Kraká og Auschwitz

Fyrir komuna til Póllands voru tveir staðir sem mér fannst ég verða að heimsækja meðan ég dveldi í landinu. Kraká og Auschwitz. Á báða þessa staði hef ég nú komið. Báðir eru þeir eftirminnilegir. Hvor á sinn hátt.

Það tekur rétt rúma tvo klukkutíma að ferðast með lest frá Varsjá til Krakár. Ég er mjög ánægur með lestarsamgöngurnar hérna. Lestirnar eru nýlegar og í öll fjögur skiptin sem við ferðuðumst með lest í síðustu viku voru þær á réttum tíma. Lestarferðir hér eru þægilegur ferðamáti og frekar ódýr. Líkt og í Wroclaw er lestarstöðin í Kraká nærri miðbænum sem gerði ferðir til og frá gististað mjög þægilegar.

Eftir að hafa komið til Krakár að kvöldi var að morgni lagt af stað til Auschwitz. Farkosturinn þangað var smárúta, sem ekið var af ákaflega viðkunnalegum heimamanni. Ferðafélagarnir voru breskir hermenn á þrítugsaldri sem greinilega höfðu lagt sig fram um að kynna sér skemmtanalíf Krakár kvöldið áður, sem hefur það orð á sér að vera mjög líflegt. Bæði upplitið á þeim og umræðuefninu á leiðinni báru vitni um það. Ferðin frá Kraká til Auschwitz tekur tæpar tvær klukkustundir.

Í Auschwitz bættumst við í stærri hóp ferðamanna og vorum leidd í gegnum búðirnar undir leiðsögn. Ég reikna með að það sé venjan frekar en að fólk sé á eigin vegum, einkum ef aðsóknin er yfirleitt jafnmikil og hún var þennan dag. Byggingarnar eru þröngar og ekki nema hluti þeirra opinn gestum Hóparnir þurfa því að fara skipulega um og á jöfnum hraða svo ekki myndist örtröð.

Við byrjuðum á að ganga um eldri hluta búðanna. Sá var reistur á 3. áratugnum sem herskálar fyrir pólska herinn og byggingarnar þjónuðu því hlutverki fram að stríði þegar þær komust á vald nasista. Öðru máli gegnir um yngri hlutann, sem nefnist Birkenau, en hann var reistur af nasistum á stríðsárunum í þeim tilgangi að vera þrælkunar- og útrýmingarbúðir. Fjórar af fimm gasklefum búðanna voru þar – einungis einn í eldri hlutanum. Hann er raunar sá eini sem enn stendur, þeir í Birkenau voru sprengdir í loft upp fyrir stríðslok. Einn af föngunum en þrír af nasistum skömmu áður en þeir voru hraktir burt af rússneska hernum.

Upplifunin að koma til Auschwitz var dálítið önnur en ég hafði búist við. Ég var meira hugsi en sorgmæddur meðan ég dvaldi þar. Sannast sagna hafði ég hálf kviðið fyrir að fara til Auschwitz – en fannst ég samt verða að fara. Ég sé heldur ekki eftir því. Sennilega hafði áhrif á upplifunina hve margir ferðamenn voru þarna og hvað ferðin gekk greiðlega. Margt að sjá og heyra en lítill tími fyrir hugann til að vinna úr því. Kannski var þetta bara of óraunverulegt? Að vera loks kominn á þennan stað hörmunga, kvala, fjöldamorða og mannvonsku sem var á því stigi að maður fær ekki skilið hana. Standa andspænis stöðum sem maður hefur áður lesið um og séð á myndum. Áhrifin af því að fara til Auschwitz hafa því í mínu tilviki komið meira eftirá en meðan ég var staddur þar.

Það skipti miklu að hafa góðan leiðsögumann. Okkar var kona á að giska á sextugsaldri, mjög fær og greinilega með mikla reynslu. Það eina sem truflaði við hana var framsögnin. Enskan sem hún talaði var fín en meðan hún lýsti grimmd og hryllingi búðanna hljómaði hún ávallt eins og flugfreyja sem er að leiðbeina manni um notkun öryggisbelta og björgunarvesta. En skilaboð hennar til okkar að ferðalokum voru skýr. Þó byggingarnar í Auschwitz hrörni má það sem þar gerðist ekki gleymast – og aldrei endurtaka sig.

Dvölin í Kraká varð önnur er til var stofnað. Raunar líður mér dálítið eins og ég eigi eftir að koma þangað, þrátt fyrir að hafa gist þar tvær nætur – sem er alltof stuttur tími. Ætlunin var að fara í ferð með leiðsögn um miðborgina að morgni dagsins sem haldið var aftur til Varsjár. Sú ferð féll hins vegar niður. Kvöldið eftir komuna frá Auschwitz hittum við íslenskan vin okkar sem býr þessa dagana í Katowice. Ánægja endurfundanna var slík að lokadagurinn í Kraká einkenndist öðru fremur af ámusótt sem ásamt rigningu hélt aftur af framtaksemi og stóð skoðun á miðborginni fyrir þrifum. Ég verð því að fara aftur til Krakár síðar enda borgin heillandi við fyrstu kynni.