Wroclaw

Áður en ég fór til Póllands fyrir næstum þremur mánuðum sögðu vinir og kunningjar, sem heimsótt höfðu Pólland, að ég yrði að heimsækja Kraká meðan ég væri hérna. En eftir komuna hingað var mér bent á aðra borg sem ekki síður væri áhugaverð. Sú heitir Wroclaw og er í suðvestur Póllandi.

Wroclaw varð eins og margar aðrar borgir í mið-evrópu illa úti í hildaleik annarrar heimstyrjaldar. Á þeim tíma var borgin þýsk og nefndist þá Breslau, en nafniu var breytt í Wrocalw eftir stríð. Um 90% íbúanna fyrir stríð voru þýskir en skömmu fyrir stríðslok voru nær allir íbúarnir fluttir burt þar sem fyrirséð var að harðir bardagar yrðu í borginni. Sem varð raunin. Fæstir íbúanna sneru aftur því að eftir stríðið varð borgin pólsk og var byggð Pólverjum sem fluttust þangað, flestir frá Úkraínu. Það hefur þó ekki verið neitt sældarlíf að hefja búsetu í Wroclaw eftir stríðið því borgin var í rúst. En hún var endurbyggð og verður ekki annað sagt en að það hafi tekist vel.

Fyrstu kynni mín af Wroclaw voru á brautarstöðinni við komuna þangað. Brautarstöðvar eru sjaldnast mjög sjarmerandi byggingar en þar er þessi sannarlega undantekning. Að innan er hún hlýleg og þægileg en þegar maður kemur út um aðalinnganginn og snýr sér við verður manni starsýnt á bygginguna sem líkist meira kastala en samgöngumiðstöð. Frá stöðinni er svo nokkurra míntútna labb í gamla miðbæinn. Hann er bæði fallegur og snyrtilegur. Wroclaw var fyrr á öldum mikil verslunarborg, með þremur stórum verslunartorgum (aðrar borgir létu sér jafnan 1-2 nægja).

Morguninn eftir komuna til borgarinnar fórum við í gönguferð með leiðsögn um miðborgina. Það hitti svo skemmtilega á að leiðsögumaðurinn, sem jafnframt er annar eigandi fyrirtækisins (Wroclaw City walk) sem skipuleggur þessar gönguferðir, bjó og starfaði á Íslandi í rúmt ár. Þessi gönguferð var í einu orði sagt frábær og óhætt að mæla með henni fyrir þá sem leggja leið sína til Wroclaw. Leiðsögumaðurinn var ákaflega fróður um borgina og fór með okkur á marga staði. Ef ég ætlaði að segja frá þeim öllum yrði þessi pistill það langur að enginn myndi lesa hann. Læt því nægja að nefna nokkur atriði.

Víða á gangstéttum og torgum Wroclaw má sjá málm-dverga sem ókunnir myndu klóra sér í kollinum yfir hefðu þeir ekki skýringu á tilvist þeirra. Dverganir voru tákn friðsamlegrar andspyrnuhreyfingar gegn stjórnvöldum í Póllandi á 9. áratugnum og gegn sovétskum áhrifum í landinu. Hreyfingin kom þessum dvergum fyrir víða en hver og einn hefur ákveðna sögulega merkingu.

Í gamla ráðhúsinu sem stendur við aðaltorgið, og er mjög sérstök bygging reist í blöndu af endureisnar- og gotneskum stílum, er m.a. að finna veitingastað sem leiðsögumaðurinn sagði vera þann elsta í Evrópu. Stofnaður árið 1275. Fyrir ofan dyrnar inn á staðinn gefur að líta tvær styttur, aðra af drukknum manni með ölkrús og hina af eiginkonu hans sem er illúðleg og býr sig undir að tyfta þann fulla með skó. Annars eru margar styttur og margvíslegar skreytingar utan á ráðhúsinu sem setja mikinn svip á það og gera að verkum að maður staldrar þar við nokkra stund til að virða það fyrir sér. Og ef mann skyldi langa að kaupa blóm þá eru þau seld allan sólarhringinn á torginu.

Wroclaw er háskólaborg þar sem 1 milljón manns býr en með stúdentunum er talið að íbúatalan sé um 1,4 milljónir. Hlutfall ungs fólks er því hátt og virtist næturlífið vera fjörugt í samhengi við það. Borgin er ein af menningarborgum Evrópu árið 2016 og verður ekki séð annað en að hún bera það heiti með sæmd. Eitt af því sem leiðsögumaðurinn nefndi að einkenndi borgina er umburðalyndi gagnvart mismunandi trúarbrögðum. Trúleysingjarnir frá Íslandi voru leiddir inn í kaþólska kirkju sem einkenndist eins og fleiri slíkar af miklum íburði. Það var þó ekki hann sem vakti athygli okkar heldur annað. Það var biðröðin í skriftastólinn sem náði nánast út að dyrum. Fólk á ýmsum aldri beið þar eftir því að játa syndir sína fyrir páskahátíðina. Hvort presturinn þurfi sálfræðiaðstoð eftir þessa törn skal ósagt látið. Leiðsögumaðurinn sagði að flestir gengju einungis til skrifta einu sinni á ári, þá annað hvort fyrir jól eða páska. Trúin væri hjá mörgum orðin meira hefð. Aðspurður sagði hann að ákveðinn kynslóðamunur birtist í þessum efnum í því að yngra fólkið hefði margt hvert snúið baki við kirkjunni, vegna spillingarmála og fégræðgi sumra þjóna hennar, en liti þó á sig sem kaþólskt eftir sem áður.

Það eru afbragðsgóðir veitingastaðir í miðborg Wroclaw og hótelið sem við gistum á var mjög sjarmerandi. Án þess að vera tilgerðarlegt var það bæði nútímalegt og bar líka yfirbragð 19. aldar. Herbergið með einkennandi dökkum viði og rúmi með himnasæng. Til að finna innganginn að hótelinu þurfti að ganga inn í port þar sem hótelið var á aðra hönd og veitingastaður og Vinotek á hina. Inn á þeim stað bað ég um vínseðil en fékk þau svör að hann væri enginn því tegundirnar væru um 500 og síbreytilegar.

Ég mæli hiklaust með ferð til Wroclaw en bendi þeim sem þangað vilja fara á að reikna sér meira en 2 daga. Það er alltof stuttur tími.