Lífstíll

Yfirskrift þessa pistils er hugtak sem sífellt skýtur upp kollinum í umræðum fólks á meðal, bæði í raunheimum og á netinu. Lífstíll, með allskyns viðskeytum og forskeytum, er orðin ein af mest tuggðu klisjunum í íslensku máli. Þetta hugtak tekur í einhverri mynd til nær alls í daglegu lífi fólks – mataræðis, klæðaburðar, áhugamála o.s.frv.

Ísland er neyslusamfélag og lífstílarnir sem mesta athygli fá eru jafnan mjög áberandi markaðsdrifnir. Lífstíll í þessu samhengi vísar til erkitýpu sem ætlast er til að fólk horfi til og leitist við að tileinka sér. Kaupi þennan drykk, þetta efni, þessa bók o.s.frv. Með það að markmiði að ná þessum eða hinum skilgreinda árangrinum.

Á síðasta ári komst í umræðuna lífstíll sem virðist í fljótu bragði vera á skjön við aðra sem brenndir eru marki neysluhyggju. Þetta er mínimaliskur lífstíll. Á Facebook má finna hóp sem nefnist „Áhugafólk um mínimaliskan lífsstíl“. Hann telur hátt í 10 þúsund manns. Ég skal viðurkenna að ég hef ekki gengið í þennan hóp en fylgst dálítið með umræðu um þetta hugtak. Óinnvígðir geta fræðst um  hvað felst í mínimaliskum lífsstíl á “útidyrum” umræddra Facebook-síðu. Þar segir:

„Mínimalískur lífsstíll er að hafa í lífi þínu aðeins það sem þú þarft og *nýtur* þess að hafa. Laus við óþarfa. Það eru engar reglur um hvað á að eiga mikið af hinu eða þessu. Mínimalískur lífsstíll snýst ekki um að eiga eins lítið og maður getur eða að eiga bara nauðsynjar, heldur að það sem þú átt gefi lífi þínu gildi. Þess vegna er mínimalískur lífsstíl jafn ólíkur á milli einstaklinga og við erum mörg.“

Af þessari fáorðu skilgreiningu að dæma getur maður í raun skilgreint sig sem mínimalista í lífsháttum alveg sama hvernig maður hagar lífi sínu. Þetta er bara spurning um að taka upp merkið. Ef mér finnst það brýn lífsnauðsyn að eiga 400 fm einbýlishús með viðeigandi bílskúr og keyra um á glænýjum upphækkuðum jeppa get ég vel haldið því fram að minn lífstíll sé mínimalískur. Skilgreiningin er svo opin að hún segir í raun ekkert. En það skiptir sennilega minnstu. Þetta tísku-skilgreining. Þær snúast um að laða að – ekki að vera rökréttar.

Ég er almennt áhugalítill um þá lífstíla sem haldið er að okkur enda flestir dellur sem detta jafnharðan úr tísku. En í þessu tilfelli sperrti ég eyrun. Er það sem ég var alinn upp við og hef tamið mér í mörg ár nú komið í tísku? Já og nei. Þetta er tíska og því þurfti að búa til nýtt hugtak sem virkar inn í orðræðuna. Já og skrifa bók um efnið. Það tilheyrir líka. Las einmitt í vikunni pistil á Stundinni eftir höfund bókar um efnið. Sá pistill sagði minna en lýsingin hér að ofan um hvað fælist í hugtakinu enda tilgangur pistilsins líklega einkum sá að koma því að (sem kemur fram neðanmáls) að höfundur hafi skrifað bók um efnið.

Það er raunar eðlilegt – og jafnvel mætti segja fyrirséð – að leitast sé við að koma mínimalisma í tísku. Með því að fara “all in” í þá tísku getur fólk losað sig við allt dótið sem það sankaði að sér þegar það tileinkað sér fyrri tískubólur í lífstíl. Og þegar þessi bóla er sprungin þá er nóg pláss á heimilinu fyrir þá næstu. Þegar þú verður búinn að kaupa bók um mínimaliskan lífstíl, ryðja til í stofunni og losa þig við allan óþarfa, þá er ekki annað en að gera en að bíða eftir næstu tísku. Kannski verður það maximal lífstíllinn? Inntak hans gæti verið eftirfarandi: “Kauptu eitthvað á hverjum degi og helst eins fyrirferðarmikið og hægt er. Hladdu sem mestu dóti inn í íbúðina þína alveg þangað til þú átt erfitt með að ganga um hana.” Þetta myndi smellpassa í beinu framhaldi af mínimalismanum og vera auk þess í anda neysluhyggjunnar.

Annars ætti ég kannski manna síst að vera að gera grín af þessu. Ég hef frá unglingsaldri haft takmarkaða löngun til að eignast hluti umfram það sem ég þarfnast. Ég bý í lítilli leiguíbúð og hef aldrei átt eigið húsnæði – langar það ekki. Ég keyri um að 16 ára gömlum bíl og dreymi ekki um að eignast jeppa, o.s.frv. Ég lít því á sjálfan mig sem nægjusaman mann en hef ekki haft hugmyndaflug í að búa til tísku-hugtak yfir það.

En í neyslusamfélagi er nægjusemi illa séð. Hún hefur þótt púkaleg og gamaldags svo ekki sé talað um hvað hún er vond fyrir hagvöxtinn. Það var því líklega nokkuð sjálfgefið að ef þú ætlar að “selja” fólki nægjusemi þá verður að kalla hana öðru nafni. Fara á smá hugtaka-flakk, sem er frekar auðvelt hjá þjóð sem er vanist hefur kennitöluflakki.

 

Togstreita og aðgreining

Við sem fylgjumst með almennri umræðu og notum samfélagsmiðla verðum reglulega vör við deilur. Yfirleitt snúast deilurnar um dægurmál, oft um “málið” sem allt snýst um í umræðunni á Íslandi þann daginn og er jafnan gleymt tveimur dögum síðar. Svona deilur (ég á dálítið erfitt með að nota hugtakið rökræður í þessu sambandi) þróast gjarnan í nokkurskonar liðsíþrótt sem má draga saman í reiðilegu spurninguna: “Af hverju eru ekki allir eins og “við”?”

Nú er ég búinn að alhæfa hressilega. Það er líklega vegna þess að ég er eins og aðrir smitaður af þessari umræðuhefð – hef alltof oft staðið mig að því að taka þátt í henni, eins yfirborðskennd og hún jafnan er. Sem betur fer leiðast ekki öll opinber skoðanaskipti út í deilur, en sá samskiptamáti er þó alltof algengur og virðist mörgum eðlilægur. En þó ég hafi verið þátttakandi í slíku (reyni þó almennt að forðast það) finnst mér þessi umræðuhefð (sem líklega væri réttara að kalla þrætuhefð) samt ekki í lagi. Hún þarf að breytast. Verða yfirvegaðri og lausari við upphrópanir, tortryggni og dilkadrátt sem lítið gerir annað en að festa í sessi aðgreiningu, skilningsleysi og jafnvel heift milli fólks sem skilur ekki og (það sem verra er) reynir ekki að skilja hvert annað.

Okkur virðist mjög lagið að skapa og viðhalda togstreitu um hin aðskiljanlegustu mál og draga okkur í aðgreinda hópa. Nálgast umræðuna eins og kappleik þar sem það eina sem gildir er að hafa einhvers konar (ímyndaðan) sigur á (oft ímynduðum) mótherja. Ekki ástunda rökræður heldur frekar að reyna að þagga niður í mótaðila. Taka ekki tillit til mótraka heldur halda fram málstað með sem einstrengingslegustum hætti og af sem mestri þrjósku og hörku – þannig að jafnvel þróist yfir í áreitni og dónaskap. Í slíku samhengi skipum við okkur í liðin: landsbyggðarfólk gegn höfuðborgarbúum, listunnendur gegn íþróttaaðdáendum, menntamenn gegn bændum, heimamenn gegn ferðamönnum o.s.frv. Alltaf “við” gegn “hinum” sem eru “eitthvað annað”.

Þegar ég lít á eigin uppruna og stöðu kemur eftirfarandi í ljós. Ég er uppalinn á landsbyggðinni og hef alið mestann minn aldur þar, en er nú búsettur á höfuðborgarsvæðinu. Ég hef áhuga á listum og menningu en fylgist líka með íþróttum og stunda þær að einhverju marki. Ég er menntamaður og háskólanemi en hef jafnframt sterkar tengingar við búskap æskuheimilis míns og er vanur líkamlegri vinnu. Á Íslandi er ég heimamaður en hér í Varsjá er ég ferðamaður (skiptinemi). Svona gæti ég líklega haldið lengra áfram. Það er því ekki að undra að maður verði dapur þegar reglubundnir hanaslagir milli fyrrnefndra hópa hefjast með öllum sínum sleggjudómum og skilningsleysi. Það þarf ekki annað en að nefna Reykjavíkurflugvöll og listamannalaun til að öllum sé ljóst hvað ég á við.

Þrátt fyrir allt hef ég jafnan verið frekar tregur við að merkja mig hópum. Það er reyndar slæmt þar sem ég tel að okkur sé almennt betur borgið með því að vinna saman frekar en að hver sé sjálfum sér næstur. En það sem hefur fælt mig frá eru stimplarnir sem sífellt er veifað yfir fólki og eigna manni viðhorf og kenndir – sem oft passa ekki við sannfæringu manns, en aðrir hafa skilgreint sem óhjákvæmilegan fylgifisk þess að tilheyra viðkomandi hóp. Annað er svo það að stilla manni upp með að vera sjálfkrafa í andstöðu við annan hóp ef maður tilheyri einum. Ég er ekki að tala hér fyrir afstöðuleysi heldur einungis að benda á þann niðurdrepandi plagsið þrætuhefðarinnar að þurfa sífellt að skilgreina aðra og skapa óþarfa aðgreiningu.

Það má ekki aðeins finna fordóma og dómhörku í máli þeirra sem skilgreina sig utan einhvers hóps um þá sem þeir telja að tilheyri honum. Þetta á líka við innan hópa (formlegra og óformlegra) þar sem einstaklingar leitast við að skilgreina “viðhorf hópsins” fyrir sjálfum sér og öðrum. Slíkt fellur oft í far tvíhyggju, þ.e. því að stilla þeim sem eru á áþekkri skoðun upp með tvo valkosti, annað hvort „mína“ afstöðu eða „hina“ (sem skilgreind er þannig að ómögulegt er að styðja hana). Aðrar leiðir eru ekki í boði. Annað hvort ertu með “okkur” eins og “við” skilgreinum afstöðuna. Ef ekki: þá ertu móti okkur. Önnur afstaða er illa séð og er í raun afneitað, þ.m.t. þeirri að sætta sig ekki við svo svarthvítar skilgreiningar og láta ekki aðra setja sér mörk um hvaða skoðanir maður eigi að hafa og á hvaða forsendum.

Hæðni er vinsælt vopn í orðaskilmingum og mikið notað innan hópa til að gera þá sem utan standa hlægilega og tortryggilega. Bak við hæðnin glittir oft í óþol fyrir þeim sem eru á öðru máli. Hún getur því virkað sem þöggunarmeðal. Hæðnin er enda eitthvað sem oft er beitt til að leggja fólk í einelti. Fáir treysta sér til að taka undir viðhorf einhvers sem “skoðanasystkin” hefur gert hlægileg og kjósa því heldur að þegja. Annað þekkt mælskubragð, sem miðar að því að þagga niður í öðrum og er fyrir löng orðin klassískt í þrætuhefðinni, er að gera öðrum upp (neikvæðar) tilfinningar og láta að því liggja að skoðun byggist á þeim. “Við hvað eruð þið hrædd?” er í þessu samhengi ekki spurning heldur staðhæfing sem miðast við að láta aðra finna til skammar fyrir skoðanir sínar. Láta mótaðilann (og aðra tilheyrendum) fá á tilfinninguna að forsenda skoðana hans sé hlægileg íhaldssemi. Þetta bragð leitast við að láta þann sem er beittur því falla í það far að þræta fyrir að vera ekki óttasleginn eða hengja haus og gefast upp. Það er enda oft notað af þeim sem tala fyrir einhverjum breytingum en eru orðnir rökþrota og grípa þá til þess ráðs að reyna að þagga niður í mótaðilanum og “vinna þannig sigur”.

Íslenska þrætuhefðin leiðir sjaldan til vitrænnar eða skynsamlegrar niðurstöðu. Hún afhjúpar hins vegar reiði, dómhörku, óþol og jafnvel ákveðið form ofbeldishegðunar (þöggun). Hvort sem umræðuhefðin þróast til betri vegar er erfitt að spá um (því miður bendir fátt til þess), en það er allavega gott að halda því á lofti að ríkjandi hefð er meingölluð og að henni má breyta.

 

Örlítið um isma og forsendur

Í strætóferð morgunsins var ég að velta fyrir mér námskeiðum sem ég mun taka hérna við skólann, en þau virka bæði áhugaverð og ögrandi ef marka má kennsluáætlanirnar. Þessar vangaveltur leiddu svo hugann að námskeiðum sem ég tók við HÍ á sínum tíma þegar ég var þar í BA og MA námi í sagnfræði.

Innan þessarar samgöngu-tengdu-hugleiðinga-minna skaut upp í kollinn minningu af námskeiði sem ég tók þegar ég var um það bil að klára BA námið fyrir rúmum áratug síðan. Meginefni þess námskeiðs (sem snerist þó reyndar líka um fleira) var innihald hugtaks sem hefur verið fyrirferðarmikið í almennri umræðu heima undanfarin ár. Hugtakið femínismi. Áður en ég skráði mig í þetta námskeið hafði ég ójósa hugmynd um hvað fælist í femínisma og þó þekkingin yxi í námskeiðinu leiddi það ekki til þess að gengi þaðan út og “vissi þetta alltsaman”. Hef raunar aldrei litið á mig sem neinn sérfræðing í þessum efnum, þó ég viti umtalsvert meira nú en ég gerði þá.

Ef ég man rétt þá voru það nokkrar skólasystur mínar (sem einnig sátu námskeiðið) sem hvöttum mig til að taka þetta námskeið. Fyrir það er ég þakklátur því þegar upp var staðið reyndist þetta með betri námskeiðum sem ég tók við HÍ. Áhugi nemendanna á efninu var meiri en almennt gerðist og umræðurnar fjörugri að sama skapi. Sjálfur hélt ég mig yfirleitt til hlés en fylgdist með. Kynjahlutföllin voru dálítið fyrirsjáanleg ca. 80/20. Við vorum þrír strákar sem hófum námskeiðið, hver á sínum forsendum. Ég var þarna aðallega fyrir sakir almennrar forvitni og áðurnefndar hvatningar. Hafði litist hvað best á þetta valnámskeið af þeim sem voru í boði. Hinir tveir höfðu sínar ástæður. Annar var kominn þarna til að sannfæra sjálfan sig um að efni námskeiðsins væri tómt rugl. Hinn var jákvæðari gagnvart efninu en lét af því að ástæðan fyrir valinu væri hans eigin leti og því hefði ráðið miklu að kennslustundirnar voru jafnan eftir hádegi. Ég held ég muni rétt að ég hafi verið sá eini af okkur þremur sem lauk námskeiðinu. Brottfallið kvennamegin var hins vegar lítið eða ekki neitt.

Það sem eftir stendur hjá mér þegar ég hugsa um þetta námskeið er að það átti stóran þátt í að opna minn huga fyrir inntaki femínisma og færa mig nær skilningi á honum. Sá skilningur er ekki eins einfaldur og oft mætti ætla af almennri umræðu þar sem fólk dregur sjálft sig og aðra í fylkingar og einfaldar femínisma niður í að vera næsta marklaust slagorð. Þessi hugmyndastefna á sér margar hliðar og þó markmiðin séu nokkuð þau sömu hjá þeim sem kenna sig við þennan tiltekna -isma þá var einn helsti lærdómur minn af námskeiðinu (og reynslunni síðar) að það er fjarri því einhlýtt hvaða leiðir fólk vill fara að markmiðunum.

Í umræðu um femínisma (líkt og um aðrar pólitískar hugmyndastefnur) verður að gera greinarmun á málstað og einstaklingum. Engin ein persóna er hugmyndastefna hold klædd, til þess er þær of margslungnar og víðfeðmar. Því er firra að fella dóma yfir hugmyndastefnu vegna túlkunar eins eða fárra einstaklinga á henni. Slíkir dómar segja jafnan meira um þá sem fella þá fremur en um efnið sem er til umræðu.

Einstaklingurinn er aldrei stærri en málstaðurinn.

Lífið er núna!

Ég er einrænn. Það eru engin tíðindi, hvorki fyrir sjálfan mig né þá sem mig þekkja. En þó ég sé einrænn og hafi ekki þörf fyrir að vera í næsta stöðugum samskiptum við fólk, frá því ég vakna á morgnana og þar til ég sofna á kvöldin, lít ég ekki svo á að ég sé félagsfælinn. Allavega ekki svo að það hái mér. Hef líklega bara ríka tilhneigingu til að haga hlutunum eftir eigin höfði. Svo er ég sjálfhverfur – eins og svo margir, þó fæstir gangist við því.

Það að vera einrænn hefur oft valdið mér vangaveltum og stundum hef ég verið með hálfgert samviskubit yfir að kjósa frekar einveru og rólegheit fremur en að hitta fólk eða mæta á viðburði, þegar það stendur til boða. Því er ekki að leyna að þetta tengist vafalaust því að ég var verulega þunglyndur í rúman áratug og þá lokaði ég mig oft af. Svo má ekki vanmeta vanann. Hann er eitt sterktasta aflið í okkur flestum og nær oft að halda manni í sömu skorðum. Vaninn ásamt þunglyndinu var líklega það sem hélt mér frá því að prófa skiptinám þegar ég var í HÍ 2000-2006. Ég hugsaði oft um það þá en ég hafði mig aldrei af stað.

Það hljómar kannski sem ákveðin mótsögn að einstaklingur eins og ég ákveði að stökkva til og flytja til framandi lands. Kann að vera. En mér finnst það ekki. Að vera einrænn og sjálfum mér nægur hefur þvert á móti reynst vera ótvíræður kostur þessar fyrstu vikur mínar hér í Varsjá. Ég þekkti engan hér áður en ég kom. Síðan kem ég hingað þegar misseri í skólanum er að ljúka og væntanlegir samnemendur eru á fullu við verkefnaskil og hafa eðlilega lítinn tíma til að spjalla við þann nýkomna. Stundirnar með sjálfum mér hafa því verið margar undanfarið – en lífið er gott.

Mesta átakið og hæsti þröskuldurinn á vegi þess að gera eitthvað nýtt er að taka ákvörðunina. Þetta er eiginlega mjög svipað því að velja á milli þess að eyða kvöldi fyrir framan sjónvarpið eða fara út og hitta fólk, fara á sýningu eða gera eitthvað sem manni ber ekki skylda til. Erfiðasti hlutinn á leiðinni er að hafa sig uppúr sófanum. Það sem á eftir kemur er yfirleitt minna mál og oftast bæði gefandi og áhugavert.

Fyrir rúmum þremur árum tók ég ákvörðun sem kom ýmsum í kringum mig á óvart. Ég ákvað að segja upp ágætu starfi og leggja út í óvissuna. Ákvörðunin að hætta í starfinu í Héraðsskjalasafninu var búin að vera að veltast í mér í töluverðan tíma áður en ég gerði upp hug minn. Og þó ég vissi að ég myndi sakna samstarfsfólksins og vinnustaðarins fannst mér þetta rétti tíminn til að breyta. Óvissan um hvernig ég myndi framfleyta mér var það sem truflaði mig mest. En ég lét vaða og sé ekki eftir því. Ég ákvað að elta eigin væntingar til lífsins, afla mér meiri menntunar og nýrrar reynslu í von um að skapa mér síðar líf og starfsvettvang sem falli að hæfileikum mínum og áhugasviði. Það er enn löng leið þangað. En ferðin hefur verið frábær til þessa.

En var það sem knúði mig til að taka þessa ákvörðun fyrir þremur árum? Það var einföld uppgötvun sem má draga saman í þrjú orð: Lífið er núna!
Þessi einfalda fullyrðing á við hvað sem maður er að gera og hvar sem maður er. Ég er óþolinmóður og hef þörf fyrir að takast á við ný verkefni. Sumir finna ró og ánægju í því að hafa líf sitt í föstum skorðum. Það á ekki við mig. Ég hugsaði: Hvers vegna að bíða með að lifa þangað til á morgun, eftir viku eða á næsta ári? Mér fannst ég vera að festast í vananum. Var í þægilegu umhverfi og í vinnu sem ég var farinn að kunna vel á. Mér fannst ég vera orðinn latur og syfjaður. En ég gat rifið mig upp. Ég gat breytt til. Þegar ég fór að hugsa málið sá ég að hindranirnar í veginum voru færri en ég hélt. Það eina sem raunverulega hamlaði mér var ég sjálfur. Löngunin til að leggja af stað og reyna að grípa tækifærin sigraði. Löngunin til að byggja upp reynslu og þekkingu, ögra sjálfum mér og reyna eitthvað nýtt.

Hvert þetta allt saman leiðir mig á endanum veit ég ekki. En ég er ánægður með lífið og það skiptir mestu.

Þróun sem verður að stöðva

Ég er hugsi yfir pólitískri þróun í Evrópu. Lagasetningin í danska þinginu í gær sem heimilar yfirvöldum að gera upptækar eigur hælisleitenda hefur hneykslað marga og ekki að ástæðulausu. Hún er beinlínis ógeðfelld og  jafnframt nýjasta merkið um þróun sem er varasöm, raunar uggvænleg.

Undanfarin ár hefur fylgi vaxið við stjórnmálaflokka, bæði á Norðurlöndum og víðar um álfuna, sem vilja taka harðar á flóttafólki, útlendingum og fólki af öðrum uppruna og trúarskoðunum en eru ríkjandi í landinu. Þetta er hægrisinnaðir flokkar sem ala á populisma. Talsmenn þeirra eru óbilgjarnir í orðum og boða einfaldaðar lausnir við flóknum úrlausnarefnum. Gefa sig út fyrir að vera þeir sem þora þegar hefðbundin stjórnmálaöfl hiki. Orðaræða þessara flokka elur markvisst á ótta og þjóðernisrembingi og leitast við að stilla þeim sem ekki falla að staðalmyndum þeirra upp sem ógn. En í raun eru það þessir flokkar og þeirra fylgismenn sem eru hin eiginlega ógn. Þeir eru ógn við mannréttindi og lýðræði með sinni þjóðernissinnuðu einangrunarhyggju. Því miður þarf maður ekki að leita lengi í opinberri umræðu heima á Íslandi, hvað þá á samfélagsmiðlum, til að finna viðhorf sem rýma við þau sem hér er lýst.

Til viðbótar stjórnmálaflokkum sem hafa áðurnefndan boðskap hafa víða í Evrópu sprottið upp hópar sem ganga enn lengra. Í þeim kemur saman fólk undir merkjum illa dulinni kynþáttahyggju og hótana um ofbeldi. Áhyggjur mínar snúast ekki um tilvist þessara hópa sem slíkra, heldur að því að þau viðhorf sem þeir boða eru tekin að hafa sýnileg áhrif á hvernig sumum ríkjum álfunnar er stjórnað. Dæmið frá Danmörku kemur þar strax upp í hugann. Annað dæmi er svo Ungverjaland sem hefur verið á leið frá lýðræði til fasísks einræðis undanfarin ár. Það sést m.a. í því hvernig þar hefur verið þrengt að fjölmiðlum og á framgöngu stjórnvalda þar gagnvart flóttafólki. Skýr merki eru á lofti um að núverandi stjórnvöld hér í Póllandi sé lögð af stað í svipaða vegferð.

Og hvað er hægt að gera? Við því er ekkert einfalt svar. Hins vegar er alveg á hreinu hvað á ekki að gera. Við sem viljum viðhalda og verja lýðræði, mannréttindi og frelsi fjölmiðla og viljum sjá samfélög okkar þróast sem umburðalynd, víðsýn og fjölbreytt megum ekki sitja þegjandi og vona að þessi óáran líði hjá. Því hún mun ekki hverfa nema tekist sé á við hana. Hún þrífst á þögn meginþorra fólks sem vill fá að lifa í friði og forðast pólitísk átök – er jafnvel áhugalítið um stjórnmál og samfélagsmál yfirleitt. Þessa þögn túlka populistar síðan blygðunarlaust sem stuðning við sinn málstað. Málstað sem byggir á ætlaðri ógn sem andlýðræðisleg öfl reyna að nota til að skerða réttindi fólks, oftast í nafni öryggishagsmuna eða annarra ástæðna sem þau gefa sér.

Pólverjar hafa þúsundum saman farið út á götur um hverja helgi síðan fyrir jól og mótmælt friðsamlega þeim aðgerðum stjórnvalda sem mótmælendur telja ganga gegn lýðræði í landinu. Þeim sem hingað kemur (og ekki hefur fylgst neitt með þróun mála) kynni að koma það á óvart að hér sé pólitísk ólga enda borgin friðsæl og ekkert að sjá dagsdaglega sem vekur ótta. En þetta er yfirborðið. Sú þróun sem ég er að vara við gerist sjaldnast í stökkum heldur í smáum skrefum sem geta verið búin að leiða fólk langt af leið áður en það áttar sig. Og þá kann að vera erfitt að snúa við.

Tortryggni gagnvart öðru fólki vegna litarháttar, þjóðernis, trúarbragða eða annars elur á samfélagslegri aðgreiningu og fordómum sem geta (og hafa) brotist út í ofbeldi. Kynþáttahyggja og þjóðernisrembingur hafa áður fengið að þróast með skelfilegum hætti í Evrópu – oftar en einu sinni og oftar en tvisvar á undangenginni öld. Það eru ekki nema 20 ár síðan fjöldamorð á óbreyttum borgurum áttu sér stað á Balkanskaga, réttlætt með þjóðernisrembingi og aðgreiningu milli trúarhópa. Verum ekki svo bláeyg að halda að það geti ekki gerst aftur.

Veður og færð

Það er vel þekkt að félagsmótun og uppruni setur mark sitt á mann. Verandi Íslendingur og alinn upp í sveit er ég sífellt að spá í veðri – og á veturna líka í færð á vegum. Íslenskir sauðfjárbændur eiga mikið undir veðurfari og því er eðlilegt að sá hluti félagsmótunar skuli vera ríkur í mér. Og þó ég hafi búið í þéttbýli meira og minna síðustu 20 ár leitast ég alltaf við að hafa á hreinu hvernig veðurspáin er og hvort eitthvað sé tíðinda af færð – jafnvel þó að ég sé í Reykjavík og eina ferðalag mitt þann daginn sé í skólann og til baka aftur. Þetta er bara greipt fast í mig.

Að sjálfsögðu var þessi ríka tilhneiging til veðurrýni með í farangrinum hingað til Varsjár. Ekki aðeins fylgist ég með því hvað er framundan í veðrinu hér – sem er sannarlega ekki eins fjölskrúðugt og breytilegt eins og heima á Íslandi – heldur hef ég ekki misst af veðurfréttunum á RÚV eitt einasta kvöld á þeirri viku sem liðin er síðan ég kom hingað. Áráttuhegðun, einhver??? 😉

En til að viðhalda áráttunni þarf maður að ræða veðrið. En hér hef ég engan til þess. Jú, ég hef reyndar reynt en það eina sem heimamenn segja er: “Já, það er ansi kalt.” Þar með er það útrætt af þeirra hálfu. Þetta er fjarri því nóg til að svala þörf Íslendingsins til að tjá sig um veðrið í löngu máli og í tíma og ótíma. En þetta er skiljanlegt. Hér hefur verið hægviðri og kalt alla daga síðan ég kom hingað. Eina breytingin var þegar snjóaði svolítið á föstudagskvöldið. Við það varð Indverji sem varð a vegi mínum mjög uppnæmur, enda hafði hann aldrei séð þetta áður. Brosti eins og krakki í leikfangabúð þar sem hann mændi á snjóhulið umhverfið og flögrandi snjókorn. Ég reyndi að spilla ekki gleðinni fyrir honum þó mér þætti þessi logndrífa frekar hversdagsleg. Þegar ég sagðist svo vera frá Íslandi kom örlítið skrítinn svipur á manninn – svona eins og hann héldi að ég væri að grínast.

En þrátt fyrir snjóinn sem féll voru gangstéttir hér flestar auðar daginn eftir, sem er mjög gott fyrir mann sem hefur það á afrekaskránni að hafa fótbrotnað við að detta í hálku á leiðinni á barinn á nýársnótt. En það voru ekki hlýindi sem ollu því að gangstéttirnar eru auðar. Nei, hér stökkva menn af stað, hver sem betur getur um leið og hættir að snjóa og skafa gangstéttir og tröppur. Hér og þar mátti sjá fólk sveifla handverkfærum við snjóhreinsun. Og það eru ekki bara íbúarnir sem nota handverkfærin. Ég vildi að ég hefði munað að taka mynd af sturtuvagninum sem ég sá kúffullan af snjó á laugardaginn, en skammt frá honum var vinnuflokkur vopnaður sköfum og skólfum.

Þá er ég búinn að tjá mig á íslensku (við Íslendinga) um veður og færð í Varsjá og get því farið ánægður í rúmið.