Heimferð og stutt endurlit

Á morgun held ég heim til Íslands eftir tæpa þrjá mánuði hér í Varsjá. Þessi dvöl kom til frekar óvænt en reynslan af henni hefur m.a. kennt mér að vera opnari fyrir því að grípa óvænt tækifæri.

Það er líklega til marks um að dvöl mín hér hafi verið vel heppnuð að mér finnst eins og að ég sé nýkominn hingað – en samt eru þrír mánuðir liðnir. Ég mun koma heim reynslunni ríkari, sáttur við dvölina og vongóður um að koma aftur hingað síðar. Nú hef ég reynt að búa í stórborg – nokkuð sem mig skorti áður. Ég hef þurft að reiða mig á enskukunnáttu mína og allskyns handapat og látbragð til að komast í gegnum dagana. Ég hef kynnst nýjum skóla, kennsluháttum, kennurum og síðast en ekki síst, nemendum af ýmsum uppruna og víða að úr heiminum.

Síðasta vikan hér hefur enn á ný fært mér heim sanninn um að lífið er núna (sbr. heiti pistils sem ég skrifaði á þetta blogg í febrúar). Verandi dálítið teningslaga persóna ákvað ég fljótlega eftir að ég kom hingað að vinna skipulega að rannsókninni minni og sækja þau námskeið sem ég var skráður í en láta skoðunarferðir um borgina og annað slíkt bíða þar til undir lok ferðarinnar. Ætlaði svo að nýta síðustu vikuna mína hér til að kanna borgina betur og vera aftur dálítill túristi. Þar af leiðandi lét ég margt sem mig langaði að gera bíða. En svo gerist það að ég eyði megninu af síðustu vikunni minni hér í að vera lasinn og orkaði því ekki að gera ýmislegt af því sem mig langaði að gera. Það eykur bara á löngunina að koma aftur.

Ég var varaður við því áður en ég hélt hingað að það væru miklar líkur á að ég myndi fyllast trega og söknuði til Íslands eftir viku eða tvær í nýju landi. Til þess kom þó aldrei. Dagararnir hafa verið misgóðir eins og gengur en eftirsjá eftir að hafa farið hingað hefur aldrei gert vart við sig. Samt verður gott að koma aftur heim. Ganga aftur inn í umhverfi sem maður þekkir og njóta þess að tala íslensku og vera þátttakandi fremur en áhorfandi að samfélaginu.

Með von um að skilja pestina eftir í Póllandi skála ég í pólskum hnetuvodka og hugsa hlýlega til Íslands!