Meira kynslóðabil?

Við mótumst af umhverfi okkar. Bæði því sem við ölumst upp í og því (eða þeim) sem við kjósum að búa í eftir að við komumst á fullorðinsaldur. Samfélögin sem við tilheyrum (og tilheyrðum) hafa áhrif á viðhorf okkar, þó því fari fjarri að þau áhrif séu á einn veg.

Með þessu má að hluta skýra meiningarmun milli búsvæða (t.d. hið hefðbundna reipitog milli höfuðborgar og landsbyggðar) sem gengur jafnan þvert á kyn, aldur, atvinnu, menntun, stjórnmálaskoðanir og annað það sem líka hefur áhrif á hvernig við hugsun. Hvað af persónulegri reynslu trompar svo annað er hins vegar ekki alltaf auðvelt að sjá fyrir þegar kemur að einstökum málum. Svo erum við líka félagsverur og höfum ríka tilhneigingu til að skipa okkur í hópa, m.a. eftir uppruna eða aldri.

Það er einmitt aldursmunurinn sem ég er dálítið hugsi yfir núna. Kynslóðabil hefur líklega alltaf verið til staðar. Sem er svo sem ekki að undra. Samfélög taka breytingum og við drögum dám af þeim breytingum, en hvernig við vinnum úr því ræðst m.a. af fyrri reynslu. Við breytumst líka sjálf með hækkandi aldri. Sumir kalla það þroska. Persónulega finnst mér sú skýring afskaplega yfirlætisfull gagnvart þeim sem eru yngri enda er henni oftast beitt af þeim sem virðast telja að hækkandi aldur einn og sér gefi skoðunum þeirra meiri vigt – óháð því þó þær byggist mögulega á þröngsýni og sleggjudómum.

Mér hefur fundist ég greina aukinn skilningsskort og óþol milli kynslóða á Íslandi undanfarin ár. Maður rekur augun í skrif eldra fólks sem talar um þá yngri sem reynslulausa, heimtufreka letingja sem aldrei hafi þurft að leggja neitt á sig. Og á móti sér maður hæðnisleg skrif yngra fólks þar sem hinir eldri eru afgreiddir sem forpokaðar og íhaldssamar tímskekkjur sem skilji ekki samtímann. Þessir aldursfordómar ganga í báðar áttir. Kannski væri réttara að segja í allar áttir.

En af því mér finnst sem þetta sé að aukast þá velti ég fyrir mér hvað veldur. Það sem ég staldra við er hvort meginástæðan sé sú að íslenskt samfélag hafi þróast þannig undanfarna áratugi að samgangur milli aldurhópa hafi minnkað. Raunar finnst mér það líkleg skýring, kannski af því hún rímar við mína eigin reynslu frá uppvaxtarárunum. Er það e.t.v. orðinn veruleiki margra í dag að fólk á ólíkum aldri (t.d. á tvítugsaldri og sjötugsaldri) umgengst sáralítið nema í gegnum fjölskyldutengsl? Ýtir samfélagið í dag undir hólfun eftir aldri? Séu svörin við báðum þessum spurningum já, er kannski ekki að undra að skilningsskortur og óþol milli kynslóða fari vaxandi. Við erum jú jafnan dómhörðust þegar þekking okkar á aðstæðum annarra er minnst.