál er að rekja. Það sem situr mest í mér frá þessum fundi eru frásagnir nemenda frá Úkraínu af mennta- og fræðaumhverfinu þar í landi. Nemendur frá Úkraníu eru raunar nokkuð fjölmennir hér við skólann, eru næst fjölmennastir á eftir heimamönnum.

Samkvæmt frásögnum úkraínsku nemendanna á fyrrnefndum fundi er háskólaumhverfið og fræðaheimurinn í heimalandi þeirra ekki spennandi. Margskonar spilling í menntakerfinu er landlæg, s.s. mútugreiðslur til kennara. Kennslan er léleg og kennsluálag á doktorsnema víða það mikið að þeir hafa ekki tími til að sinna eigin rannsóknum – sem þeim er þó gert að standa skil á. Ritstuldur er annað stórt vandamál, bæði innan skóla (þ.á m. í lokaverkefnum) sem og í birtu efni í fræðitímaritum. Einn nemandinn sem sat fundinn sagði frá því að hann hefði rekist á borðleggjandi dæmi um ritstuld þar sem sama greinin birtist undir öðru höfundarnafni 8 árum eftir upphaflega birtingu hennar í öðru fræðiriti. Nemandinn sendi tölvupóst til ritstjóra beggja fræðiritanna sem birt höfðu greinina. Viðbrögðin voru engin. Umhverfi sem þetta er til þess fallið að fæla metnaðaðarfullt fólk frá, það leitar til annarra landa, bæði eftir námi og síðar starfi. Hættan er að diplómur frá úkraínskum háskólum verði álitnar lítils virði utan heimalandsins (og jafnvel innan þess líka) séu þessar lýsingar í samræmi við það sem almennt gerist.

Þessar frásagnir fengu aukið vægi í samtali mínu við pólskan doktorsnema skömmu eftir fundinn. Sá sagði mér frá því að þegar hann var í MA-námi (við annan skóla) hafi hann kynnst 28 ára gamalli konu frá Úkraínu, sem líka stundaði nám þar. Sú var með tvær MA-gráður og eina doktorsgráðu frá heimalandinu! Viðmælandi minn kvaðst hafa haldið þegar hann heyrði þetta þarna hlyti að vera um eitthvert „undrabarn“ að ræða. En eftir því sem hann kynntist „undrabarninu“ nánar fóru að renna á hann tvær grímur. Konan virtist ekki kunna skil á algengum hugtökum og kenningum og svör hennar um eigin rannsóknir voru bæði loðin og almenn.

Staðan virðist öll önnur og betri hér í Póllandi þó manni heyrist að margt megi bæta. Sum vandamálin sem lýst hefur verið fyrir mér eru kunnugleg, t.d. „gengisfelling“ náms með því að tengja greiðslur til menntastofnana við fjölda sem klárar námskeið og útskrifast sem svo elur af sér einkunnabólgu og að slegið er af kröfum. Einnig kom út úr spjalli við samnemanda hér um daginn að sá þekkti dæmi þess að foreldrar háskólanema settu sig í samband við kennara til að kvarta undan því að „barnið þeirra“ hefði ekki náð þeim námsárangri sem hann hafði vænst. Samsvarandi sögur þekki ég að heiman.

Ég skrifa vonandi meira um námið hér og menntakerfið þegar ég verð búinn að kynnast því betur.