Heima og heiman

Eftir 10 vikur í Varsjá eru nú aðeins tæpar 3 vikur eftir af dvöl minni hér – í þetta sinn, ætti ég kannski að segja. Reynsla þess tíma sem er liðinn hefur á mun fleiri máta verið hvetjandi til þess að koma hingað aftur frekar en hitt. Hvort tími fleytir mér hingað síðar verður bara að koma í ljós. Það er helst ef stjórnmálaþróunin hér heldur áfram með þeim hætti sem verið hefur að landið verði ófýsilegur viðkomustaður.

Mér finnst viðeigandi eftir að hafa dvalist hér það lengi að telja megi vikurnar í tveggja stafa tölu að draga reynsluna saman í nokkra punkta sem hvorki eru þó tæmandi úttekt né mjög alvarleg.

Ég hef EKKI saknað íslenska vetursins. Og þó að veðurfarið sé trúlega ekki það sem dregur fólk hingað þá er ég farinn að skilja betur en áður af hverju sífellt fleiri Íslendingar kjósa að stytta veturinn með því að dvelja um lengri eða skemmri tíma í hagstæðara loftslagi. Að ganga á broddum flesta daga og vera sífellt með hugann við að detta ekki og fótbrota AFTUR er eitthvað sem ég vel verið án. Þó enn sé ekki komið vor í Varsjá hef ég samt góðar vonir um að það gangi eftir að árið 2016 verið ár tveggja vora hjá mér.

Ég er orðinn nokkuð fær í „gangbrautarsvigi“ eftir dvölina hér. Þetta er dálítið önnur íþróttagrein hér í borgarsamfélaginu. Heima snýst hún um að sneiða hjá snjósköflum, hálkublettum og viðutan ferðamönnum. Þessi áunna þekking mun þó tæplega nýtast mér mikið heima, helst ef ég bregð mér í miðbæ Reykjavíkur á menningarnótt eða þorláksmessu.

Ég á eftir að sakna almenningssamgangnanna hér þegar ég verð aftur kominn heim. Kerfið hér er þéttara og ferðir tíðari. Og þó farþegar sitji hér jafnan prúðir, alvörugefnir og þögulir eins og kirkjugestir – og ég hafi heyrt dæmi þess að skvöldrurum sé umbúðalítið sagt að halda kjafti – þá venst það betur en að verða vitni að heimiliserjum í háværum símtölum í strætóum í Reykjavík.

Það verður gott að „fá málið aftur“. Eins lærdómsríkt og það er að þurfa að gera sig skiljanlegan með látbragði og handapati, víða þar sem maður kemur, og að þjálfast betur í tungumáli sem er ekki móðurmál manns þá verður léttir að geta aftur tjáð sig á móðurmálinu, því tungumáli sem maður hugsar á. Að upplifa sig sem virkan þátttakanda í samfélagi er líka nokkuð annað en að vera áhorfandi og gestur í samfélagi þar sem flest er framandi – þó sú reynsla sé manni holl og víkki sjóndeildarhringinn.

Ég mun sakna verðlagsins hér þegar ég kem heim. Ég mun vafalítið eiga eftir að sitja heima yfir bjór með vinum og nöldra látlaust yfir íslensku verðlagi, þ.á m. því að fyrir verð eins bjórs heima hafi ég drukkið þrjá til fjóra í Varsjá. Að sama skapi mun ég ekki óska eftir því að tekjur mínar séu í samræmi við það sem gerist hér.

Ég hef haft ánægju og marga kviðfyllina af því að kynna mér matarvenjur heimamanna. Pylsur eru ekki bara SS-pylsur! Að panta mat af matseðli sem þú skilur ekki (skólamötuneytið) er líka áhugaverð reynsla þar sem spennan felst mest í því hvað fyrir mann verður borið. Þá kemur sér vel að matvendnin var ræktuð úr mér í æsku. En ég er farinn að sakna þess að elda sjálfur (svo ótrúlegt sem það kann að hljóma!) – hef ekki haft aðstöðu til þess síðan ég fór að heima. Já, og svo missti ég af þorranum. Mig langar í súrmat og hákarl! En kysi þó heldur pólskan vodka en íslenskt brennivín með því.