Túristi í Berlín

Ég flaug með Air Berlin til þýsku höfðuborgarinnar sl. fimmtudag. Til Berlínar hafði ég ekki komið áður. Hér eru nokkrir punktar um fjögurra daga upplifun ný-túristans af miðborg Berlínar (sumt ber ekki að taka of bókstaflega).

Flug til og fá Berlín (með Varsjá sem upphaf og endi) tekur ca. 1 klst hvora leið. Það er jafn langur flugtími og frá Egilsstöðum til Reykjavíkur. Flugmiðinn fram og til baka kostaði (ca. 18 þúsund ISK) álíka mikið og frekar ódýr flugmiði milli Egilsstaða og Reykjavík aðra leiðina. Farkosturinn var hins vegar einhver útgáfa af Dash8 „priki“ sem ég er lítt hrifinn af (hljóðin í þeim er ámóta og í gömlum traktor).

Fljótlega eftir komuna til Berlínar fór ég að kveinka mér undan verðlaginu. Hætti því þó bráðlega þegar ég áttaði mig á að verðlagið í Berlín er ekki ósvipað (líklega heldur lægra) og heima á Íslandi. Ég er bara orðinn svo vanur pólsku verðlagi sem er umtalsvert lægra.

Berlín er margslunginn kokteill af mismunandi menningu og sögu – frá ýmsum tímum og uppruna úr ýmsum áttum. Minnismerki á og við sömu bygginguna geta geymt vitnisburð um sósialrealismi og sósíalískan raunveruleiki (í þessu tilviki andstæðan). Byggingin sjálf er svo eitt fárra minnismerkja um nasískan byggingarstíl – slapp með óútskýranlegum hætti við eyðileggingu í annarri heimsstyrjöldinni – en hýsir í dag fjármálaráðuneyti Þýskalands.

Ég mæli eindregið með því að hefja dvöl í Berlín á gönguferð með leiðsögn um miðborgina. Sex tíma löng ferð tekur dálítið í fæturna er þess virði. Sérstaklega þegar leiðsögumaðurinn er þægilegur, lipur og alveg tilbúinn til að segja hlutina umbúðalaust. Það má líka taka styttri útgáfu af ferðinni. Í ferð sem þessari kemur maður á staði sem maður myndi annars ekki vita af, t.d. á veitingastað/danssal sem er lítið breyttur frá því á 3. áratugnum eða að þeim stað þar sem neðanjarðarbyrgi Hitlers var á sínum tíma en er í dag bílastæði við blokk. Einungis upplýsingaskilti segir til um hvað var þar áður.

Leifar af Berlínarmúrnum er sjaldséðar en lega hans er merkt víða í gangstéttir. Litlir málmskyldir í gangstéttunum geyma áletranir til minningar um fólk sem bjó við viðkomandi götu en dó eða var drepið á stríðsárunum. Milli Brandenburgarhliðsins og Reichtag er lítill garður til minningar um Rómafólk sem nasistar myrtu í seinni heimsstyrjöldinni. Þar skammt frá er líka minnismerki gyðinga. Mjög fyrirferðarmiklar raðir af steindröngum – áhrifamikið en kannski ekki fallegt að sama skapi.

Frásagnir leiðsögumannsins af höllunum í miðborginni byrjuðu eða enduðu yfirleitt á orðunum: „Var endurbyggð eftir aðra heimstyrjöld.“ Bretar og Bandaríkjamenn sprengdu enda nánast alla miðborg Berlínar í tætlur á þeim tíma. Prússakeisarar hétu allir Friðrik eða Vilhelm, nema þeir sem hétu Friðrik Vilhelm. Slík festa í nafngiftum væri líklega mannanafnanefnd að skapi. Checkpoint Charlie er merkingarlítil túristagildra þar sem þýskir stripparar leika bandaríska hermenn.

Austur-þýska menningararfleiðin er áberandi og mikið með hana gert. DDR-safnið er staður sem vert er að mæla með. Þó ekki væri til annars en að fara í sýndarrúnt um gömlu austur-Berlín í Trabant. Að labba um götu skammt frá Alexanderplatz, þar sem kuldalega rússablokkir eru til beggja handa er, áhugaverð reynsla. Ekki síst ef maður skýst inn á lifaðan bar við götuna, sem líklega átti sinn blómatíma á 9. áratugnum og hefur breyst lítið síðan. Annars konar stemmingu má fá í bjórkjallara þar skammt frá þar sem bæversk stemming ræður ríkjum og maður getur skolað súrkáli og pylsu niður með afbragðs góðum bjór við undirleik dúetts tveggja manna. Þeir léku glaðværa tónlista á trompet og einhvers konar hljóðgervil og minnti tónlist þeirra Íslendinginn helst á Geirmund Valtýsson.

Það sem stendur uppúr eftir skoðunarferðirnar er hversu mikið Berlínarbúar hafa unnið með fortíðina. Það birtist í alls kyns minnismerkjum, söfnum og sögustöðum um allan fjandann. Þar fá skammarlegu hliðar þýskrar sögu ríkulegan sess. Það er virðingarvert hvernig sögu þeirra sem þýsk yfirvöld hafa farið illa með er gert hátt undir höfði. Í þessu standa Þjóðverjar öðrum framar. Ég sé t.d. ekki fyrir mér að Bretar myndu leggja stórt svæði á besta stað í miðborg London í að minnast þeirra sem bresk stjórnvöld níddust á eða létu drepa í fjarlægum löndum á nýlendutímanum eða að áberandi minnismerki um fjöldamorð Bandaríkjahers í Hiroshima og Nagasaki yrði komið fyrir í miðborg Washington.

Þó að undirbúningur fyrir ferð sem þessa sé mikilvægur og gríðarlegur fengur af því að njóta leiðsagnar heimamanna – m.a. til að finna staði sem almennt eru utan við radar ferðamanna – þá er annað sem skiptir mestu. Það er að vera með góðan ferðafélaga. Minn hefði ekki getað verið betri. Þegar svo er getur fátt farið úrskeiðis.