Hugarfar fyrr og nú

Sú manneskja sem við erum í dag er allt önnur en hún var fyrir 10, 20 eða 30 árum. Við breytumst en persónubreytingarnar eru yfirleitt það hægar að við verðum þeirra ekki vör. Við erum með hugann í samtímanum og freistumst oft til að ímynda okkur að við höfum bara haldið okkur nokkuð vel í gegnum árin og að viðhorf sem okkur þykja sjálfsögð og eðlileg í dag hafi alltaf verið það og öfugt.

Að flytjast búferlum er hvimleitt ferli en líka dálítið lærdómsríkt. Það er hvimleitt vegna umstangsins sem óhjákvæmilega fylgir, ásamt kostnaði og eyðslu á tíma sem manni finnst að mætti verja betur. En við flutninga fer maður í gegnum eigur sínar og verður á stundum hissa á því sem maður finnur. Að þessu leyti eru búferlaflutningar ákveðið tímaflakk. Hugsuninni: „Á ég þetta ennþá?!?!“ – skýtur reglulega ofan í kollinn þegar einhver gleymdur hlutur eða pappír birtist manni í geymslukassa og vekur upp minningar sem vitundin hafði ekki haft neitt af að segja lengi. Þetta geta verið góðar minningar, slæmar og allt þar á milli. Það sem eftir stendur er að ef maður gefur sér tíma til að fara í gegnum eigur sínar – nær undantekningalaust í þeim tilgangi að minnka umfang þeirra – þá lærir maður eitt og annað um sjálfan sig. Einkum þó um það hver maður var áður gagnvart því hver maður er í dag – ja … eða telur sig vera. Ég ætla ekki að byrja að ræða ímyndasköpun á samfélagsmiðlum. Það er efni í annan pistil.

Ég flutti á síðasta ári. Yfirgaf Austurland eftir 9 ára búsetu þar og fluttist til Reykjavíkur. Ég segi Austurland því að hvar nákvæmlega ég var búsettur eystra varð á tímabili að deilumáli milli mín og sveitarfélagsins sem ég taldi mig hafa aðsetur í (lögheimili mitt var annarsstaðar). Forsvarsmenn aðseturs-sveitarfélagsins vildu ólmir flytja lögheimili mitt til sín og gáfu sig ekki með það þó svo að ég legði mig fram um að vera eins erfiður og leiðinlegur og mér var unnt. Það er þó nokkuð, eins og þeir vita sem þekkja mig. Þegar ég legg mig fram í þessum efnum get ég verið næsta óbærilegur. En nú er ég kominn út í útúrdúr.

Eitt af því sem kom uppúr kassa hjá mér í fyrra var bunki af gamla Brandarabankanum. Blaði sem gefið var út þegar ég var á unglingsaldri. Ég keypti þetta og las á sínum tíma og var því forvitinn að rifja upp innihaldið enda mundi ég ekki eftir að ég ætti þetta ennþá. Það þurfti ekki langan lestur til að innihaldið rifjaðist upp. Þetta blað, sem ég hló að bröndurunum í á sínum tíma, byggðist upp á rasisma, hómófóbíu og kvenfyrirlitningu. Það sem mér áður þótti fyndið var nú orðið að algerum óþverra í mínum augum. Ég fleygði þessu drasli snarlega og vona að það hafi verið endurunnið í eitthvað gagnlegt.

Þessi lestur fékk mig til að leiða hugann að eigin hugarfari á unglingsaldri og fram á þrítugsaldur. Ég mótaðist af frekar einsleitu samfélagi sem ég ólst upp í. Ég ber þó sannarlega ábyrgð á eigin skoðunum og vil alls ekki gera samfélagið æsku minnar og unglingsára ábyrgt fyrir þeim. En mig skorti mótstöðuna gegn mannfjandsamlegum viðhorfum sem ég las eða mér bárust með öðrum hætti. Til dæmis úr textum Sverris Stormskers sem ég hélt mikið uppá sem unglingur. Meiðandi meinhæðni sem klædd er í búning brandara og gríns er lúmsk leið til að ýta undir fordóma gagnvart einstaklingum og þjóðfélagshópum á forsendum samfélaglegrar stöðu þeirra eða skoðana. Slíkt hafði áhrif á mig og hefur það vafalaust á marga aðra líka.

Niðurstaða sálgreiningar minnar á sjálfum mér fyrir 20 árum eða svo, var því eftirfarandi: Ég var endurspeglun Brandarabankans (þó auðvitað væru áhrifavaldarnir fleiri). Hómófóbískur rasisti og karlremba. Að sjálfsögðu neitaði ég því á sínum tíma – eins og menn gera í dag – og reyndi að réttlæta skoðanir mínar sem skynsamlegar og réttmætar. Hef á þeim tíma örugglega oftar en einu sinni byrjað setningar á: „Ég er ekki rasisti/karlremba/hómfóbískur, en …“.

Í dag þegar ég sé viðhorf sem endurspegla mínar fyrri skoðanir í þessum efnum – og blessunarlega eru orðnar jaðarskoðanir en ekki meginstraumurinn – verð ég í senn dapur og glaður. Dapur yfir því að þessi mannfjandsamlega heimska sé enn til staðar. Viðhorf sem byggja á þröngsýni, heift, ótta og skorti á umburðalyndi. Þau eru ranglát, skaðleg og þeim til skammar sem elur þau með sér og heldur þeim á lofti. Ég þekki ræturnar, því ég ól þessa sömu heimsku með mér áður fyrr og eyddi síðar löngum tíma í að losna undan henni. En ég er líka glaður vegna þess að tímarnir hafa sem betur fer breyst. Ruddaleg viðhorf til útlendinga, samkynhneigðra og kvenna hafa almennt verið á undanhaldi og ekki lengur viðurkennd sem eðlileg og sjálfsögð. Hvað þetta snertir er ég sjálfur mun betri manneskja í dag en ég var áður og er mun sáttari við sjálfan mig og aðra.