Þaulseta og endurnýjun

Frétt gærdagsins í íslenskum fjölmiðlum var að Katrín Júlíusdóttir, þingkona, varaformaður Samfylkingarinnar og fyrrverandi ráðherra, ætlaði að draga sig í hlé frá stjórnmálum og snúa sér að öðru við lok þessa kjörtímabils. Þessi frétt kom á óvart, en viðbrögðin ekki að sama skapi.

Margir stigu fram og þökkuðu Katrínu samstarf og óskuðu henni velfarnaðar. Raunar hlýtur svona ákvörðun að vera skrítinn fyrir viðkomandi því í framhaldinu af því að ákvörðunin verður opinber taka að birtast skrif víðsvegar á vefnum sem eru í minningargreina-stíl, en fjalla þó um manneskju sem er í fullu fjöri. Það er þó ekki þessi tegund viðbragða sem mig langar að ræða heldur önnur sem einnig telst hefðbundin, þ.e. þau að verða hissa á því að einhver sem ekki er kominn á (eða er að nálgast) eftirlaunaaldur velji sjálfviljugur að hætta þingmennsku. Slík undrun sást í gær gagnvart ákvörðun Katrínar og hennar varð líka vart þegar Birkir Jón Jónsson ákvað að hætta á þingi árið 2013. Fleiri svipuð dæmi mætti nefna.

Ein af afgerandi breytingum á íslensku samfélagi undanfarna áratugi er að nú er það orðin almenn venja (en ekki undantekning) að fólk sem komið er yfir þrítugt skipti reglulega um starf. Þetta á við um fólk í ábyrgðastöðum jafnt sem aðra. Margir velja eftir t.d. 5-10 ár í starfi að breyta til og fara að vinna við annað. Vilja takast á við nýjar áskoranir og nýta reynslu sína á nýjum vettvangi. Það sem er undantekningin í dag er gamla venjan, þ.e. að fólk velji sér starf að lokinni skólagöngu og sinni því þar til það fer á eftirlaun eða fellur frá (mjög sérhæfð störf eru þó undanskilin). Það viðhorf að þetta sé normið virðist þó lifa góðu lífi gagnvart þingmennsku, öfugt við nánast öll önnur störf.

Ég tel að sú þróun að fólk skipti tíðar um störf en áður sé af hinu góða og það á að sjálfsögðu að eiga við um þingmennsku eins og önnur störf. Það er ekki þeirri mikilvægu stofnun sem Alþingi er til góðs að reglan sé að fólk leitist við að sitja þar sem fastast út starfsævina og aðrar leiðir séu ekki út en þær að falla frá, fara á eftirlaun eða tapa í kosningum. Ég er þó ekki að tala fyrir því að öllum þingmönnum sé skipt út á fjögurra ára fresti. Alþingi eins og aðrir vinnustaðir þarf á að halda hæfilegri blöndu af reynslu og endurnýjun. Of hröð endurnýjun býður heim hættunni á að þingmenn verði vegna reynsluleysis um of háðir stjórnsýslunni. Þannig gætu völd og áhrif kjörinna fulltrúa færst til embættismanna sem almenningur hefur enga aðkomu að því að velja hverjir eru.

Ef ég ætti að setja eitthvert viðmið myndi ég segja að 8-12 ára þingseta sé hæfileg. Eftir áratug í sama starfinu tel ég að veruleg hætta sé orðin á kulnun í starfi og að fólk verði værukært og taki e.t.v. að líta á starfið sem sína persónulegu eign. Fólk er auðvitað misjafnt og sumum tekst að halda sér ferskum í sama starfi lengur en í áratug, en þau tilvik eru fá. Í þessu samhengi er líka vert að minnast á forstöðumenn opinberra stofnana. Þó gildandi lög geri ráð fyrir að þeir séu skipaðir til 5 ára er raunin sú að gamla æviráðningin er enn við líði, því ef ekkert alvarlegt hefur komið upp á fá þeir nær undantekningalaust framlengingu um önnur 5 ár (og svo aftur og aftur). Að mínu mati ætti að leiða í lög að forstöðumenn opinberra stofnana gætu ekki setið lengur í sama embættinu en í 10 ár. Þannig mætti tryggja endurnýjun og fyrirbyggja að stofnanir líði fyrir að sitja uppi með kulnaða og heimaríka forstöðumenn.

Enginn er ómissandi.