Er ég staðalmynd?

 

„I‘m the only gay in the village!“ Á þessari setningu klifar Dafydd Thomas, persóna í gamanþáttaröðinni Little Britain, þrátt fyrir að á vegi hans í þorpinu sem hann býr í verði ýmsir samkynhneigðir einstaklingar. Ég er ólíkur persónu Dafydds í flestu tilliti. En ég gæti þó e.t.v. reynt að halda því fram að ég sé eini Íslendingurinn í Varsjá, þ.e. ef ég byggi þá fullyrðingu á þeirri staðreynd að síðan ég kom hingað hefur enginn landa minna orðið á vegi mínum.

Persónan Dafydd gengst upp í því að vera staðalmynd (steríotýpa) á vissan hátt, en er jafnframt sannfærður um að hann sé mjög sérstakur og allt öðruvísi en þeir sem hann umgengst. Þó Dafydd sé vitanlega ýktur karakter tel ég að hann endurspegli útbreitt viðhorf. Þar á ég við þá hugsun að fólk líti á sig sem „venjulegan“ einstakling (hversu ójóst og teygjanlegt sem það hugtak kann að vera) en finnist það samt mjög sérstakt.

Ég hafði aldrei áður komið til Póllands þegar ég steig út úr flugvélinni á Chopin-flugvelli þann 11. janúar sl. Ég þekkti landið aðallega í gegnum fréttir og af kynnum af Pólverjum búsettum á Íslandi. Blessunarlega hafði ég haft kynni af það mörgum Pólverjum heima að ég var búinn að brjótast undan hinni klassísku staðalmynd Íslendingsins af pólska verkamanninum.  Þessum hrjúfa, lítið menntaða miðaldra karli í vinnugalla sem talar enga eða í besta falli bjagaða ensku. Það er raunar umhugsunarvert hvers auðvelt maður á með að falla í þá gryfju að draga víðtækar ályktanir af þjóðum og menningu þeirra út frá kynnum (eða jafnvel einungis frásögnum) af fáum eða kannski bara einum einstaklingi af því þjóðerni. Ég þekki slíka staðalmyndagerð og reikna með að aðrir geri það líka. Hún þarf þó ekki alltaf að vera neikvæð eða rasísk og flestir virðast gera sér grein fyrir að hún er ofureinföldun. En samt sem áður lifa slíkar staðalmyndir góðu lífi.

Ég velti þessu fyrir mér núna í ljósi þess að ég er eini Íslendingurinn sem margir þeirra sem ég hef rætt við hérna hafa hitt. Er ég þá orðin staðalmynd Íslendingsins í hugum þessa fólks? Sjálfur hrærist ég í frekar alþjóðlegu umhverfi hér í skólanum, þar sem ámóta algengt er að heyra talaða ensku og pólsku. Hér hef ég kynnst fólki frá mörgum löndum sem ég þekki aðeins í gegnum fréttir og hef aldrei hitt fólk frá áður. Fólk frá Eþíópíu, Nígeríu, Nepal, Kambódíu, Indlandi, Makedóníu, Úkraínu svo nokkur lönd séu nefnd. Allt mjög viðkunnalegt fólk og áhugavert. En væri rétt af mér að draga víðtækar ályktanir af þeim samfélögum sem þetta fólk er upprunið úr út frá kynnum af þeim og þeirri ímynd sem þau kynni skapa í mínum huga? Nei, auðvitað ekki. Það væri jafn rangt og ofureinfaldað og að gera pólska byggingarverkamanninn á Íslandi að staðalmynd fyrir Pólland og pólska menningu.

Annars þarf maður ekki að hitta eða ræða um fólk af öðru þjóðerni en manns eigin til að rekast á staðalmyndir. Það er nóg af þeim innanlands á Íslandi og mörgum þeirra er þar viðhaldið samviskusamlega – ekki síst þeim ýktustu og bjánalegustu. En það er efni í annan pistil. Hvað sem því líður þá fylgja staðalmyndirnar manni hvert sem maður fer. Líklega er það eitt af verkefnum lífsins að gefast ekki upp á að takast á við staðalmyndirnar og láta þær ekki ná völdum yfir hugsuninni. Láta ekki fallast í þá freistni að stimpla aðra og streitast gegn því að láta raða manni sjálfum eftir eiginleikum sem maður á e.t.v. lítið skylt við.