Heimferð og stutt endurlit

Á morgun held ég heim til Íslands eftir tæpa þrjá mánuði hér í Varsjá. Þessi dvöl kom til frekar óvænt en reynslan af henni hefur m.a. kennt mér að vera opnari fyrir því að grípa óvænt tækifæri.

Það er líklega til marks um að dvöl mín hér hafi verið vel heppnuð að mér finnst eins og að ég sé nýkominn hingað – en samt eru þrír mánuðir liðnir. Ég mun koma heim reynslunni ríkari, sáttur við dvölina og vongóður um að koma aftur hingað síðar. Nú hef ég reynt að búa í stórborg – nokkuð sem mig skorti áður. Ég hef þurft að reiða mig á enskukunnáttu mína og allskyns handapat og látbragð til að komast í gegnum dagana. Ég hef kynnst nýjum skóla, kennsluháttum, kennurum og síðast en ekki síst, nemendum af ýmsum uppruna og víða að úr heiminum.

Síðasta vikan hér hefur enn á ný fært mér heim sanninn um að lífið er núna (sbr. heiti pistils sem ég skrifaði á þetta blogg í febrúar). Verandi dálítið teningslaga persóna ákvað ég fljótlega eftir að ég kom hingað að vinna skipulega að rannsókninni minni og sækja þau námskeið sem ég var skráður í en láta skoðunarferðir um borgina og annað slíkt bíða þar til undir lok ferðarinnar. Ætlaði svo að nýta síðustu vikuna mína hér til að kanna borgina betur og vera aftur dálítill túristi. Þar af leiðandi lét ég margt sem mig langaði að gera bíða. En svo gerist það að ég eyði megninu af síðustu vikunni minni hér í að vera lasinn og orkaði því ekki að gera ýmislegt af því sem mig langaði að gera. Það eykur bara á löngunina að koma aftur.

Ég var varaður við því áður en ég hélt hingað að það væru miklar líkur á að ég myndi fyllast trega og söknuði til Íslands eftir viku eða tvær í nýju landi. Til þess kom þó aldrei. Dagararnir hafa verið misgóðir eins og gengur en eftirsjá eftir að hafa farið hingað hefur aldrei gert vart við sig. Samt verður gott að koma aftur heim. Ganga aftur inn í umhverfi sem maður þekkir og njóta þess að tala íslensku og vera þátttakandi fremur en áhorfandi að samfélaginu.

Með von um að skilja pestina eftir í Póllandi skála ég í pólskum hnetuvodka og hugsa hlýlega til Íslands!

 

Kraká og Auschwitz

Fyrir komuna til Póllands voru tveir staðir sem mér fannst ég verða að heimsækja meðan ég dveldi í landinu. Kraká og Auschwitz. Á báða þessa staði hef ég nú komið. Báðir eru þeir eftirminnilegir. Hvor á sinn hátt.

Það tekur rétt rúma tvo klukkutíma að ferðast með lest frá Varsjá til Krakár. Ég er mjög ánægur með lestarsamgöngurnar hérna. Lestirnar eru nýlegar og í öll fjögur skiptin sem við ferðuðumst með lest í síðustu viku voru þær á réttum tíma. Lestarferðir hér eru þægilegur ferðamáti og frekar ódýr. Líkt og í Wroclaw er lestarstöðin í Kraká nærri miðbænum sem gerði ferðir til og frá gististað mjög þægilegar.

Eftir að hafa komið til Krakár að kvöldi var að morgni lagt af stað til Auschwitz. Farkosturinn þangað var smárúta, sem ekið var af ákaflega viðkunnalegum heimamanni. Ferðafélagarnir voru breskir hermenn á þrítugsaldri sem greinilega höfðu lagt sig fram um að kynna sér skemmtanalíf Krakár kvöldið áður, sem hefur það orð á sér að vera mjög líflegt. Bæði upplitið á þeim og umræðuefninu á leiðinni báru vitni um það. Ferðin frá Kraká til Auschwitz tekur tæpar tvær klukkustundir.

Í Auschwitz bættumst við í stærri hóp ferðamanna og vorum leidd í gegnum búðirnar undir leiðsögn. Ég reikna með að það sé venjan frekar en að fólk sé á eigin vegum, einkum ef aðsóknin er yfirleitt jafnmikil og hún var þennan dag. Byggingarnar eru þröngar og ekki nema hluti þeirra opinn gestum Hóparnir þurfa því að fara skipulega um og á jöfnum hraða svo ekki myndist örtröð.

Við byrjuðum á að ganga um eldri hluta búðanna. Sá var reistur á 3. áratugnum sem herskálar fyrir pólska herinn og byggingarnar þjónuðu því hlutverki fram að stríði þegar þær komust á vald nasista. Öðru máli gegnir um yngri hlutann, sem nefnist Birkenau, en hann var reistur af nasistum á stríðsárunum í þeim tilgangi að vera þrælkunar- og útrýmingarbúðir. Fjórar af fimm gasklefum búðanna voru þar – einungis einn í eldri hlutanum. Hann er raunar sá eini sem enn stendur, þeir í Birkenau voru sprengdir í loft upp fyrir stríðslok. Einn af föngunum en þrír af nasistum skömmu áður en þeir voru hraktir burt af rússneska hernum.

Upplifunin að koma til Auschwitz var dálítið önnur en ég hafði búist við. Ég var meira hugsi en sorgmæddur meðan ég dvaldi þar. Sannast sagna hafði ég hálf kviðið fyrir að fara til Auschwitz – en fannst ég samt verða að fara. Ég sé heldur ekki eftir því. Sennilega hafði áhrif á upplifunina hve margir ferðamenn voru þarna og hvað ferðin gekk greiðlega. Margt að sjá og heyra en lítill tími fyrir hugann til að vinna úr því. Kannski var þetta bara of óraunverulegt? Að vera loks kominn á þennan stað hörmunga, kvala, fjöldamorða og mannvonsku sem var á því stigi að maður fær ekki skilið hana. Standa andspænis stöðum sem maður hefur áður lesið um og séð á myndum. Áhrifin af því að fara til Auschwitz hafa því í mínu tilviki komið meira eftirá en meðan ég var staddur þar.

Það skipti miklu að hafa góðan leiðsögumann. Okkar var kona á að giska á sextugsaldri, mjög fær og greinilega með mikla reynslu. Það eina sem truflaði við hana var framsögnin. Enskan sem hún talaði var fín en meðan hún lýsti grimmd og hryllingi búðanna hljómaði hún ávallt eins og flugfreyja sem er að leiðbeina manni um notkun öryggisbelta og björgunarvesta. En skilaboð hennar til okkar að ferðalokum voru skýr. Þó byggingarnar í Auschwitz hrörni má það sem þar gerðist ekki gleymast – og aldrei endurtaka sig.

Dvölin í Kraká varð önnur er til var stofnað. Raunar líður mér dálítið eins og ég eigi eftir að koma þangað, þrátt fyrir að hafa gist þar tvær nætur – sem er alltof stuttur tími. Ætlunin var að fara í ferð með leiðsögn um miðborgina að morgni dagsins sem haldið var aftur til Varsjár. Sú ferð féll hins vegar niður. Kvöldið eftir komuna frá Auschwitz hittum við íslenskan vin okkar sem býr þessa dagana í Katowice. Ánægja endurfundanna var slík að lokadagurinn í Kraká einkenndist öðru fremur af ámusótt sem ásamt rigningu hélt aftur af framtaksemi og stóð skoðun á miðborginni fyrir þrifum. Ég verð því að fara aftur til Krakár síðar enda borgin heillandi við fyrstu kynni.

Wroclaw

Áður en ég fór til Póllands fyrir næstum þremur mánuðum sögðu vinir og kunningjar, sem heimsótt höfðu Pólland, að ég yrði að heimsækja Kraká meðan ég væri hérna. En eftir komuna hingað var mér bent á aðra borg sem ekki síður væri áhugaverð. Sú heitir Wroclaw og er í suðvestur Póllandi.

Wroclaw varð eins og margar aðrar borgir í mið-evrópu illa úti í hildaleik annarrar heimstyrjaldar. Á þeim tíma var borgin þýsk og nefndist þá Breslau, en nafniu var breytt í Wrocalw eftir stríð. Um 90% íbúanna fyrir stríð voru þýskir en skömmu fyrir stríðslok voru nær allir íbúarnir fluttir burt þar sem fyrirséð var að harðir bardagar yrðu í borginni. Sem varð raunin. Fæstir íbúanna sneru aftur því að eftir stríðið varð borgin pólsk og var byggð Pólverjum sem fluttust þangað, flestir frá Úkraínu. Það hefur þó ekki verið neitt sældarlíf að hefja búsetu í Wroclaw eftir stríðið því borgin var í rúst. En hún var endurbyggð og verður ekki annað sagt en að það hafi tekist vel.

Fyrstu kynni mín af Wroclaw voru á brautarstöðinni við komuna þangað. Brautarstöðvar eru sjaldnast mjög sjarmerandi byggingar en þar er þessi sannarlega undantekning. Að innan er hún hlýleg og þægileg en þegar maður kemur út um aðalinnganginn og snýr sér við verður manni starsýnt á bygginguna sem líkist meira kastala en samgöngumiðstöð. Frá stöðinni er svo nokkurra míntútna labb í gamla miðbæinn. Hann er bæði fallegur og snyrtilegur. Wroclaw var fyrr á öldum mikil verslunarborg, með þremur stórum verslunartorgum (aðrar borgir létu sér jafnan 1-2 nægja).

Morguninn eftir komuna til borgarinnar fórum við í gönguferð með leiðsögn um miðborgina. Það hitti svo skemmtilega á að leiðsögumaðurinn, sem jafnframt er annar eigandi fyrirtækisins (Wroclaw City walk) sem skipuleggur þessar gönguferðir, bjó og starfaði á Íslandi í rúmt ár. Þessi gönguferð var í einu orði sagt frábær og óhætt að mæla með henni fyrir þá sem leggja leið sína til Wroclaw. Leiðsögumaðurinn var ákaflega fróður um borgina og fór með okkur á marga staði. Ef ég ætlaði að segja frá þeim öllum yrði þessi pistill það langur að enginn myndi lesa hann. Læt því nægja að nefna nokkur atriði.

Víða á gangstéttum og torgum Wroclaw má sjá málm-dverga sem ókunnir myndu klóra sér í kollinum yfir hefðu þeir ekki skýringu á tilvist þeirra. Dverganir voru tákn friðsamlegrar andspyrnuhreyfingar gegn stjórnvöldum í Póllandi á 9. áratugnum og gegn sovétskum áhrifum í landinu. Hreyfingin kom þessum dvergum fyrir víða en hver og einn hefur ákveðna sögulega merkingu.

Í gamla ráðhúsinu sem stendur við aðaltorgið, og er mjög sérstök bygging reist í blöndu af endureisnar- og gotneskum stílum, er m.a. að finna veitingastað sem leiðsögumaðurinn sagði vera þann elsta í Evrópu. Stofnaður árið 1275. Fyrir ofan dyrnar inn á staðinn gefur að líta tvær styttur, aðra af drukknum manni með ölkrús og hina af eiginkonu hans sem er illúðleg og býr sig undir að tyfta þann fulla með skó. Annars eru margar styttur og margvíslegar skreytingar utan á ráðhúsinu sem setja mikinn svip á það og gera að verkum að maður staldrar þar við nokkra stund til að virða það fyrir sér. Og ef mann skyldi langa að kaupa blóm þá eru þau seld allan sólarhringinn á torginu.

Wroclaw er háskólaborg þar sem 1 milljón manns býr en með stúdentunum er talið að íbúatalan sé um 1,4 milljónir. Hlutfall ungs fólks er því hátt og virtist næturlífið vera fjörugt í samhengi við það. Borgin er ein af menningarborgum Evrópu árið 2016 og verður ekki séð annað en að hún bera það heiti með sæmd. Eitt af því sem leiðsögumaðurinn nefndi að einkenndi borgina er umburðalyndi gagnvart mismunandi trúarbrögðum. Trúleysingjarnir frá Íslandi voru leiddir inn í kaþólska kirkju sem einkenndist eins og fleiri slíkar af miklum íburði. Það var þó ekki hann sem vakti athygli okkar heldur annað. Það var biðröðin í skriftastólinn sem náði nánast út að dyrum. Fólk á ýmsum aldri beið þar eftir því að játa syndir sína fyrir páskahátíðina. Hvort presturinn þurfi sálfræðiaðstoð eftir þessa törn skal ósagt látið. Leiðsögumaðurinn sagði að flestir gengju einungis til skrifta einu sinni á ári, þá annað hvort fyrir jól eða páska. Trúin væri hjá mörgum orðin meira hefð. Aðspurður sagði hann að ákveðinn kynslóðamunur birtist í þessum efnum í því að yngra fólkið hefði margt hvert snúið baki við kirkjunni, vegna spillingarmála og fégræðgi sumra þjóna hennar, en liti þó á sig sem kaþólskt eftir sem áður.

Það eru afbragðsgóðir veitingastaðir í miðborg Wroclaw og hótelið sem við gistum á var mjög sjarmerandi. Án þess að vera tilgerðarlegt var það bæði nútímalegt og bar líka yfirbragð 19. aldar. Herbergið með einkennandi dökkum viði og rúmi með himnasæng. Til að finna innganginn að hótelinu þurfti að ganga inn í port þar sem hótelið var á aðra hönd og veitingastaður og Vinotek á hina. Inn á þeim stað bað ég um vínseðil en fékk þau svör að hann væri enginn því tegundirnar væru um 500 og síbreytilegar.

Ég mæli hiklaust með ferð til Wroclaw en bendi þeim sem þangað vilja fara á að reikna sér meira en 2 daga. Það er alltof stuttur tími.

Heima og heiman

Eftir 10 vikur í Varsjá eru nú aðeins tæpar 3 vikur eftir af dvöl minni hér – í þetta sinn, ætti ég kannski að segja. Reynsla þess tíma sem er liðinn hefur á mun fleiri máta verið hvetjandi til þess að koma hingað aftur frekar en hitt. Hvort tími fleytir mér hingað síðar verður bara að koma í ljós. Það er helst ef stjórnmálaþróunin hér heldur áfram með þeim hætti sem verið hefur að landið verði ófýsilegur viðkomustaður.

Mér finnst viðeigandi eftir að hafa dvalist hér það lengi að telja megi vikurnar í tveggja stafa tölu að draga reynsluna saman í nokkra punkta sem hvorki eru þó tæmandi úttekt né mjög alvarleg.

Ég hef EKKI saknað íslenska vetursins. Og þó að veðurfarið sé trúlega ekki það sem dregur fólk hingað þá er ég farinn að skilja betur en áður af hverju sífellt fleiri Íslendingar kjósa að stytta veturinn með því að dvelja um lengri eða skemmri tíma í hagstæðara loftslagi. Að ganga á broddum flesta daga og vera sífellt með hugann við að detta ekki og fótbrota AFTUR er eitthvað sem ég vel verið án. Þó enn sé ekki komið vor í Varsjá hef ég samt góðar vonir um að það gangi eftir að árið 2016 verið ár tveggja vora hjá mér.

Ég er orðinn nokkuð fær í „gangbrautarsvigi“ eftir dvölina hér. Þetta er dálítið önnur íþróttagrein hér í borgarsamfélaginu. Heima snýst hún um að sneiða hjá snjósköflum, hálkublettum og viðutan ferðamönnum. Þessi áunna þekking mun þó tæplega nýtast mér mikið heima, helst ef ég bregð mér í miðbæ Reykjavíkur á menningarnótt eða þorláksmessu.

Ég á eftir að sakna almenningssamgangnanna hér þegar ég verð aftur kominn heim. Kerfið hér er þéttara og ferðir tíðari. Og þó farþegar sitji hér jafnan prúðir, alvörugefnir og þögulir eins og kirkjugestir – og ég hafi heyrt dæmi þess að skvöldrurum sé umbúðalítið sagt að halda kjafti – þá venst það betur en að verða vitni að heimiliserjum í háværum símtölum í strætóum í Reykjavík.

Það verður gott að „fá málið aftur“. Eins lærdómsríkt og það er að þurfa að gera sig skiljanlegan með látbragði og handapati, víða þar sem maður kemur, og að þjálfast betur í tungumáli sem er ekki móðurmál manns þá verður léttir að geta aftur tjáð sig á móðurmálinu, því tungumáli sem maður hugsar á. Að upplifa sig sem virkan þátttakanda í samfélagi er líka nokkuð annað en að vera áhorfandi og gestur í samfélagi þar sem flest er framandi – þó sú reynsla sé manni holl og víkki sjóndeildarhringinn.

Ég mun sakna verðlagsins hér þegar ég kem heim. Ég mun vafalítið eiga eftir að sitja heima yfir bjór með vinum og nöldra látlaust yfir íslensku verðlagi, þ.á m. því að fyrir verð eins bjórs heima hafi ég drukkið þrjá til fjóra í Varsjá. Að sama skapi mun ég ekki óska eftir því að tekjur mínar séu í samræmi við það sem gerist hér.

Ég hef haft ánægju og marga kviðfyllina af því að kynna mér matarvenjur heimamanna. Pylsur eru ekki bara SS-pylsur! Að panta mat af matseðli sem þú skilur ekki (skólamötuneytið) er líka áhugaverð reynsla þar sem spennan felst mest í því hvað fyrir mann verður borið. Þá kemur sér vel að matvendnin var ræktuð úr mér í æsku. En ég er farinn að sakna þess að elda sjálfur (svo ótrúlegt sem það kann að hljóma!) – hef ekki haft aðstöðu til þess síðan ég fór að heima. Já, og svo missti ég af þorranum. Mig langar í súrmat og hákarl! En kysi þó heldur pólskan vodka en íslenskt brennivín með því.

Er ég staðalmynd?

 

„I‘m the only gay in the village!“ Á þessari setningu klifar Dafydd Thomas, persóna í gamanþáttaröðinni Little Britain, þrátt fyrir að á vegi hans í þorpinu sem hann býr í verði ýmsir samkynhneigðir einstaklingar. Ég er ólíkur persónu Dafydds í flestu tilliti. En ég gæti þó e.t.v. reynt að halda því fram að ég sé eini Íslendingurinn í Varsjá, þ.e. ef ég byggi þá fullyrðingu á þeirri staðreynd að síðan ég kom hingað hefur enginn landa minna orðið á vegi mínum.

Persónan Dafydd gengst upp í því að vera staðalmynd (steríotýpa) á vissan hátt, en er jafnframt sannfærður um að hann sé mjög sérstakur og allt öðruvísi en þeir sem hann umgengst. Þó Dafydd sé vitanlega ýktur karakter tel ég að hann endurspegli útbreitt viðhorf. Þar á ég við þá hugsun að fólk líti á sig sem „venjulegan“ einstakling (hversu ójóst og teygjanlegt sem það hugtak kann að vera) en finnist það samt mjög sérstakt.

Ég hafði aldrei áður komið til Póllands þegar ég steig út úr flugvélinni á Chopin-flugvelli þann 11. janúar sl. Ég þekkti landið aðallega í gegnum fréttir og af kynnum af Pólverjum búsettum á Íslandi. Blessunarlega hafði ég haft kynni af það mörgum Pólverjum heima að ég var búinn að brjótast undan hinni klassísku staðalmynd Íslendingsins af pólska verkamanninum.  Þessum hrjúfa, lítið menntaða miðaldra karli í vinnugalla sem talar enga eða í besta falli bjagaða ensku. Það er raunar umhugsunarvert hvers auðvelt maður á með að falla í þá gryfju að draga víðtækar ályktanir af þjóðum og menningu þeirra út frá kynnum (eða jafnvel einungis frásögnum) af fáum eða kannski bara einum einstaklingi af því þjóðerni. Ég þekki slíka staðalmyndagerð og reikna með að aðrir geri það líka. Hún þarf þó ekki alltaf að vera neikvæð eða rasísk og flestir virðast gera sér grein fyrir að hún er ofureinföldun. En samt sem áður lifa slíkar staðalmyndir góðu lífi.

Ég velti þessu fyrir mér núna í ljósi þess að ég er eini Íslendingurinn sem margir þeirra sem ég hef rætt við hérna hafa hitt. Er ég þá orðin staðalmynd Íslendingsins í hugum þessa fólks? Sjálfur hrærist ég í frekar alþjóðlegu umhverfi hér í skólanum, þar sem ámóta algengt er að heyra talaða ensku og pólsku. Hér hef ég kynnst fólki frá mörgum löndum sem ég þekki aðeins í gegnum fréttir og hef aldrei hitt fólk frá áður. Fólk frá Eþíópíu, Nígeríu, Nepal, Kambódíu, Indlandi, Makedóníu, Úkraínu svo nokkur lönd séu nefnd. Allt mjög viðkunnalegt fólk og áhugavert. En væri rétt af mér að draga víðtækar ályktanir af þeim samfélögum sem þetta fólk er upprunið úr út frá kynnum af þeim og þeirri ímynd sem þau kynni skapa í mínum huga? Nei, auðvitað ekki. Það væri jafn rangt og ofureinfaldað og að gera pólska byggingarverkamanninn á Íslandi að staðalmynd fyrir Pólland og pólska menningu.

Annars þarf maður ekki að hitta eða ræða um fólk af öðru þjóðerni en manns eigin til að rekast á staðalmyndir. Það er nóg af þeim innanlands á Íslandi og mörgum þeirra er þar viðhaldið samviskusamlega – ekki síst þeim ýktustu og bjánalegustu. En það er efni í annan pistil. Hvað sem því líður þá fylgja staðalmyndirnar manni hvert sem maður fer. Líklega er það eitt af verkefnum lífsins að gefast ekki upp á að takast á við staðalmyndirnar og láta þær ekki ná völdum yfir hugsuninni. Láta ekki fallast í þá freistni að stimpla aðra og streitast gegn því að láta raða manni sjálfum eftir eiginleikum sem maður á e.t.v. lítið skylt við.

Túristi í Berlín

Ég flaug með Air Berlin til þýsku höfðuborgarinnar sl. fimmtudag. Til Berlínar hafði ég ekki komið áður. Hér eru nokkrir punktar um fjögurra daga upplifun ný-túristans af miðborg Berlínar (sumt ber ekki að taka of bókstaflega).

Flug til og fá Berlín (með Varsjá sem upphaf og endi) tekur ca. 1 klst hvora leið. Það er jafn langur flugtími og frá Egilsstöðum til Reykjavíkur. Flugmiðinn fram og til baka kostaði (ca. 18 þúsund ISK) álíka mikið og frekar ódýr flugmiði milli Egilsstaða og Reykjavík aðra leiðina. Farkosturinn var hins vegar einhver útgáfa af Dash8 „priki“ sem ég er lítt hrifinn af (hljóðin í þeim er ámóta og í gömlum traktor).

Fljótlega eftir komuna til Berlínar fór ég að kveinka mér undan verðlaginu. Hætti því þó bráðlega þegar ég áttaði mig á að verðlagið í Berlín er ekki ósvipað (líklega heldur lægra) og heima á Íslandi. Ég er bara orðinn svo vanur pólsku verðlagi sem er umtalsvert lægra.

Berlín er margslunginn kokteill af mismunandi menningu og sögu – frá ýmsum tímum og uppruna úr ýmsum áttum. Minnismerki á og við sömu bygginguna geta geymt vitnisburð um sósialrealismi og sósíalískan raunveruleiki (í þessu tilviki andstæðan). Byggingin sjálf er svo eitt fárra minnismerkja um nasískan byggingarstíl – slapp með óútskýranlegum hætti við eyðileggingu í annarri heimsstyrjöldinni – en hýsir í dag fjármálaráðuneyti Þýskalands.

Ég mæli eindregið með því að hefja dvöl í Berlín á gönguferð með leiðsögn um miðborgina. Sex tíma löng ferð tekur dálítið í fæturna er þess virði. Sérstaklega þegar leiðsögumaðurinn er þægilegur, lipur og alveg tilbúinn til að segja hlutina umbúðalaust. Það má líka taka styttri útgáfu af ferðinni. Í ferð sem þessari kemur maður á staði sem maður myndi annars ekki vita af, t.d. á veitingastað/danssal sem er lítið breyttur frá því á 3. áratugnum eða að þeim stað þar sem neðanjarðarbyrgi Hitlers var á sínum tíma en er í dag bílastæði við blokk. Einungis upplýsingaskilti segir til um hvað var þar áður.

Leifar af Berlínarmúrnum er sjaldséðar en lega hans er merkt víða í gangstéttir. Litlir málmskyldir í gangstéttunum geyma áletranir til minningar um fólk sem bjó við viðkomandi götu en dó eða var drepið á stríðsárunum. Milli Brandenburgarhliðsins og Reichtag er lítill garður til minningar um Rómafólk sem nasistar myrtu í seinni heimsstyrjöldinni. Þar skammt frá er líka minnismerki gyðinga. Mjög fyrirferðarmiklar raðir af steindröngum – áhrifamikið en kannski ekki fallegt að sama skapi.

Frásagnir leiðsögumannsins af höllunum í miðborginni byrjuðu eða enduðu yfirleitt á orðunum: „Var endurbyggð eftir aðra heimstyrjöld.“ Bretar og Bandaríkjamenn sprengdu enda nánast alla miðborg Berlínar í tætlur á þeim tíma. Prússakeisarar hétu allir Friðrik eða Vilhelm, nema þeir sem hétu Friðrik Vilhelm. Slík festa í nafngiftum væri líklega mannanafnanefnd að skapi. Checkpoint Charlie er merkingarlítil túristagildra þar sem þýskir stripparar leika bandaríska hermenn.

Austur-þýska menningararfleiðin er áberandi og mikið með hana gert. DDR-safnið er staður sem vert er að mæla með. Þó ekki væri til annars en að fara í sýndarrúnt um gömlu austur-Berlín í Trabant. Að labba um götu skammt frá Alexanderplatz, þar sem kuldalega rússablokkir eru til beggja handa er, áhugaverð reynsla. Ekki síst ef maður skýst inn á lifaðan bar við götuna, sem líklega átti sinn blómatíma á 9. áratugnum og hefur breyst lítið síðan. Annars konar stemmingu má fá í bjórkjallara þar skammt frá þar sem bæversk stemming ræður ríkjum og maður getur skolað súrkáli og pylsu niður með afbragðs góðum bjór við undirleik dúetts tveggja manna. Þeir léku glaðværa tónlista á trompet og einhvers konar hljóðgervil og minnti tónlist þeirra Íslendinginn helst á Geirmund Valtýsson.

Það sem stendur uppúr eftir skoðunarferðirnar er hversu mikið Berlínarbúar hafa unnið með fortíðina. Það birtist í alls kyns minnismerkjum, söfnum og sögustöðum um allan fjandann. Þar fá skammarlegu hliðar þýskrar sögu ríkulegan sess. Það er virðingarvert hvernig sögu þeirra sem þýsk yfirvöld hafa farið illa með er gert hátt undir höfði. Í þessu standa Þjóðverjar öðrum framar. Ég sé t.d. ekki fyrir mér að Bretar myndu leggja stórt svæði á besta stað í miðborg London í að minnast þeirra sem bresk stjórnvöld níddust á eða létu drepa í fjarlægum löndum á nýlendutímanum eða að áberandi minnismerki um fjöldamorð Bandaríkjahers í Hiroshima og Nagasaki yrði komið fyrir í miðborg Washington.

Þó að undirbúningur fyrir ferð sem þessa sé mikilvægur og gríðarlegur fengur af því að njóta leiðsagnar heimamanna – m.a. til að finna staði sem almennt eru utan við radar ferðamanna – þá er annað sem skiptir mestu. Það er að vera með góðan ferðafélaga. Minn hefði ekki getað verið betri. Þegar svo er getur fátt farið úrskeiðis.

 

Kennsla, spilling og ritstuldur

Þá er vormisserið hafið hér í skólanum (hefst um miðbik febrúar) og ég búinn að sitja nokkrar kennslustundir og málstofur. Var búinn að vera dálítið spenntur fyrir því að kennslan byrjaði þar sem ég hef ekki setið tíma með reglubundnum hætti síðan 2004.

Ég sá líka kennslustundirnar og málstofurnar sem tækifæri til að komast í frekari kynni við aðra nemendur, en flestir þeirra eru lítt á ferli í skólanum nema þeir séu að sækja kennslustundir, málstofur, fundi eða komi til að hitta kennara eða starfsmenn skólans. Slíkt er svo sem ekki óvenjulegt í rannsóknarnámi en helgast líka af því að námsaðstaðan hér er ekki alveg uppá það besta. Sameiginlega vinnurýmið sem ætlað er nemendum (og ég nota á hverjum degi – og þar er þessi pistill skrifaður) er frekar lítið og ekkert sérstaklega hentugt auk þess sem vandamál hafa verið með nettengingar í húsinu. Að vísu sleppur það til þar sem tölvustofa er fáeinum skrefum frá.

Kennslan hér er í frekar kunnugleg að formi. Kennarinn reifar efnið og leiðir umræður og nemendur kom með spurningar og innlegg. Fljótlega fer svo að ganga á með nemendafyrirlestrum. Námsmatið felst almennt í fyrirlestrum nemenda og ritgerðaskilum. Í þeim námskeiðum sem ég sit, og öðrum sem ég las um í kennsluskrá (bæði á MA og doktorsstigi), sá ég hvergi getið um skrifleg lokapróf. Ég fæ að sitja þrjú námskeið og eina vikulega málstofu meðan ég er hérna. Þar sem fyrirkomulag doktorsnáms míns við HÍ byggir á að vinna að rannsókn sem lýkur með skilum á lokaritgerð (í fyllingu tímans) ber mér ekki að taka nein námskeið. En mér fannst annað ótækt verandi kominn hingað. Ég sé námskeiðin sem bestu leiðina til að afla mér nýrrar þekkingar hér og kynnast skólanum, kennsluháttum og nemendum.

Annars hef ég verið að velta fyrir mér starfsumhverfi háskólafólks hér, bæði nemenda, kennara og fræðimanna. Fyrir skömmu sat ég fund þar sem megin umræðuefnið var hvernig væri að vera erlendur nemandi við þennan skóla. Þar koma margt áhugavert fram sem of langt mál er að rekja. Það sem situr mest í mér frá þessum fundi eru frásagnir nemenda frá Úkraínu af mennta- og fræðaumhverfinu þar í landi. Nemendur frá Úkraníu eru raunar nokkuð fjölmennir hér við skólann, eru næst fjölmennastir á eftir heimamönnum.

Samkvæmt frásögnum úkraínsku nemendanna á fyrrnefndum fundi er háskólaumhverfið og fræðaheimurinn í heimalandi þeirra ekki spennandi. Margskonar spilling í menntakerfinu er landlæg, s.s. mútugreiðslur til kennara. Kennslan er léleg og kennsluálag á doktorsnema víða það mikið að þeir hafa ekki tími til að sinna eigin rannsóknum – sem þeim er þó gert að standa skil á. Ritstuldur er annað stórt vandamál, bæði innan skóla (þ.á m. í lokaverkefnum) sem og í birtu efni í fræðitímaritum. Einn nemandinn sem sat fundinn sagði frá því að hann hefði rekist á borðleggjandi dæmi um ritstuld þar sem sama greinin birtist undir öðru höfundarnafni 8 árum eftir upphaflega birtingu hennar í öðru fræðiriti. Nemandinn sendi tölvupóst til ritstjóra beggja fræðiritanna sem birt höfðu greinina. Viðbrögðin voru engin. Umhverfi sem þetta er til þess fallið að fæla metnaðaðarfullt fólk frá, það leitar til annarra landa, bæði eftir námi og síðar starfi. Hættan er að diplómur frá úkraínskum háskólum verði álitnar lítils virði utan heimalandsins (og jafnvel innan þess líka) séu þessar lýsingar í samræmi við það sem almennt gerist.

Þessar frásagnir fengu aukið vægi í samtali mínu við pólskan doktorsnema skömmu eftir fundinn. Sá sagði mér frá því að þegar hann var í MA-námi (við annan skóla) hafi hann kynnst 28 ára gamalli konu frá Úkraínu, sem líka stundaði nám þar. Sú var með tvær MA-gráður og eina doktorsgráðu frá heimalandinu! Viðmælandi minn kvaðst hafa haldið þegar hann heyrði þetta þarna hlyti að vera um eitthvert „undrabarn“ að ræða. En eftir því sem hann kynntist „undrabarninu“ nánar fóru að renna á hann tvær grímur. Konan virtist ekki kunna skil á algengum hugtökum og kenningum og svör hennar um eigin rannsóknir voru bæði loðin og almenn.

Staðan virðist öll önnur og betri hér í Póllandi þó manni heyrist að margt megi bæta. Sum vandamálin sem lýst hefur verið fyrir mér eru kunnugleg, t.d. „gengisfelling“ náms með því að tengja greiðslur til menntastofnana við fjölda sem klárar námskeið og útskrifast sem svo elur af sér einkunnabólgu og að slegið er af kröfum. Einnig kom út úr spjalli við samnemanda hér um daginn að sá þekkti dæmi þess að foreldrar háskólanema settu sig í samband við kennara til að kvarta undan því að „barnið þeirra“ hefði ekki náð þeim námsárangri sem hann hafði vænst. Samsvarandi sögur þekki ég að heiman.

Ég skrifa vonandi meira um námið hér og menntakerfið þegar ég verð búinn að kynnast því betur.

Samfélag mótsagna

Eftir rúmlega mánuð í Varsjá er komið að því að skrifa smá pistil um það hvernig samfélagið hér og umhverfið í borginni blasir við mér. Það segir sig sjálft að þessi umfjöllun er ekki djúp eða fræðileg heldur mótuð af því sem fyrir augu mín hefur borið og það sem mér hefur verið sagt. Ég er alveg viðbúinn því að hafa misskilið eitt og annað og er meðvitaður um takmarkanir þess að skrifa um þetta efni eftir svo skamma dvöl hér. Þessi pistill er því fyrst og síðast vitnisburður um mína upplifun.

Það sem við mér blasir hér er samfélag sem hefur yfirbragð margvíslegra mótsagna. Ég ætla hér að ræða um fáein atriði.

Byrjum á fólkinu. Það fólk sem ég mæti á ferðum mínum um borgin er upp til hópa mjög vel til fara. Ég myndi hiklaust segja almennt betur til fara en maður á að venjast heima. Samt fylgir þessu ekki tilgerð. En maður fær á tilfinninguna að það sé ákveðinn metnaður fyrir því hér að vera vel til fara, hvort sem er á virkum degi eða um helgar. Án þess að ég hafi lagst í einhverja rannsókn á því þá sýnist mér að verðlag á fatnaði sé mun hagstæðarar hér en heima (ég er þá að tala um m.t.t. til kaupmáttar, ekki einungis verðs) og því auðveldara fyrir þá sem hafa þokkalegar ráðstöfunartekjur að endurnýja fataskápinn reglulega. Hafa ber í huga að það svæði sem ég þvælist mest um er miðborgin. Stíllinn kann að vera allt annar í úthverfunum.

En þrátt fyrir þetta þarf maður ekki að horfa lengi til að sjá annarskonar veruleika birtast í fasi fólks og klæðaburði. Ég hef ekki séð mikið af betlurum eða útigangsfólki, en þó ber það við. Nokkrum sinnum hef ég verið stoppaður af fólki sem greinilega er að biðja um pening, en talar ekki ensku og ég skil ekki pólsku. Eftirminnilegasta og erfiðasta “samtalið” sem ég hef átt þannig var við mann sem gaf sig að mér við gangbraut. Það vantaði framan á báða handleggi hans við olnboga.

Annað sem vakti athygli mína strax hér fyrstu dagana er hve algengt er að mæta fólki sem réttir að manni auglýsingabæklinga frá matsölustöðum. Flestir þeir sem sinna þessum störfum (sem ég reikna ekki með að sé sérlega vel launuð) bera það með sér að hafa ekki að öðru að hverfa. Atvinnuleysið hér er rúm 10% en hefur farið heldur minnkandi. Heimamaður sem ég ræddi við hér um daginn sagði mér að stemmingin væri víða þannig að fólk héldi fast í þau störf sem það hefði (jafnvel þó það væri e.t.v. ekki ánægt). Það væri hikandi við að taka áhættuna á að skipta um starf því ef samdráttur yrði á nýja staðnum þá væru þeir sem hefðu stystu starfsreynsluna jafnan þeir fyrstu sem misstu vinnuna.

Ég hef áður nefnt að bílaflotinn sem fyrir augun ber hérna. Hann er ekki óáþekkur því sem maður sér á götunum á Íslandi – bæði að gerð og aldri – og bílaumferðin allmikil. Nýting á almenningssamgöngum virðist þó mikil líka (allavega á þeim strætóleiðum sem ég nota mest) og ungt fólk er þar áberandi. Maður leyfir sér því að draga þá ályktun að bílaeign sé ekki eins almenn og heima – sem raunar er eðlilegt þegar borið er saman stórborgarsamfélag og dreifbýlissamfélagið á Íslandi (Reykjavík og nágrenni þar með talið).

Mestu mótsagnirnar sem blasa við mér hérna snúa að húsum. Í dag gekk ég um íbúðargötu þar sem öðru megin voru nýlega málaðar blokkir með nýjum gluggum og snyrtilegum görðum í kring. Handan götunnar voru mun eldri blokkir í augljósri niðurnýðslu, með veggjakroti og óræktarbletti fyrir framan þar sem illgresi virtist hafa náð að dafna vel síðasta sumar. Annarsstaðar sá ég hús sem stóð stakt, gluggalaust og að mestu þaklaust, greinilega mjög gamalt og löngu yfirgefið. Ég hef séð fleiri slík þó ekki samt eins hrörlegt og þetta. Þó það megi víða sjá glæsileg og nýtískuleg hús er samt mjög áberandi víða að það skortir á viðhald og lagfæringar. Þetta er ekki síst áberandi á sumum reisulegum steinhúsum í miðborginni sem virðast hafa verið byggð fljótlega eftir aðra heimsstyrjöldina.

En til að enda þetta á jákvæðum nótum þá langar mig að nefna almenningsgarðana. Þeir eru margir í Varsjá. Og þó að veturinn sé líklega ekki besti tíminn til að skoða þá er greinilegt að það er lagður metnaður í að halda þeim vel við þannig að þeir séu til prýði og ánægju. Það virðist líka falla í kramið því að um helgar er fjöldi fólks á ferli um garðana.

Kennslustund með truflun

Í dag mætti ég í fyrstu kennslustundina í skólanum. Fyrirkomulagið á kennslunni hér er almennt þannig að kennslustundir eru lengri og strjálli en maður á að venjast að heiman. Þær eru yfirleitt viku eða hálfsmánaðarlega og þá í 3-4 klst í senn. Þar sem verulegur hluti nemendanna eru í vinnu meðfram náminu (sumir í fullu starfi) þá fer stór hluti kennslunnar fram síðdegis á virkum dögum eða á laugardögum.

Þessi fyrsta kennslustund var mjög áhugaverð. Ég var búinn að vera dálítið spenntur fyrir henni því að ég hef ekki setið í tímum að staðaldri í tæp tólf ár, eða frá vorinu 2004 þegar ég kláraði síðasta masterskúrsinn heima. Þetta er námskeið í samtíma félagsfræðikenningum og er á MA-stigi en doktorsnemum er heimilt að sækja þennan kúrs.

Prófessorinn sem kennir námskeiðið er frekar spes týpa en mjög skemmtilegur. Það eru klárlega meðmæli með honum sem fagmanni að takast að halda góðri athygli nemenda í fjórar klukkustundir (með tveimur stuttum hléum) þegar námsefnið er nokkuð tyrfið. Raunar er náunginn frekar fyndinn á köflum. Í byrjun kennslustundarinnar veifaði hann framan í okkur bók sem hann kom með. Ég man ekki titilinn á bókinni en hann sagði þetta vera fræga bók um kenningar – mjög lélega, en fræga. Hann kvaðst hafa fengið bókina að láni hjá öðrum prófessor en gleymt að skila henni. Svo dó sá prófessor og því ástæðuaust að skila bókinni. Eftir þessa kynningu tók hann bókina (sem er nokkuð þykk) og stakk henni undir skjávarpann (til að stilla hann af á tjaldinu) með þeim orðum að þetta væri helsta gagnið sem mætti hafa af þessari bók.

Skömmu áður en kennslustundinni lauk (um kl. 16.30 að staðartíma) barst skyndilega háreisti utan af götu. Eitthvað sem hljómaði sem slagorð og öskur frá hópi fólks. Gluggarnir á kennslustofunni eru beint ofan við andyrið inn í skólann sem vísar að litlu torgi hér í miðborginni. Þegar þessi hávaði hafði varað í stutta stund heyrðist eitthvað sem hljómaði eins og tvær litlar spengingar (eins og frá frekar stórum kínverjum). Andartaki síðar heyrðist í sírenum lögreglubíla og hávaðinn hljóðnaði um leið. Þetta stóð ekki langa stund og þar sem ég hafði ekki útsýn út um gluggann sá ég ekki hvort þarna var um einhvern verulegan fjölda að ræða.

Kennslustundinni lauk skömmu síðar og þá upplýsti einn nemandinn okkur um það (eftir að hafa leitað upplýsinga í símanum sínum) að þarna hefði verið um að ræða mótmælaaðgerðir hóps sem berst gegn komu innflytjenda (og að því er mér skylst útlendingum í Póllandi almennt). Líklega var það því ekki tilviljun að hópurinn stoppaði einmitt þarna því að við þennan skóla eru margir útlendingar og í kennslustundinni í dag var fólk bæði frá Afríku og Asíu þó meirihlutinn séu Pólverjar.

Þegar ég kom út á götu (ca. 15 mínútum eftir að hávaðanum lauk) var allt með kyrrum kjörum fyrir utan. En á stuttri göngu frá skólanum að strætóskýlinu mætti ég 8-10 lögreglubílum í röð.

Ég læt hér fylgja slóð á frétt af þessum mótmælum. Hef ekki fundið fleiri en þessa.

http://www.thenews.pl/1/10/Artykul/239661,Antiimmigration-protests-in-Poland

 

Lífið er núna!

Ég er einrænn. Það eru engin tíðindi, hvorki fyrir sjálfan mig né þá sem mig þekkja. En þó ég sé einrænn og hafi ekki þörf fyrir að vera í næsta stöðugum samskiptum við fólk, frá því ég vakna á morgnana og þar til ég sofna á kvöldin, lít ég ekki svo á að ég sé félagsfælinn. Allavega ekki svo að það hái mér. Hef líklega bara ríka tilhneigingu til að haga hlutunum eftir eigin höfði. Svo er ég sjálfhverfur – eins og svo margir, þó fæstir gangist við því.

Það að vera einrænn hefur oft valdið mér vangaveltum og stundum hef ég verið með hálfgert samviskubit yfir að kjósa frekar einveru og rólegheit fremur en að hitta fólk eða mæta á viðburði, þegar það stendur til boða. Því er ekki að leyna að þetta tengist vafalaust því að ég var verulega þunglyndur í rúman áratug og þá lokaði ég mig oft af. Svo má ekki vanmeta vanann. Hann er eitt sterktasta aflið í okkur flestum og nær oft að halda manni í sömu skorðum. Vaninn ásamt þunglyndinu var líklega það sem hélt mér frá því að prófa skiptinám þegar ég var í HÍ 2000-2006. Ég hugsaði oft um það þá en ég hafði mig aldrei af stað.

Það hljómar kannski sem ákveðin mótsögn að einstaklingur eins og ég ákveði að stökkva til og flytja til framandi lands. Kann að vera. En mér finnst það ekki. Að vera einrænn og sjálfum mér nægur hefur þvert á móti reynst vera ótvíræður kostur þessar fyrstu vikur mínar hér í Varsjá. Ég þekkti engan hér áður en ég kom. Síðan kem ég hingað þegar misseri í skólanum er að ljúka og væntanlegir samnemendur eru á fullu við verkefnaskil og hafa eðlilega lítinn tíma til að spjalla við þann nýkomna. Stundirnar með sjálfum mér hafa því verið margar undanfarið – en lífið er gott.

Mesta átakið og hæsti þröskuldurinn á vegi þess að gera eitthvað nýtt er að taka ákvörðunina. Þetta er eiginlega mjög svipað því að velja á milli þess að eyða kvöldi fyrir framan sjónvarpið eða fara út og hitta fólk, fara á sýningu eða gera eitthvað sem manni ber ekki skylda til. Erfiðasti hlutinn á leiðinni er að hafa sig uppúr sófanum. Það sem á eftir kemur er yfirleitt minna mál og oftast bæði gefandi og áhugavert.

Fyrir rúmum þremur árum tók ég ákvörðun sem kom ýmsum í kringum mig á óvart. Ég ákvað að segja upp ágætu starfi og leggja út í óvissuna. Ákvörðunin að hætta í starfinu í Héraðsskjalasafninu var búin að vera að veltast í mér í töluverðan tíma áður en ég gerði upp hug minn. Og þó ég vissi að ég myndi sakna samstarfsfólksins og vinnustaðarins fannst mér þetta rétti tíminn til að breyta. Óvissan um hvernig ég myndi framfleyta mér var það sem truflaði mig mest. En ég lét vaða og sé ekki eftir því. Ég ákvað að elta eigin væntingar til lífsins, afla mér meiri menntunar og nýrrar reynslu í von um að skapa mér síðar líf og starfsvettvang sem falli að hæfileikum mínum og áhugasviði. Það er enn löng leið þangað. En ferðin hefur verið frábær til þessa.

En var það sem knúði mig til að taka þessa ákvörðun fyrir þremur árum? Það var einföld uppgötvun sem má draga saman í þrjú orð: Lífið er núna!
Þessi einfalda fullyrðing á við hvað sem maður er að gera og hvar sem maður er. Ég er óþolinmóður og hef þörf fyrir að takast á við ný verkefni. Sumir finna ró og ánægju í því að hafa líf sitt í föstum skorðum. Það á ekki við mig. Ég hugsaði: Hvers vegna að bíða með að lifa þangað til á morgun, eftir viku eða á næsta ári? Mér fannst ég vera að festast í vananum. Var í þægilegu umhverfi og í vinnu sem ég var farinn að kunna vel á. Mér fannst ég vera orðinn latur og syfjaður. En ég gat rifið mig upp. Ég gat breytt til. Þegar ég fór að hugsa málið sá ég að hindranirnar í veginum voru færri en ég hélt. Það eina sem raunverulega hamlaði mér var ég sjálfur. Löngunin til að leggja af stað og reyna að grípa tækifærin sigraði. Löngunin til að byggja upp reynslu og þekkingu, ögra sjálfum mér og reyna eitthvað nýtt.

Hvert þetta allt saman leiðir mig á endanum veit ég ekki. En ég er ánægður með lífið og það skiptir mestu.