Lýðræði í hættu?

Fyrir þremur dögum birti ég pistil hér á blogginu þar sem ég ræddi um pólitískan populisma og einræðistilburði sem hafa farið vaxandi í stjórnmálum í Evrópu. Hafi sá pistill verið á alvarlegum nótum mun þess líklega slá honum við í þeim efnum.

Þar sem ég dvel nú í Póllandi er stjórnmálaþróun hér mér hugleikin. Hér reka hver tíðindin önnur í þeim efnum og engin góð. Nýjustu tíðindin urðu á föstudaginn en þá var umræða í efri deild pólska þingsins frumvarp ríkisstjórnarinnar um breytingar í dómskerfinu. Frumvarp hafði þá þegar verið samþykkt í neðri deild þingsins. Meðal þeirra breytinga sem verða þegar þetta frumvarp verður að lögum (en fátt virðist geta komið í veg fyrir það) er að embætti ríkissaksóknara og embætti dómsmálaráðherra verða sameinuð. Það þarf ekki að eyða löngu máli í að ræða hættuna af þessu enda er þarna vegið að þrískiptingu ríkisvaldsins sem er grunnurinn að lýðræðisskipulaginu. Ágæta umfjöllun um stjórnmálaþróunina hér í Póllandi má annars lesa í enskri vefútgáfu þýska tímaritsins Der Spiegel (http://www.spiegel.de/international/europe/opposition-to-right-wing-polish-government-grows-a-1073775.html).

Dönsk stjórnvöld hafa uppskorið mikla gagnrýni undanfarið fyrir lagabreytingu sem heimilar yfirvöldum að gera eigur flóttamanna upptækar. Bæði núverandi og fyrrverandi aðalritarar Sameinuðu þjóðanna eru meðal þeirra sem hafa gagnrýnt dönsk stjórnvöld. Það helsta sem komið hefur frá þeim eru hins vegar kvartanir vegna gagnrýninnar og vegna skopmynda, einkum myndar sem sýnir forsætisráðherra Dana í gervi Hitlers. Ef málið væri ekki svona alvarlegt þá væri auðvitað sprenghlægilegt að verða vitni að því að danskir stjórnmálamenn kvarti undan þessum skopmyndum. Einkum sé rifjuð upp umræðan sem varð í kjölfar birtingar Múhameðsteikninganna fyrir tæpum áratug. Í dag er það fólk úr sömu stjórnmálahreyfingum og á sínum tíma varði birtingu Múhameðsteikninganna á forsendum tjáningarfrelsis sem nú krefst afsökunarbeiðni frá fjölmiðlunum sem birtu skopmyndirnar.

Í dag las ég svo frétt á vef RÚV þess efnis að formaður þýska stjórnmálaflokksins Alternativ für Deutschland hafi lýst því yfir að réttlætanlegt sé að landamæraverðir skjóti ólöglega innflytjendur og vísaði til ótilgreindra laga máli sínu til stuðnings. Þau lög kannast enginn við og formaðurinn hefur ekki gert grein fyrir þau séu.

Hvert þessi pólitíska þróun mun leiða er ekki gott að spá um. En þó hún valdi mér áhyggjum ætla ég samt að sitja á mér að gerast dómsdagsspámaður og reka upp öskur um þriðju heimstyrjöldina, eins sumir bullukollarnir gerðu eftir árásirnar í París í nóvember. Slíkar upphrópanir eru einungis til þess fallnar að auka ótta sem er einmitt það sem þessi ömurlega stjórnmálaþróun þrífst á. Hún er raunverulegt áhyggjuefni og það er ekki aðeins á ábyrgð kjörinna fulltrúa í lýðræðisríkjum Evrópu að vinna bug á henni. Það er ekki síður á ábyrgð borgaranna sjálfra að standa gegn því að ætluð ógn sé notuð sem átylla til að grafa undan lýðræði og mannréttindum. Afskiptaleysi mun aðeins ýta undir að málin þróist illa.

Og úr því að ég er að deila áhyggjum mínum af þróun samfélaga og lýðræðis í Evrópu þá er ekki hægt annað en að nefna dálítið sem er hægt og hljótt að laumast aftan að fólki. Ég er að tala um TISA- og TTIP-samningana. Það verður að teljast merkilegt hversu litla umfjöllun þessi samningagerð hefur fengið (þó sú umfjöllun hafi vissulega verið nokkur) miðað við þau áhrif sem samningarnir munu hafa verði þeir að veruleika (miðað við upplýsingar um innihald þeirra sem lekið hafa út). Ýmsir hafa þó reynt að vekja athygli á þessu máli heima á Íslandi. Nú síðast rithöfundurinn Bergsveinn Birgisson. Hann ræðir þetta mál í grein sem birtist í Kvennablaðinu í fyrradag (http://kvennabladid.is/2016/01/29/friverslunartrollin-fram-i-dagsbirtuna/). Ég ætla að enda þennan pistil á þremur bútum úr grein Bergsveins sem draga fram hversu ofurseld við verðum alþjóðlegum stórfyrirtækjum ef þessir samningar verða að veruleika. Með þeim verður lýðræði afnumið að verulegu leyti því kjörnir fulltrúar og aðrir forsvarsmenn þjóðríkja munu varla geta annað en staðið og setið eins og stórfyrirtækin bjóða. Þessir samningar mega ekki verða að veruleika.

“Í stuttu máli er hér um að ræða endanlegan sigur hinna ríku yfir restinni, sem ekki mun geta huggað sig við hugtök eins og lýðræði lengur. Með orðum Joseph E. Stiglitz, Nóbelsverðlaunahafa í hagfræði, þjóna slíkir samningar hagsmunum ríkasta hóps amerískrar og alþjóðlegrar fjármála- og viðskiptaelítu „á kostnað allra annarra“ (New York Times 15. mars 2014)…. Eftir því sem lekið hefur m.a. á Wikileaks um þessa samninga, er mælt fyrir auknu valdi til stórfyrirtækja, m.a. gegnum enn sterkari gerðardóm utan við þjóðbundin og alþjóðleg lög og reglugerðir. Að baki þessum „einkavædda dómstól“ standa 75.000 fyrirtæki, sem geta lögsótt þjóðríki ef lög þeirra og reglugerðir brjóta í bága við „framtíðarhag fyrirtækis“…. Með TiSA-samningnum er stórfyrirtækjum gefið alræðisvald í nafni fríverslunar og „hagræðingar“. Samningurinn mun ná utan um 70% alþjóðamarkaðsins af allri þjónustu, allt frá fjármálum til heilbrigðismála. Á WikiLeaks má lesa að ákvæði um einkavæðingu eru óafturkallanleg, það þýðir að lönd geta ekki gert lykilþjónustu opinbera á ný, þótt þeir muni upplifa að allt versni þegar fjarlægt stórfyrirtæki fer að reka elliheimili eða leikskóla landsins.”

 

Um hvað er Varsjárblogg?

Síðasta haust bauðst mér að fara sem skiptinemi til Varsjár og dvelja þar í þrjá mánuði. Þetta var tækifæri sem mér fannst ég verða að nýta og því er ég nú kominn hingað til Varsjár.

Tilgangurinn með þessu bloggi er skrifa um upplifanir mínar hér og það sem mér þykir áhugavert og skemmtilegt. Mig langar að deila þessum hugleiðingum með þeim sem kunna að hafa áhuga á þeim en þessi skrif eru líka hugsuð til að hjálpa til við að varðveita minningar frá dvölinni.

Saman við efni tengt veru minni í Varsjá mun ég svo blanda annarskonar hugleiðingum um hugðarefni mín í fortíð og samtíð.