„Já, látt‘ann heyra það!“

Þessa setningu eða einhverja náskylda útgáfu hennar hafa flestir einhvern tíma heyrt. Jafnvel oft og ítrekað. Ég hef oft heyrt þennan frasa og líklega einhvern tíma notað hann sjálfur. Þó blessunarlega sé orðið það langt síðan síðast að ég man ekki eftir neinu tilviki.

Það sem felst í hvatningunni sem þessi orð mynda er ekki að ræða málin af yfirvegun með það í huga að komast að skynsamlegri niðurstöðu sem sátt sé um. Nei, í þessu felst að sá sem hvatningin beinist að eigi að skeyta skapi sínu á einhverjum. Hella skömmum og skætingi yfir þann sem viðkomandi er ekki sáttur við. Æsa sig og reyna að þagga niður í andstæðu viðhorfi með því að einoka umræðuna og sleppa sér lausum – beita jafnvel illyrðum og ógnunum. Þessi frasi og aðrir sömu gerðar eru hvatning til andlegs ofbeldis, þess að reyna að hafa sitt fram og vinna einhverskonar sigur í samskiptum með hörku og yfirgangi. Gildir þá einu hver málstaðurinn er.

Þetta er úrræði þeirra sem eiga erfitt með rökræður og vita líklega innst inni að þeir hafi ekki sitt fram í gegnum þær. Þetta er endurspeglun pirrings og reiði sem safnað er saman og er svo látinn gjósa. Oft á kostnað einhvers sem ekki á mikla sök á pirringnum eða reiðinni. Þetta er leið þeirra sem jafnan eru undirleitir gagnvart hverskonar valdi en gjósa svo yfir þá sem þeir telja sig ráða við. Þetta er eitt skýrasta einkenni íslensku þrætuhefðarinnar (oft kölluð umræðuhefð) og blasir víða við í einhverri mynd á samfélagsmiðlum og í kommentakerfum.

Ef við viljum bæta samskiptahætti okkar og umræðuhefð er mikilvægt að spyrna gegn hegðun sem þessari. Vinna gegn því að það sé talið eðlilegt og sjálfsagt að leyfa reiði að byggjast upp þar til hún brýst út með því að maður hellir sér yfir samferðamenn sína. Ekki svara mér því til að það séu nú bara mannlegt að koma svona fram. Slík eðlishyggju-svör eru engin rök. Þau eru aðeins afsökun fyrir hegðun sem er mótuð af umhverfi en er ekki meitluð í stein.

Það er niðurdrepandi að búa við aðstæður þar sem einu viðbrögðin sem þú færð við orðum þínum og gjörðum eru aðfinnslur og skammir. Þetta þekkja margir sem starfað hafa í félagsmálum og stjórnmálum. Ef þú gerir eitthvað á þeim vettvangi sem orkar tvímælis eða gerir mistök þá má jafnan ganga að því vísu að einhverjir „láti þig heyra það“. En fáir bæra á sér til að hrósa fyrir vel unnin verk (enda mætir slíkt oft aðkasti). Þau eiga að vera sjálfsögð. Svona umhverfi er til þess fallið að drepa niður framtak og frumkvæði fólks og er að mínu viti ein af meginástæðum þess að margt fólk sem fengur væri að í félags- og stjórnmálum er tregt til að gefa sig að þeim.

Við verðum að vera óhræddari við að hrósa því sem vel er gert. Ekki bara okkar nánustu heldur líka öðrum sem við þekkjum kannski lítið eða ekki. Það fylgir því vellíðan og hvatning að fá hrós fyrir það sem maður gerir. En það verður eftir sem áður að vera vegna einhvers sem máli skiptir (ekki hrósa mér fyrir að loka útidyrahurðinni á eftir mér eða fyrir að smjatta ekki á matnum). Líkt og oflof verður að hæðni verður hrós að markleysu ef það er ofnotað. En trúlega er hættan af því ekki mikil á Íslandi, allavega ekki í almennri umræðu. En hvað sem því líður ætla ég að reyna að vera duglegri við að hrósa fólki fyrir það sem það gerir vel. Láta fólk í kringum mig heyra einmitt það.