Stöðluð tilvera

Líf okkar einkennist af stöðlum. Við erum svo vön þeim flestum að við erum löngu hætt að taka eftir þeim. Tölvan sem ég skrifa þennan pistil á er stöðluð, sem og hugbúnaðurinn í henni. Gosdósin sem ég er að drekka úr er stöðluð sem og peran í lampanum.

Staðlar gera líf okkar einfaldara og eru á þann hátt til þæginda. Ef þú þarft að breyta einhverju á heimilinu þá eru t.d. skrúfur og rær staðlaðar. Tæknin sem við hagnýtum okkur dagsdaglega er stöðluð, m.a. með það í huga að ólík tæki geti „talað saman“ og einfaldað tilveru notendanna. Byggingar lúta margvíslegum stöðlum, þó á Íslandi sé ekki algengt (a.m.k. ekki enn) að heilu hverfin rísi með eins blokkum eða einbýlishúsum.

Við treystum á að þeir sem það eiga að gera fylgi framleiðslustöðlum þannig að það sem við kaupum sé í samræmi við væntingar og nýtist á þann hátt sem til er ætlast. Að fjöldaframleiddir hlutir af sömu gerð, hvort sem um er að ræða húsbúnað, bíla eða raftæki, séu nákvæmlega eins og virki á sama hátt. Þetta er einn helsti styrkur fjöldaframleiðslunnar sem umlykur okkur á hverjum degi. Neytandinn gengur að því nokkuð vísu hvað hann kaupir og er í aðstöðu til að gera athugasemdir ef það bregst.

En staðlarnir ná yfir fleira en tæki og byggingar. Þeir ná líka t.d. til matvæla. Það er einfalt að færa rök fyrir stöðlun á gæðum matvæla en öðru máli gegnir með útlit. Við sem höfum einhvern tíma tekið upp kartöflur eða rófur höfum séð að garðávextirnir sem koma upp úr moldinni eru margir hverjir ósnortnir af stöðlum mannsins, þó megnið af þeim rúmist innan þeirra. Mér er sléttsama þó að gulrótin sem ég brytja út í pottréttinn sé einkennileg í útliti, svo lengi sem hún er óskemmd. En einkennilega útlítandi grænmeti er hjá flestum framleiðendum flokkað sem útlitsgallað og kemst því ekki í sölu. Stöðlun á fjöldaframleiddum matvælum leiðir óhjákvæmilega til sóunar sem er bæði alvarleg fyrir umhverfið (sem látið er framleiða meira en nauðsyn ber til) og ósiðleg (þegar drjúgur hluti íbúa jarðarinnar býr við skort).

Hnattvæðingin hefur ýtt undir stöðlun. McDonalds, KFC og Starbucks eru þekkt kennileiti út um allan heim. Veitingastaðir sem bjóða sömu vöruna og þjónustuna hvar sem þeir starfa og eru hver öðrum líkir í útliti enda ýmist reknir af sama fyrirtækinu eða samkvæmt sérleyfi frá móðurfyrirtæki. Þegar þeirri hugsun er haldið að okkur neytendunum seint og snemma að „meira fyrir minna verð“ sé það sem mestu skiptir verða yfirburðir slíkra keðja enn meiri gagnvart smærri aðilum. Aðilum sem jafnan bera sérkenni þess svæðis sem þeir starfa á. Sérkenni samfélagsins sem þeir spruttu uppúr. Sérkenni okkar sem búum þar.

Menningin (einkum popp-menningin) er undir sömu áhrifum. Frægð er í dag meira háð ímyndarsköpun og markaðsstarfi en hæfileikum. Baráttan um athyglina er vörumerkjastríð – eins og í hverju öðru markaðsstarfi. Við búum við hamslaust flóð samleitrar og athyglisfrekrar afþreyingarmenningar sem oft inniheldur illa duldar auglýsingar frá styrktaraðilum. Stöðlun menningar vinnur gegn fjölbreytni hennar og gerir okkur andlega fátækari. En á því sviði er líka ætlast til að við séum fyrst og fremst neytendur rétt eins og við værum að kaupa hraðsuðuketil eða straujárn.

Með plastkortin og skuldsetningarviljann að vopni rennum við svo saman við andrúmsloftið og erum þakklát fyrir hversu popplögin, framhaldþættirnir, snjallsímarnir og kynlífshjálpartækin eru laglega stöðluð.