Heimferð og stutt endurlit

Á morgun held ég heim til Íslands eftir tæpa þrjá mánuði hér í Varsjá. Þessi dvöl kom til frekar óvænt en reynslan af henni hefur m.a. kennt mér að vera opnari fyrir því að grípa óvænt tækifæri.

Það er líklega til marks um að dvöl mín hér hafi verið vel heppnuð að mér finnst eins og að ég sé nýkominn hingað – en samt eru þrír mánuðir liðnir. Ég mun koma heim reynslunni ríkari, sáttur við dvölina og vongóður um að koma aftur hingað síðar. Nú hef ég reynt að búa í stórborg – nokkuð sem mig skorti áður. Ég hef þurft að reiða mig á enskukunnáttu mína og allskyns handapat og látbragð til að komast í gegnum dagana. Ég hef kynnst nýjum skóla, kennsluháttum, kennurum og síðast en ekki síst, nemendum af ýmsum uppruna og víða að úr heiminum.

Síðasta vikan hér hefur enn á ný fært mér heim sanninn um að lífið er núna (sbr. heiti pistils sem ég skrifaði á þetta blogg í febrúar). Verandi dálítið teningslaga persóna ákvað ég fljótlega eftir að ég kom hingað að vinna skipulega að rannsókninni minni og sækja þau námskeið sem ég var skráður í en láta skoðunarferðir um borgina og annað slíkt bíða þar til undir lok ferðarinnar. Ætlaði svo að nýta síðustu vikuna mína hér til að kanna borgina betur og vera aftur dálítill túristi. Þar af leiðandi lét ég margt sem mig langaði að gera bíða. En svo gerist það að ég eyði megninu af síðustu vikunni minni hér í að vera lasinn og orkaði því ekki að gera ýmislegt af því sem mig langaði að gera. Það eykur bara á löngunina að koma aftur.

Ég var varaður við því áður en ég hélt hingað að það væru miklar líkur á að ég myndi fyllast trega og söknuði til Íslands eftir viku eða tvær í nýju landi. Til þess kom þó aldrei. Dagararnir hafa verið misgóðir eins og gengur en eftirsjá eftir að hafa farið hingað hefur aldrei gert vart við sig. Samt verður gott að koma aftur heim. Ganga aftur inn í umhverfi sem maður þekkir og njóta þess að tala íslensku og vera þátttakandi fremur en áhorfandi að samfélaginu.

Með von um að skilja pestina eftir í Póllandi skála ég í pólskum hnetuvodka og hugsa hlýlega til Íslands!

 

Mér þykir vænt um framsóknarmenn

 

Eftir að hafa alið mestan minn aldur á Austurlandi, í einu helsta kjörlendi Framsóknarflokksins, þekki ég marga framsóknarmenn og sumir þeirra eru góðir vinir mínir. Þeir framsóknarmenn sem ég þekki eru almennt gott fólk sem vill samferðamönnum sínum og samfélaginu vel og margir þeirra starfa að samfélagsmálum í þeim anda. Og þó ég sé oft ósammála þeim og nálgun þeirra á ýmis mál og áherslur þeirra samrýmist ekki mínum hef ég ekki í samtölum við þetta ágæta fólk fundið ástæða til að draga virðingu þess fyrir réttaríkinu og lýðræðinu í efa. Mér þykir því vænt um næstum alla þá framsóknarmenn sem ég þekki. Og einmitt þess vegna finnst mér skrítið að Framsóknarflokkurinn skuli birtast mér sem fyrirbæri sem er allt annars eðlis en þeir framsóknarmenn sem ég þekki.

 

Það er eitt sem mér hefur jafnan þótt einkenna framsóknarmenn meira en aðra þá sem hafa yfirlýstar pólitískar skoðanir. Það er bjargföst foringjahollusta sem á ekki sinn líkan í öðrum íslenskum stjórnmálaflokkum á síðari árum. Hollusta sem er í slíkum hæðum að það minnir á annarskonar stjórnarfar en það lýðræðisfyrirkomulag sem hefur verið við lýði á Íslandi. Ég hef stundum velt því fyrir mér hvað valdi þessu. Vegna þess hversu rótgróin og útbreidd þessi hollusta er virðist rökrétt að leita skýringarinnar í menningunni innan flokksins. Hana þekki ég ekki af eigin raun en sem áhorfandi og af samtölum við framsóknarmenn staldra ég við eitt atriði.

Þegar leiðtogar þurfa að þjappa sínu fólki að baki sér er utanaðkomandi ógn (raunveruleg eða tilbúin) eitthvað sem jafnan má treysta á. Bandaríkjaforsetar eru t.a.m. sjaldan vinsælli en þegar þeir fara í stríð. Því þá má krefjast skilyrðislauss stuðnings fólks og láta að því liggja að þeir sem ekki fylgi með í stuðningnum séu ekki trausts verðir. Séu jafnvel svikarar. En það er ekkert stríð á Íslandi og verður vonandi aldrei. En samt virðist vera hægt að finna ógn sem er nógu stór til að þjappa fólki svo þétt að baki forystufólki stjórnmálaflokks að undrum sætir.

Stjórnmálaumræða á Íslandi er á köflum óbilgjörn og maður þarf ekki að skima samfélagsmiðlana lengi til að rekast á rætin og jafnvel andstyggileg ummæli um fólk og flokka. Þetta er plagsiður sem því miður virðist fremur vera að eflast heldur en hitt. En hann beinist ekki bara að Framsóknarflokknum, þó að sá flokkur fái vissulega sinn skerf af ómálefnalegum gusum. Samstarfsflokkur Framsóknar í ríkisstjórn fær líka sitt og þeir flokkar sem mynduðu ríkisstjórnina þar á undan fengu yfir sig næsta samfelldar skammir og illyrði meðan þeir voru við völd – og fá enn þó þeir séu ekki lengur við stjórnvölin. Raunar þurfa stjórnmálahreyfingar á Íslandi ekki að komast í ríkisstjórn til að þurfa að búa við það að verða fyrir barðinu á þessum plagsið. En honum er þó oft að ósekju ruglað saman við gagnrýna umræðu sem er nauðsynleg fyrir viðhald og þróun lýðræðis.

Það sem skilur Framsóknarflokkinn frá öðrum í viðbrögðum við illyrðum í sinn garð er að forsvarsmenn þess flokks eru einir um að álíta þau vera ofsóknir og tala opinberlega á þann veg að engir aðrir þurfi að þola neitt sambærilegt. Það stenst auðvitað enga skoðun en samt virðast margir framsóknarmenn trúa þessu einlæglega. Og kannski er það ekki skrítið. Þessháttar orðræða er ekki ný komandi frá forystu Framsóknarflokksins. Hún hefur beitt þessu bragði oft og ítrekað í gegnum árin, að því er virðist í þeim tilgangi að styrkja eigin valdastöðu og þagga niður gagnrýni innanhúss. Og hvers vegna að hætta núna? Þetta hefur augljóslega virkað.

En það er komin upp fordæmalaus staða í íslenskum stjórnmálum. Forsætisráðherra hefur orðið opinber af dómgreindarbresti sem er á því stigi að ekki verður við unað og honum er ekki sætt í embætti. Þó mögulega hafi engin lög verið brotin er hagsmunaáreksturinn af þeirri stærð að lýðræðisfyrirkomulagið mun bera varanlegan skaða af sitji forsætisráðherrann áfram í embætti. Traustið sem þarf að ríkja er horfið.

Ég get skilið að vinir mínir og kunningjar sem eru framsóknarmenn séu hugsi þessa dagana. Jafnvel dálítið ráðvilltir. En það reynir á ykkur núna. Er hollustan við formanninn þess virði að setja fordæmi sem grefur undan lýðræðisfyrirkomulaginu og réttarríkinu og setur það í hættu einungis til að viðhalda valdastöðu formannsins? Hvað þið gerið eða gerið ekki á næstunni snýst ekki bara um trúverðugleika ykkar, valdastöðu eða framtíð flokksins ykkar. Málið er mun stærra en það.

[Þessi grein birtist á Kjarnanum 22. mars 2016 (sjá: http://kjarninn.is/skodun/2016-03-21-mer-thykir-vaent-um-framsoknarmenn/)

Heima og heiman

Eftir 10 vikur í Varsjá eru nú aðeins tæpar 3 vikur eftir af dvöl minni hér – í þetta sinn, ætti ég kannski að segja. Reynsla þess tíma sem er liðinn hefur á mun fleiri máta verið hvetjandi til þess að koma hingað aftur frekar en hitt. Hvort tími fleytir mér hingað síðar verður bara að koma í ljós. Það er helst ef stjórnmálaþróunin hér heldur áfram með þeim hætti sem verið hefur að landið verði ófýsilegur viðkomustaður.

Mér finnst viðeigandi eftir að hafa dvalist hér það lengi að telja megi vikurnar í tveggja stafa tölu að draga reynsluna saman í nokkra punkta sem hvorki eru þó tæmandi úttekt né mjög alvarleg.

Ég hef EKKI saknað íslenska vetursins. Og þó að veðurfarið sé trúlega ekki það sem dregur fólk hingað þá er ég farinn að skilja betur en áður af hverju sífellt fleiri Íslendingar kjósa að stytta veturinn með því að dvelja um lengri eða skemmri tíma í hagstæðara loftslagi. Að ganga á broddum flesta daga og vera sífellt með hugann við að detta ekki og fótbrota AFTUR er eitthvað sem ég vel verið án. Þó enn sé ekki komið vor í Varsjá hef ég samt góðar vonir um að það gangi eftir að árið 2016 verið ár tveggja vora hjá mér.

Ég er orðinn nokkuð fær í „gangbrautarsvigi“ eftir dvölina hér. Þetta er dálítið önnur íþróttagrein hér í borgarsamfélaginu. Heima snýst hún um að sneiða hjá snjósköflum, hálkublettum og viðutan ferðamönnum. Þessi áunna þekking mun þó tæplega nýtast mér mikið heima, helst ef ég bregð mér í miðbæ Reykjavíkur á menningarnótt eða þorláksmessu.

Ég á eftir að sakna almenningssamgangnanna hér þegar ég verð aftur kominn heim. Kerfið hér er þéttara og ferðir tíðari. Og þó farþegar sitji hér jafnan prúðir, alvörugefnir og þögulir eins og kirkjugestir – og ég hafi heyrt dæmi þess að skvöldrurum sé umbúðalítið sagt að halda kjafti – þá venst það betur en að verða vitni að heimiliserjum í háværum símtölum í strætóum í Reykjavík.

Það verður gott að „fá málið aftur“. Eins lærdómsríkt og það er að þurfa að gera sig skiljanlegan með látbragði og handapati, víða þar sem maður kemur, og að þjálfast betur í tungumáli sem er ekki móðurmál manns þá verður léttir að geta aftur tjáð sig á móðurmálinu, því tungumáli sem maður hugsar á. Að upplifa sig sem virkan þátttakanda í samfélagi er líka nokkuð annað en að vera áhorfandi og gestur í samfélagi þar sem flest er framandi – þó sú reynsla sé manni holl og víkki sjóndeildarhringinn.

Ég mun sakna verðlagsins hér þegar ég kem heim. Ég mun vafalítið eiga eftir að sitja heima yfir bjór með vinum og nöldra látlaust yfir íslensku verðlagi, þ.á m. því að fyrir verð eins bjórs heima hafi ég drukkið þrjá til fjóra í Varsjá. Að sama skapi mun ég ekki óska eftir því að tekjur mínar séu í samræmi við það sem gerist hér.

Ég hef haft ánægju og marga kviðfyllina af því að kynna mér matarvenjur heimamanna. Pylsur eru ekki bara SS-pylsur! Að panta mat af matseðli sem þú skilur ekki (skólamötuneytið) er líka áhugaverð reynsla þar sem spennan felst mest í því hvað fyrir mann verður borið. Þá kemur sér vel að matvendnin var ræktuð úr mér í æsku. En ég er farinn að sakna þess að elda sjálfur (svo ótrúlegt sem það kann að hljóma!) – hef ekki haft aðstöðu til þess síðan ég fór að heima. Já, og svo missti ég af þorranum. Mig langar í súrmat og hákarl! En kysi þó heldur pólskan vodka en íslenskt brennivín með því.

Meira kynslóðabil?

Við mótumst af umhverfi okkar. Bæði því sem við ölumst upp í og því (eða þeim) sem við kjósum að búa í eftir að við komumst á fullorðinsaldur. Samfélögin sem við tilheyrum (og tilheyrðum) hafa áhrif á viðhorf okkar, þó því fari fjarri að þau áhrif séu á einn veg.

Með þessu má að hluta skýra meiningarmun milli búsvæða (t.d. hið hefðbundna reipitog milli höfuðborgar og landsbyggðar) sem gengur jafnan þvert á kyn, aldur, atvinnu, menntun, stjórnmálaskoðanir og annað það sem líka hefur áhrif á hvernig við hugsun. Hvað af persónulegri reynslu trompar svo annað er hins vegar ekki alltaf auðvelt að sjá fyrir þegar kemur að einstökum málum. Svo erum við líka félagsverur og höfum ríka tilhneigingu til að skipa okkur í hópa, m.a. eftir uppruna eða aldri.

Það er einmitt aldursmunurinn sem ég er dálítið hugsi yfir núna. Kynslóðabil hefur líklega alltaf verið til staðar. Sem er svo sem ekki að undra. Samfélög taka breytingum og við drögum dám af þeim breytingum, en hvernig við vinnum úr því ræðst m.a. af fyrri reynslu. Við breytumst líka sjálf með hækkandi aldri. Sumir kalla það þroska. Persónulega finnst mér sú skýring afskaplega yfirlætisfull gagnvart þeim sem eru yngri enda er henni oftast beitt af þeim sem virðast telja að hækkandi aldur einn og sér gefi skoðunum þeirra meiri vigt – óháð því þó þær byggist mögulega á þröngsýni og sleggjudómum.

Mér hefur fundist ég greina aukinn skilningsskort og óþol milli kynslóða á Íslandi undanfarin ár. Maður rekur augun í skrif eldra fólks sem talar um þá yngri sem reynslulausa, heimtufreka letingja sem aldrei hafi þurft að leggja neitt á sig. Og á móti sér maður hæðnisleg skrif yngra fólks þar sem hinir eldri eru afgreiddir sem forpokaðar og íhaldssamar tímskekkjur sem skilji ekki samtímann. Þessir aldursfordómar ganga í báðar áttir. Kannski væri réttara að segja í allar áttir.

En af því mér finnst sem þetta sé að aukast þá velti ég fyrir mér hvað veldur. Það sem ég staldra við er hvort meginástæðan sé sú að íslenskt samfélag hafi þróast þannig undanfarna áratugi að samgangur milli aldurhópa hafi minnkað. Raunar finnst mér það líkleg skýring, kannski af því hún rímar við mína eigin reynslu frá uppvaxtarárunum. Er það e.t.v. orðinn veruleiki margra í dag að fólk á ólíkum aldri (t.d. á tvítugsaldri og sjötugsaldri) umgengst sáralítið nema í gegnum fjölskyldutengsl? Ýtir samfélagið í dag undir hólfun eftir aldri? Séu svörin við báðum þessum spurningum já, er kannski ekki að undra að skilningsskortur og óþol milli kynslóða fari vaxandi. Við erum jú jafnan dómhörðust þegar þekking okkar á aðstæðum annarra er minnst.

 

„Já, látt‘ann heyra það!“

Þessa setningu eða einhverja náskylda útgáfu hennar hafa flestir einhvern tíma heyrt. Jafnvel oft og ítrekað. Ég hef oft heyrt þennan frasa og líklega einhvern tíma notað hann sjálfur. Þó blessunarlega sé orðið það langt síðan síðast að ég man ekki eftir neinu tilviki.

Það sem felst í hvatningunni sem þessi orð mynda er ekki að ræða málin af yfirvegun með það í huga að komast að skynsamlegri niðurstöðu sem sátt sé um. Nei, í þessu felst að sá sem hvatningin beinist að eigi að skeyta skapi sínu á einhverjum. Hella skömmum og skætingi yfir þann sem viðkomandi er ekki sáttur við. Æsa sig og reyna að þagga niður í andstæðu viðhorfi með því að einoka umræðuna og sleppa sér lausum – beita jafnvel illyrðum og ógnunum. Þessi frasi og aðrir sömu gerðar eru hvatning til andlegs ofbeldis, þess að reyna að hafa sitt fram og vinna einhverskonar sigur í samskiptum með hörku og yfirgangi. Gildir þá einu hver málstaðurinn er.

Þetta er úrræði þeirra sem eiga erfitt með rökræður og vita líklega innst inni að þeir hafi ekki sitt fram í gegnum þær. Þetta er endurspeglun pirrings og reiði sem safnað er saman og er svo látinn gjósa. Oft á kostnað einhvers sem ekki á mikla sök á pirringnum eða reiðinni. Þetta er leið þeirra sem jafnan eru undirleitir gagnvart hverskonar valdi en gjósa svo yfir þá sem þeir telja sig ráða við. Þetta er eitt skýrasta einkenni íslensku þrætuhefðarinnar (oft kölluð umræðuhefð) og blasir víða við í einhverri mynd á samfélagsmiðlum og í kommentakerfum.

Ef við viljum bæta samskiptahætti okkar og umræðuhefð er mikilvægt að spyrna gegn hegðun sem þessari. Vinna gegn því að það sé talið eðlilegt og sjálfsagt að leyfa reiði að byggjast upp þar til hún brýst út með því að maður hellir sér yfir samferðamenn sína. Ekki svara mér því til að það séu nú bara mannlegt að koma svona fram. Slík eðlishyggju-svör eru engin rök. Þau eru aðeins afsökun fyrir hegðun sem er mótuð af umhverfi en er ekki meitluð í stein.

Það er niðurdrepandi að búa við aðstæður þar sem einu viðbrögðin sem þú færð við orðum þínum og gjörðum eru aðfinnslur og skammir. Þetta þekkja margir sem starfað hafa í félagsmálum og stjórnmálum. Ef þú gerir eitthvað á þeim vettvangi sem orkar tvímælis eða gerir mistök þá má jafnan ganga að því vísu að einhverjir „láti þig heyra það“. En fáir bæra á sér til að hrósa fyrir vel unnin verk (enda mætir slíkt oft aðkasti). Þau eiga að vera sjálfsögð. Svona umhverfi er til þess fallið að drepa niður framtak og frumkvæði fólks og er að mínu viti ein af meginástæðum þess að margt fólk sem fengur væri að í félags- og stjórnmálum er tregt til að gefa sig að þeim.

Við verðum að vera óhræddari við að hrósa því sem vel er gert. Ekki bara okkar nánustu heldur líka öðrum sem við þekkjum kannski lítið eða ekki. Það fylgir því vellíðan og hvatning að fá hrós fyrir það sem maður gerir. En það verður eftir sem áður að vera vegna einhvers sem máli skiptir (ekki hrósa mér fyrir að loka útidyrahurðinni á eftir mér eða fyrir að smjatta ekki á matnum). Líkt og oflof verður að hæðni verður hrós að markleysu ef það er ofnotað. En trúlega er hættan af því ekki mikil á Íslandi, allavega ekki í almennri umræðu. En hvað sem því líður ætla ég að reyna að vera duglegri við að hrósa fólki fyrir það sem það gerir vel. Láta fólk í kringum mig heyra einmitt það.

Hugarfar fyrr og nú

Sú manneskja sem við erum í dag er allt önnur en hún var fyrir 10, 20 eða 30 árum. Við breytumst en persónubreytingarnar eru yfirleitt það hægar að við verðum þeirra ekki vör. Við erum með hugann í samtímanum og freistumst oft til að ímynda okkur að við höfum bara haldið okkur nokkuð vel í gegnum árin og að viðhorf sem okkur þykja sjálfsögð og eðlileg í dag hafi alltaf verið það og öfugt.

Að flytjast búferlum er hvimleitt ferli en líka dálítið lærdómsríkt. Það er hvimleitt vegna umstangsins sem óhjákvæmilega fylgir, ásamt kostnaði og eyðslu á tíma sem manni finnst að mætti verja betur. En við flutninga fer maður í gegnum eigur sínar og verður á stundum hissa á því sem maður finnur. Að þessu leyti eru búferlaflutningar ákveðið tímaflakk. Hugsuninni: „Á ég þetta ennþá?!?!“ – skýtur reglulega ofan í kollinn þegar einhver gleymdur hlutur eða pappír birtist manni í geymslukassa og vekur upp minningar sem vitundin hafði ekki haft neitt af að segja lengi. Þetta geta verið góðar minningar, slæmar og allt þar á milli. Það sem eftir stendur er að ef maður gefur sér tíma til að fara í gegnum eigur sínar – nær undantekningalaust í þeim tilgangi að minnka umfang þeirra – þá lærir maður eitt og annað um sjálfan sig. Einkum þó um það hver maður var áður gagnvart því hver maður er í dag – ja … eða telur sig vera. Ég ætla ekki að byrja að ræða ímyndasköpun á samfélagsmiðlum. Það er efni í annan pistil.

Ég flutti á síðasta ári. Yfirgaf Austurland eftir 9 ára búsetu þar og fluttist til Reykjavíkur. Ég segi Austurland því að hvar nákvæmlega ég var búsettur eystra varð á tímabili að deilumáli milli mín og sveitarfélagsins sem ég taldi mig hafa aðsetur í (lögheimili mitt var annarsstaðar). Forsvarsmenn aðseturs-sveitarfélagsins vildu ólmir flytja lögheimili mitt til sín og gáfu sig ekki með það þó svo að ég legði mig fram um að vera eins erfiður og leiðinlegur og mér var unnt. Það er þó nokkuð, eins og þeir vita sem þekkja mig. Þegar ég legg mig fram í þessum efnum get ég verið næsta óbærilegur. En nú er ég kominn út í útúrdúr.

Eitt af því sem kom uppúr kassa hjá mér í fyrra var bunki af gamla Brandarabankanum. Blaði sem gefið var út þegar ég var á unglingsaldri. Ég keypti þetta og las á sínum tíma og var því forvitinn að rifja upp innihaldið enda mundi ég ekki eftir að ég ætti þetta ennþá. Það þurfti ekki langan lestur til að innihaldið rifjaðist upp. Þetta blað, sem ég hló að bröndurunum í á sínum tíma, byggðist upp á rasisma, hómófóbíu og kvenfyrirlitningu. Það sem mér áður þótti fyndið var nú orðið að algerum óþverra í mínum augum. Ég fleygði þessu drasli snarlega og vona að það hafi verið endurunnið í eitthvað gagnlegt.

Þessi lestur fékk mig til að leiða hugann að eigin hugarfari á unglingsaldri og fram á þrítugsaldur. Ég mótaðist af frekar einsleitu samfélagi sem ég ólst upp í. Ég ber þó sannarlega ábyrgð á eigin skoðunum og vil alls ekki gera samfélagið æsku minnar og unglingsára ábyrgt fyrir þeim. En mig skorti mótstöðuna gegn mannfjandsamlegum viðhorfum sem ég las eða mér bárust með öðrum hætti. Til dæmis úr textum Sverris Stormskers sem ég hélt mikið uppá sem unglingur. Meiðandi meinhæðni sem klædd er í búning brandara og gríns er lúmsk leið til að ýta undir fordóma gagnvart einstaklingum og þjóðfélagshópum á forsendum samfélaglegrar stöðu þeirra eða skoðana. Slíkt hafði áhrif á mig og hefur það vafalaust á marga aðra líka.

Niðurstaða sálgreiningar minnar á sjálfum mér fyrir 20 árum eða svo, var því eftirfarandi: Ég var endurspeglun Brandarabankans (þó auðvitað væru áhrifavaldarnir fleiri). Hómófóbískur rasisti og karlremba. Að sjálfsögðu neitaði ég því á sínum tíma – eins og menn gera í dag – og reyndi að réttlæta skoðanir mínar sem skynsamlegar og réttmætar. Hef á þeim tíma örugglega oftar en einu sinni byrjað setningar á: „Ég er ekki rasisti/karlremba/hómfóbískur, en …“.

Í dag þegar ég sé viðhorf sem endurspegla mínar fyrri skoðanir í þessum efnum – og blessunarlega eru orðnar jaðarskoðanir en ekki meginstraumurinn – verð ég í senn dapur og glaður. Dapur yfir því að þessi mannfjandsamlega heimska sé enn til staðar. Viðhorf sem byggja á þröngsýni, heift, ótta og skorti á umburðalyndi. Þau eru ranglát, skaðleg og þeim til skammar sem elur þau með sér og heldur þeim á lofti. Ég þekki ræturnar, því ég ól þessa sömu heimsku með mér áður fyrr og eyddi síðar löngum tíma í að losna undan henni. En ég er líka glaður vegna þess að tímarnir hafa sem betur fer breyst. Ruddaleg viðhorf til útlendinga, samkynhneigðra og kvenna hafa almennt verið á undanhaldi og ekki lengur viðurkennd sem eðlileg og sjálfsögð. Hvað þetta snertir er ég sjálfur mun betri manneskja í dag en ég var áður og er mun sáttari við sjálfan mig og aðra.

Er ég staðalmynd?

 

„I‘m the only gay in the village!“ Á þessari setningu klifar Dafydd Thomas, persóna í gamanþáttaröðinni Little Britain, þrátt fyrir að á vegi hans í þorpinu sem hann býr í verði ýmsir samkynhneigðir einstaklingar. Ég er ólíkur persónu Dafydds í flestu tilliti. En ég gæti þó e.t.v. reynt að halda því fram að ég sé eini Íslendingurinn í Varsjá, þ.e. ef ég byggi þá fullyrðingu á þeirri staðreynd að síðan ég kom hingað hefur enginn landa minna orðið á vegi mínum.

Persónan Dafydd gengst upp í því að vera staðalmynd (steríotýpa) á vissan hátt, en er jafnframt sannfærður um að hann sé mjög sérstakur og allt öðruvísi en þeir sem hann umgengst. Þó Dafydd sé vitanlega ýktur karakter tel ég að hann endurspegli útbreitt viðhorf. Þar á ég við þá hugsun að fólk líti á sig sem „venjulegan“ einstakling (hversu ójóst og teygjanlegt sem það hugtak kann að vera) en finnist það samt mjög sérstakt.

Ég hafði aldrei áður komið til Póllands þegar ég steig út úr flugvélinni á Chopin-flugvelli þann 11. janúar sl. Ég þekkti landið aðallega í gegnum fréttir og af kynnum af Pólverjum búsettum á Íslandi. Blessunarlega hafði ég haft kynni af það mörgum Pólverjum heima að ég var búinn að brjótast undan hinni klassísku staðalmynd Íslendingsins af pólska verkamanninum.  Þessum hrjúfa, lítið menntaða miðaldra karli í vinnugalla sem talar enga eða í besta falli bjagaða ensku. Það er raunar umhugsunarvert hvers auðvelt maður á með að falla í þá gryfju að draga víðtækar ályktanir af þjóðum og menningu þeirra út frá kynnum (eða jafnvel einungis frásögnum) af fáum eða kannski bara einum einstaklingi af því þjóðerni. Ég þekki slíka staðalmyndagerð og reikna með að aðrir geri það líka. Hún þarf þó ekki alltaf að vera neikvæð eða rasísk og flestir virðast gera sér grein fyrir að hún er ofureinföldun. En samt sem áður lifa slíkar staðalmyndir góðu lífi.

Ég velti þessu fyrir mér núna í ljósi þess að ég er eini Íslendingurinn sem margir þeirra sem ég hef rætt við hérna hafa hitt. Er ég þá orðin staðalmynd Íslendingsins í hugum þessa fólks? Sjálfur hrærist ég í frekar alþjóðlegu umhverfi hér í skólanum, þar sem ámóta algengt er að heyra talaða ensku og pólsku. Hér hef ég kynnst fólki frá mörgum löndum sem ég þekki aðeins í gegnum fréttir og hef aldrei hitt fólk frá áður. Fólk frá Eþíópíu, Nígeríu, Nepal, Kambódíu, Indlandi, Makedóníu, Úkraínu svo nokkur lönd séu nefnd. Allt mjög viðkunnalegt fólk og áhugavert. En væri rétt af mér að draga víðtækar ályktanir af þeim samfélögum sem þetta fólk er upprunið úr út frá kynnum af þeim og þeirri ímynd sem þau kynni skapa í mínum huga? Nei, auðvitað ekki. Það væri jafn rangt og ofureinfaldað og að gera pólska byggingarverkamanninn á Íslandi að staðalmynd fyrir Pólland og pólska menningu.

Annars þarf maður ekki að hitta eða ræða um fólk af öðru þjóðerni en manns eigin til að rekast á staðalmyndir. Það er nóg af þeim innanlands á Íslandi og mörgum þeirra er þar viðhaldið samviskusamlega – ekki síst þeim ýktustu og bjánalegustu. En það er efni í annan pistil. Hvað sem því líður þá fylgja staðalmyndirnar manni hvert sem maður fer. Líklega er það eitt af verkefnum lífsins að gefast ekki upp á að takast á við staðalmyndirnar og láta þær ekki ná völdum yfir hugsuninni. Láta ekki fallast í þá freistni að stimpla aðra og streitast gegn því að láta raða manni sjálfum eftir eiginleikum sem maður á e.t.v. lítið skylt við.

Stöðluð tilvera

Líf okkar einkennist af stöðlum. Við erum svo vön þeim flestum að við erum löngu hætt að taka eftir þeim. Tölvan sem ég skrifa þennan pistil á er stöðluð, sem og hugbúnaðurinn í henni. Gosdósin sem ég er að drekka úr er stöðluð sem og peran í lampanum.

Staðlar gera líf okkar einfaldara og eru á þann hátt til þæginda. Ef þú þarft að breyta einhverju á heimilinu þá eru t.d. skrúfur og rær staðlaðar. Tæknin sem við hagnýtum okkur dagsdaglega er stöðluð, m.a. með það í huga að ólík tæki geti „talað saman“ og einfaldað tilveru notendanna. Byggingar lúta margvíslegum stöðlum, þó á Íslandi sé ekki algengt (a.m.k. ekki enn) að heilu hverfin rísi með eins blokkum eða einbýlishúsum.

Við treystum á að þeir sem það eiga að gera fylgi framleiðslustöðlum þannig að það sem við kaupum sé í samræmi við væntingar og nýtist á þann hátt sem til er ætlast. Að fjöldaframleiddir hlutir af sömu gerð, hvort sem um er að ræða húsbúnað, bíla eða raftæki, séu nákvæmlega eins og virki á sama hátt. Þetta er einn helsti styrkur fjöldaframleiðslunnar sem umlykur okkur á hverjum degi. Neytandinn gengur að því nokkuð vísu hvað hann kaupir og er í aðstöðu til að gera athugasemdir ef það bregst.

En staðlarnir ná yfir fleira en tæki og byggingar. Þeir ná líka t.d. til matvæla. Það er einfalt að færa rök fyrir stöðlun á gæðum matvæla en öðru máli gegnir með útlit. Við sem höfum einhvern tíma tekið upp kartöflur eða rófur höfum séð að garðávextirnir sem koma upp úr moldinni eru margir hverjir ósnortnir af stöðlum mannsins, þó megnið af þeim rúmist innan þeirra. Mér er sléttsama þó að gulrótin sem ég brytja út í pottréttinn sé einkennileg í útliti, svo lengi sem hún er óskemmd. En einkennilega útlítandi grænmeti er hjá flestum framleiðendum flokkað sem útlitsgallað og kemst því ekki í sölu. Stöðlun á fjöldaframleiddum matvælum leiðir óhjákvæmilega til sóunar sem er bæði alvarleg fyrir umhverfið (sem látið er framleiða meira en nauðsyn ber til) og ósiðleg (þegar drjúgur hluti íbúa jarðarinnar býr við skort).

Hnattvæðingin hefur ýtt undir stöðlun. McDonalds, KFC og Starbucks eru þekkt kennileiti út um allan heim. Veitingastaðir sem bjóða sömu vöruna og þjónustuna hvar sem þeir starfa og eru hver öðrum líkir í útliti enda ýmist reknir af sama fyrirtækinu eða samkvæmt sérleyfi frá móðurfyrirtæki. Þegar þeirri hugsun er haldið að okkur neytendunum seint og snemma að „meira fyrir minna verð“ sé það sem mestu skiptir verða yfirburðir slíkra keðja enn meiri gagnvart smærri aðilum. Aðilum sem jafnan bera sérkenni þess svæðis sem þeir starfa á. Sérkenni samfélagsins sem þeir spruttu uppúr. Sérkenni okkar sem búum þar.

Menningin (einkum popp-menningin) er undir sömu áhrifum. Frægð er í dag meira háð ímyndarsköpun og markaðsstarfi en hæfileikum. Baráttan um athyglina er vörumerkjastríð – eins og í hverju öðru markaðsstarfi. Við búum við hamslaust flóð samleitrar og athyglisfrekrar afþreyingarmenningar sem oft inniheldur illa duldar auglýsingar frá styrktaraðilum. Stöðlun menningar vinnur gegn fjölbreytni hennar og gerir okkur andlega fátækari. En á því sviði er líka ætlast til að við séum fyrst og fremst neytendur rétt eins og við værum að kaupa hraðsuðuketil eða straujárn.

Með plastkortin og skuldsetningarviljann að vopni rennum við svo saman við andrúmsloftið og erum þakklát fyrir hversu popplögin, framhaldþættirnir, snjallsímarnir og kynlífshjálpartækin eru laglega stöðluð.

Kommentakerfi á endastöð

Kommentakerfi netmiðlanna eru í dag orðin að súrum brandara. Tilvist þeirra í samtímanum kristallst á margan hátt í hugtakinu „Virkur í athugasemdum“. Kómískum status sem vísar til þess að sá sem hann ber sé krónískur nöldrari og besservisser. Þessi hópur hefur orðið táknmynd þess alltof útbreidda viðhorfs að tjáningarfrelsi á netinu fylgi ekki ábyrgð. Þar megi segja það sem manni sýnist og ástæðulaust sé að skeyta um hvort orð manns særi, móðgi eða jafnvel ógni einhverjum sem þau les.

Þegar upplýsingabyltingin var að breiðast út ríkti almenn bjartsýni um að þær framfarir sem hún átti að fela í sér myndi breyta samskiptum fólks og gera fleira fólk virkt í opinberri tjáningu. Þeir bjartsýnustu bundu vonir við að upplýsingabyltingin myndi efla lýðræði, einkum með aukinni þátttöku almennings í tjáskiptum um samfélagsmál. Það myndi svo leið til betra samfélags fyrir alla.

Margt af því sem átti að fást með upplýsingbyltingunni varð að veruleika en þróunin hefur ekki gengið eftir að öllu leyti. Það er t.d. mjög umdeilanlegt hvort auðveldari leiðir til opinberra tjáskipta hafi leitt til framfara í lýðræðisþróun. Í dag er sannarlega einfaldara en var fyrir 20 árum (t.d. með notkun samfélagsmiðla) að virkja fólk til þátttöku í baráttu fyrir ýmsa málstaði. Það er yfirleitt jákvætt. Almenningur er á þann hátt orðin virkari þegar kemur að mótun samfélagsins og á auðveldara en áður með að þrýsta á valdhafa í einstökum málum. Meðferð á hælisleitendum á Íslandi er nærtækt dæmi um slíkt.

Einn fylgifiskur upplýsinga- og netbyltinganna var vöxtur fjölmiðlunar á Internetinu. Netmiðlar hafa með tímanum vaxið hefðbundnum prentmiðlum yfir höfuð og virðast ætla að ganga af þeim dauðum með tímanum. Það hefur þó tekið lengri tíma en spáð var. Langt er síðan allir stærri fjölmiðlar á Íslandi hófu netútgáfu samhliða öðrum útgáfuformum auk þess sem fram hafa komið fjölmiðlar sem eru eingöngu á netinu. Það kreppir bæði að prentmiðlum og ljósvakamiðlum. Ákvörðun stjórnenda breska fjölmiðilsins Independent að hætta prentútgáfu í komandi marsmánuði er skýrt dæmi um hvert stefnir. Líf netmiðla er þó enginn dans á rósum en í samfélögum þar sem upplýsingaflæðið er ört er forskot þeirra augljóst gagnvart eldri miðlunarformum. Tilkoma samfélagsmiðla hefur svo breytt fjölmiðlaumhverfinu enn frekar.

Ein af þeim nýjungunum sem fylgdi netmiðlunum voru kommentakerfin sem ætlað var að gera fjölmiðlana gagnvirkari og ýta undir lýðræðislega umræðu með því að gefa lesendum kost á að tjá skoðanir sínar á fréttum og umfjöllunum inni á netmiðlunum sjálfum. Til að lifa verða fjölmiðlar að fylgja straum tímans og það að vera með opin kommentakerfi var nýlunda sem fáir töldu sig geta sniðgengið á sínum tíma enda ríkti þá almenn bjartsýni á gagnsemina. Kommentakerfi voru því innleidd af flestum netmiðlum.

Sú tilraun að leyfa lesendum að kommenta á fjölmiðlaefni hefur nú staðið í allmörg ár. Niðurstaðan hennar er næsta afdráttarlaus. Þó einstaka sinnum sjáist í kommentakerfum áhugaverð viðhorf og pælingar þá hafa flestir þeir sem reynt hafa að nota þennan vettvang til að skapa uppbyggilega og gagnlega umræðu um dægurmál fyrir löngu gefist upp. Þeirra framlög hafa drukknað í hótfyndni, dómhörku, skætingi, ásökunum og illkvittni sem eru orðin helstu einkenni kommentakerfanna. Þegar verst lætur hafa þau orðið kjörlendi fyrir þöggun áreitni, einelti og hótanir.

En geta netmiðlarnir gert eitthvað í því að fólk sýni hvert öðru ekki kurteisi og umburðalyndi á netinu? Já, þeir geta hætt að leyfa þeim sem jafnan ætla öðrum allt hið versta, að nota netmiðlana sem stökkpall til að útbreiða skoðanir sínar. En mætti laga þetta með einhverskonar ritstýringu? Tæplega. Ritstjórnir fjarlægja oftast augljós hatursummæli en þau eru aðeins toppurinn (eða öllu heldur botninn) á vandanum. Aðdróttanir, illmælgi og rætni fá vængi á kommentakerfunum og þess háttar orðræða hefur smám saman yfirtekið þau. Stundum komandi frá fólki sem vegur úr launsátri í skjóli gervipersóna. Að reyna að ritstýra kommentakerfunum er því óvinnandi vegur og gengur raunar gegn hugmyndinni um þau sem opinn vettvang tjáskipta.

Netmiðlarnir sem enn hafa opin kommentakerfi ættu að loka þeim sem fyrst og hætta að vera dreifiveitur fyrir óhróður, fordóma og mannfyrirlitningu komandi frá fólki sem skortir dómgreind til að átta sig á merkingu þess sem það lætur út úr sér og gerir sér enga grein fyrir því að tjáningarfrelsi fylgir ábyrgð. Þau sem það vilja geta eftir sem áður ausið úr skálum fordóma sinna á eigin vefsíðum eða á samfélagsmiðlunum og gert það þar á eigin forsendum og á eigin ábyrgð.

Kommentakerfi netmiðla hafa fyrir löngu sannað gagnsleysi sitt sem tæki til uppbyggilegrar umræðu. Vonir um það hafa brugðist og snúist upp í andhverfu sína. Kommentakerfin voru áhugaverð tilraun. En hún mistókst og kerfin eiga nú að tilheyra fortíðinni.

 

Þessi grein birtist á Kjarnanum í gær. Millifyrirsagnir þar eru komnar frá ritstjórn (sjá: http://kjarninn.is/skodun/2016-02-21-kommentakerfi-endastod/).

Þaulseta og endurnýjun

Frétt gærdagsins í íslenskum fjölmiðlum var að Katrín Júlíusdóttir, þingkona, varaformaður Samfylkingarinnar og fyrrverandi ráðherra, ætlaði að draga sig í hlé frá stjórnmálum og snúa sér að öðru við lok þessa kjörtímabils. Þessi frétt kom á óvart, en viðbrögðin ekki að sama skapi.

Margir stigu fram og þökkuðu Katrínu samstarf og óskuðu henni velfarnaðar. Raunar hlýtur svona ákvörðun að vera skrítinn fyrir viðkomandi því í framhaldinu af því að ákvörðunin verður opinber taka að birtast skrif víðsvegar á vefnum sem eru í minningargreina-stíl, en fjalla þó um manneskju sem er í fullu fjöri. Það er þó ekki þessi tegund viðbragða sem mig langar að ræða heldur önnur sem einnig telst hefðbundin, þ.e. þau að verða hissa á því að einhver sem ekki er kominn á (eða er að nálgast) eftirlaunaaldur velji sjálfviljugur að hætta þingmennsku. Slík undrun sást í gær gagnvart ákvörðun Katrínar og hennar varð líka vart þegar Birkir Jón Jónsson ákvað að hætta á þingi árið 2013. Fleiri svipuð dæmi mætti nefna.

Ein af afgerandi breytingum á íslensku samfélagi undanfarna áratugi er að nú er það orðin almenn venja (en ekki undantekning) að fólk sem komið er yfir þrítugt skipti reglulega um starf. Þetta á við um fólk í ábyrgðastöðum jafnt sem aðra. Margir velja eftir t.d. 5-10 ár í starfi að breyta til og fara að vinna við annað. Vilja takast á við nýjar áskoranir og nýta reynslu sína á nýjum vettvangi. Það sem er undantekningin í dag er gamla venjan, þ.e. að fólk velji sér starf að lokinni skólagöngu og sinni því þar til það fer á eftirlaun eða fellur frá (mjög sérhæfð störf eru þó undanskilin). Það viðhorf að þetta sé normið virðist þó lifa góðu lífi gagnvart þingmennsku, öfugt við nánast öll önnur störf.

Ég tel að sú þróun að fólk skipti tíðar um störf en áður sé af hinu góða og það á að sjálfsögðu að eiga við um þingmennsku eins og önnur störf. Það er ekki þeirri mikilvægu stofnun sem Alþingi er til góðs að reglan sé að fólk leitist við að sitja þar sem fastast út starfsævina og aðrar leiðir séu ekki út en þær að falla frá, fara á eftirlaun eða tapa í kosningum. Ég er þó ekki að tala fyrir því að öllum þingmönnum sé skipt út á fjögurra ára fresti. Alþingi eins og aðrir vinnustaðir þarf á að halda hæfilegri blöndu af reynslu og endurnýjun. Of hröð endurnýjun býður heim hættunni á að þingmenn verði vegna reynsluleysis um of háðir stjórnsýslunni. Þannig gætu völd og áhrif kjörinna fulltrúa færst til embættismanna sem almenningur hefur enga aðkomu að því að velja hverjir eru.

Ef ég ætti að setja eitthvert viðmið myndi ég segja að 8-12 ára þingseta sé hæfileg. Eftir áratug í sama starfinu tel ég að veruleg hætta sé orðin á kulnun í starfi og að fólk verði værukært og taki e.t.v. að líta á starfið sem sína persónulegu eign. Fólk er auðvitað misjafnt og sumum tekst að halda sér ferskum í sama starfi lengur en í áratug, en þau tilvik eru fá. Í þessu samhengi er líka vert að minnast á forstöðumenn opinberra stofnana. Þó gildandi lög geri ráð fyrir að þeir séu skipaðir til 5 ára er raunin sú að gamla æviráðningin er enn við líði, því ef ekkert alvarlegt hefur komið upp á fá þeir nær undantekningalaust framlengingu um önnur 5 ár (og svo aftur og aftur). Að mínu mati ætti að leiða í lög að forstöðumenn opinberra stofnana gætu ekki setið lengur í sama embættinu en í 10 ár. Þannig mætti tryggja endurnýjun og fyrirbyggja að stofnanir líði fyrir að sitja uppi með kulnaða og heimaríka forstöðumenn.

Enginn er ómissandi.