Túristi í Berlín

Ég flaug með Air Berlin til þýsku höfðuborgarinnar sl. fimmtudag. Til Berlínar hafði ég ekki komið áður. Hér eru nokkrir punktar um fjögurra daga upplifun ný-túristans af miðborg Berlínar (sumt ber ekki að taka of bókstaflega).

Flug til og fá Berlín (með Varsjá sem upphaf og endi) tekur ca. 1 klst hvora leið. Það er jafn langur flugtími og frá Egilsstöðum til Reykjavíkur. Flugmiðinn fram og til baka kostaði (ca. 18 þúsund ISK) álíka mikið og frekar ódýr flugmiði milli Egilsstaða og Reykjavík aðra leiðina. Farkosturinn var hins vegar einhver útgáfa af Dash8 „priki“ sem ég er lítt hrifinn af (hljóðin í þeim er ámóta og í gömlum traktor).

Fljótlega eftir komuna til Berlínar fór ég að kveinka mér undan verðlaginu. Hætti því þó bráðlega þegar ég áttaði mig á að verðlagið í Berlín er ekki ósvipað (líklega heldur lægra) og heima á Íslandi. Ég er bara orðinn svo vanur pólsku verðlagi sem er umtalsvert lægra.

Berlín er margslunginn kokteill af mismunandi menningu og sögu – frá ýmsum tímum og uppruna úr ýmsum áttum. Minnismerki á og við sömu bygginguna geta geymt vitnisburð um sósialrealismi og sósíalískan raunveruleiki (í þessu tilviki andstæðan). Byggingin sjálf er svo eitt fárra minnismerkja um nasískan byggingarstíl – slapp með óútskýranlegum hætti við eyðileggingu í annarri heimsstyrjöldinni – en hýsir í dag fjármálaráðuneyti Þýskalands.

Ég mæli eindregið með því að hefja dvöl í Berlín á gönguferð með leiðsögn um miðborgina. Sex tíma löng ferð tekur dálítið í fæturna er þess virði. Sérstaklega þegar leiðsögumaðurinn er þægilegur, lipur og alveg tilbúinn til að segja hlutina umbúðalaust. Það má líka taka styttri útgáfu af ferðinni. Í ferð sem þessari kemur maður á staði sem maður myndi annars ekki vita af, t.d. á veitingastað/danssal sem er lítið breyttur frá því á 3. áratugnum eða að þeim stað þar sem neðanjarðarbyrgi Hitlers var á sínum tíma en er í dag bílastæði við blokk. Einungis upplýsingaskilti segir til um hvað var þar áður.

Leifar af Berlínarmúrnum er sjaldséðar en lega hans er merkt víða í gangstéttir. Litlir málmskyldir í gangstéttunum geyma áletranir til minningar um fólk sem bjó við viðkomandi götu en dó eða var drepið á stríðsárunum. Milli Brandenburgarhliðsins og Reichtag er lítill garður til minningar um Rómafólk sem nasistar myrtu í seinni heimsstyrjöldinni. Þar skammt frá er líka minnismerki gyðinga. Mjög fyrirferðarmiklar raðir af steindröngum – áhrifamikið en kannski ekki fallegt að sama skapi.

Frásagnir leiðsögumannsins af höllunum í miðborginni byrjuðu eða enduðu yfirleitt á orðunum: „Var endurbyggð eftir aðra heimstyrjöld.“ Bretar og Bandaríkjamenn sprengdu enda nánast alla miðborg Berlínar í tætlur á þeim tíma. Prússakeisarar hétu allir Friðrik eða Vilhelm, nema þeir sem hétu Friðrik Vilhelm. Slík festa í nafngiftum væri líklega mannanafnanefnd að skapi. Checkpoint Charlie er merkingarlítil túristagildra þar sem þýskir stripparar leika bandaríska hermenn.

Austur-þýska menningararfleiðin er áberandi og mikið með hana gert. DDR-safnið er staður sem vert er að mæla með. Þó ekki væri til annars en að fara í sýndarrúnt um gömlu austur-Berlín í Trabant. Að labba um götu skammt frá Alexanderplatz, þar sem kuldalega rússablokkir eru til beggja handa er, áhugaverð reynsla. Ekki síst ef maður skýst inn á lifaðan bar við götuna, sem líklega átti sinn blómatíma á 9. áratugnum og hefur breyst lítið síðan. Annars konar stemmingu má fá í bjórkjallara þar skammt frá þar sem bæversk stemming ræður ríkjum og maður getur skolað súrkáli og pylsu niður með afbragðs góðum bjór við undirleik dúetts tveggja manna. Þeir léku glaðværa tónlista á trompet og einhvers konar hljóðgervil og minnti tónlist þeirra Íslendinginn helst á Geirmund Valtýsson.

Það sem stendur uppúr eftir skoðunarferðirnar er hversu mikið Berlínarbúar hafa unnið með fortíðina. Það birtist í alls kyns minnismerkjum, söfnum og sögustöðum um allan fjandann. Þar fá skammarlegu hliðar þýskrar sögu ríkulegan sess. Það er virðingarvert hvernig sögu þeirra sem þýsk yfirvöld hafa farið illa með er gert hátt undir höfði. Í þessu standa Þjóðverjar öðrum framar. Ég sé t.d. ekki fyrir mér að Bretar myndu leggja stórt svæði á besta stað í miðborg London í að minnast þeirra sem bresk stjórnvöld níddust á eða létu drepa í fjarlægum löndum á nýlendutímanum eða að áberandi minnismerki um fjöldamorð Bandaríkjahers í Hiroshima og Nagasaki yrði komið fyrir í miðborg Washington.

Þó að undirbúningur fyrir ferð sem þessa sé mikilvægur og gríðarlegur fengur af því að njóta leiðsagnar heimamanna – m.a. til að finna staði sem almennt eru utan við radar ferðamanna – þá er annað sem skiptir mestu. Það er að vera með góðan ferðafélaga. Minn hefði ekki getað verið betri. Þegar svo er getur fátt farið úrskeiðis.

 

Kommentakerfi á endastöð

Kommentakerfi netmiðlanna eru í dag orðin að súrum brandara. Tilvist þeirra í samtímanum kristallst á margan hátt í hugtakinu „Virkur í athugasemdum“. Kómískum status sem vísar til þess að sá sem hann ber sé krónískur nöldrari og besservisser. Þessi hópur hefur orðið táknmynd þess alltof útbreidda viðhorfs að tjáningarfrelsi á netinu fylgi ekki ábyrgð. Þar megi segja það sem manni sýnist og ástæðulaust sé að skeyta um hvort orð manns særi, móðgi eða jafnvel ógni einhverjum sem þau les.

Þegar upplýsingabyltingin var að breiðast út ríkti almenn bjartsýni um að þær framfarir sem hún átti að fela í sér myndi breyta samskiptum fólks og gera fleira fólk virkt í opinberri tjáningu. Þeir bjartsýnustu bundu vonir við að upplýsingabyltingin myndi efla lýðræði, einkum með aukinni þátttöku almennings í tjáskiptum um samfélagsmál. Það myndi svo leið til betra samfélags fyrir alla.

Margt af því sem átti að fást með upplýsingbyltingunni varð að veruleika en þróunin hefur ekki gengið eftir að öllu leyti. Það er t.d. mjög umdeilanlegt hvort auðveldari leiðir til opinberra tjáskipta hafi leitt til framfara í lýðræðisþróun. Í dag er sannarlega einfaldara en var fyrir 20 árum (t.d. með notkun samfélagsmiðla) að virkja fólk til þátttöku í baráttu fyrir ýmsa málstaði. Það er yfirleitt jákvætt. Almenningur er á þann hátt orðin virkari þegar kemur að mótun samfélagsins og á auðveldara en áður með að þrýsta á valdhafa í einstökum málum. Meðferð á hælisleitendum á Íslandi er nærtækt dæmi um slíkt.

Einn fylgifiskur upplýsinga- og netbyltinganna var vöxtur fjölmiðlunar á Internetinu. Netmiðlar hafa með tímanum vaxið hefðbundnum prentmiðlum yfir höfuð og virðast ætla að ganga af þeim dauðum með tímanum. Það hefur þó tekið lengri tíma en spáð var. Langt er síðan allir stærri fjölmiðlar á Íslandi hófu netútgáfu samhliða öðrum útgáfuformum auk þess sem fram hafa komið fjölmiðlar sem eru eingöngu á netinu. Það kreppir bæði að prentmiðlum og ljósvakamiðlum. Ákvörðun stjórnenda breska fjölmiðilsins Independent að hætta prentútgáfu í komandi marsmánuði er skýrt dæmi um hvert stefnir. Líf netmiðla er þó enginn dans á rósum en í samfélögum þar sem upplýsingaflæðið er ört er forskot þeirra augljóst gagnvart eldri miðlunarformum. Tilkoma samfélagsmiðla hefur svo breytt fjölmiðlaumhverfinu enn frekar.

Ein af þeim nýjungunum sem fylgdi netmiðlunum voru kommentakerfin sem ætlað var að gera fjölmiðlana gagnvirkari og ýta undir lýðræðislega umræðu með því að gefa lesendum kost á að tjá skoðanir sínar á fréttum og umfjöllunum inni á netmiðlunum sjálfum. Til að lifa verða fjölmiðlar að fylgja straum tímans og það að vera með opin kommentakerfi var nýlunda sem fáir töldu sig geta sniðgengið á sínum tíma enda ríkti þá almenn bjartsýni á gagnsemina. Kommentakerfi voru því innleidd af flestum netmiðlum.

Sú tilraun að leyfa lesendum að kommenta á fjölmiðlaefni hefur nú staðið í allmörg ár. Niðurstaðan hennar er næsta afdráttarlaus. Þó einstaka sinnum sjáist í kommentakerfum áhugaverð viðhorf og pælingar þá hafa flestir þeir sem reynt hafa að nota þennan vettvang til að skapa uppbyggilega og gagnlega umræðu um dægurmál fyrir löngu gefist upp. Þeirra framlög hafa drukknað í hótfyndni, dómhörku, skætingi, ásökunum og illkvittni sem eru orðin helstu einkenni kommentakerfanna. Þegar verst lætur hafa þau orðið kjörlendi fyrir þöggun áreitni, einelti og hótanir.

En geta netmiðlarnir gert eitthvað í því að fólk sýni hvert öðru ekki kurteisi og umburðalyndi á netinu? Já, þeir geta hætt að leyfa þeim sem jafnan ætla öðrum allt hið versta, að nota netmiðlana sem stökkpall til að útbreiða skoðanir sínar. En mætti laga þetta með einhverskonar ritstýringu? Tæplega. Ritstjórnir fjarlægja oftast augljós hatursummæli en þau eru aðeins toppurinn (eða öllu heldur botninn) á vandanum. Aðdróttanir, illmælgi og rætni fá vængi á kommentakerfunum og þess háttar orðræða hefur smám saman yfirtekið þau. Stundum komandi frá fólki sem vegur úr launsátri í skjóli gervipersóna. Að reyna að ritstýra kommentakerfunum er því óvinnandi vegur og gengur raunar gegn hugmyndinni um þau sem opinn vettvang tjáskipta.

Netmiðlarnir sem enn hafa opin kommentakerfi ættu að loka þeim sem fyrst og hætta að vera dreifiveitur fyrir óhróður, fordóma og mannfyrirlitningu komandi frá fólki sem skortir dómgreind til að átta sig á merkingu þess sem það lætur út úr sér og gerir sér enga grein fyrir því að tjáningarfrelsi fylgir ábyrgð. Þau sem það vilja geta eftir sem áður ausið úr skálum fordóma sinna á eigin vefsíðum eða á samfélagsmiðlunum og gert það þar á eigin forsendum og á eigin ábyrgð.

Kommentakerfi netmiðla hafa fyrir löngu sannað gagnsleysi sitt sem tæki til uppbyggilegrar umræðu. Vonir um það hafa brugðist og snúist upp í andhverfu sína. Kommentakerfin voru áhugaverð tilraun. En hún mistókst og kerfin eiga nú að tilheyra fortíðinni.

 

Þessi grein birtist á Kjarnanum í gær. Millifyrirsagnir þar eru komnar frá ritstjórn (sjá: http://kjarninn.is/skodun/2016-02-21-kommentakerfi-endastod/).

Þaulseta og endurnýjun

Frétt gærdagsins í íslenskum fjölmiðlum var að Katrín Júlíusdóttir, þingkona, varaformaður Samfylkingarinnar og fyrrverandi ráðherra, ætlaði að draga sig í hlé frá stjórnmálum og snúa sér að öðru við lok þessa kjörtímabils. Þessi frétt kom á óvart, en viðbrögðin ekki að sama skapi.

Margir stigu fram og þökkuðu Katrínu samstarf og óskuðu henni velfarnaðar. Raunar hlýtur svona ákvörðun að vera skrítinn fyrir viðkomandi því í framhaldinu af því að ákvörðunin verður opinber taka að birtast skrif víðsvegar á vefnum sem eru í minningargreina-stíl, en fjalla þó um manneskju sem er í fullu fjöri. Það er þó ekki þessi tegund viðbragða sem mig langar að ræða heldur önnur sem einnig telst hefðbundin, þ.e. þau að verða hissa á því að einhver sem ekki er kominn á (eða er að nálgast) eftirlaunaaldur velji sjálfviljugur að hætta þingmennsku. Slík undrun sást í gær gagnvart ákvörðun Katrínar og hennar varð líka vart þegar Birkir Jón Jónsson ákvað að hætta á þingi árið 2013. Fleiri svipuð dæmi mætti nefna.

Ein af afgerandi breytingum á íslensku samfélagi undanfarna áratugi er að nú er það orðin almenn venja (en ekki undantekning) að fólk sem komið er yfir þrítugt skipti reglulega um starf. Þetta á við um fólk í ábyrgðastöðum jafnt sem aðra. Margir velja eftir t.d. 5-10 ár í starfi að breyta til og fara að vinna við annað. Vilja takast á við nýjar áskoranir og nýta reynslu sína á nýjum vettvangi. Það sem er undantekningin í dag er gamla venjan, þ.e. að fólk velji sér starf að lokinni skólagöngu og sinni því þar til það fer á eftirlaun eða fellur frá (mjög sérhæfð störf eru þó undanskilin). Það viðhorf að þetta sé normið virðist þó lifa góðu lífi gagnvart þingmennsku, öfugt við nánast öll önnur störf.

Ég tel að sú þróun að fólk skipti tíðar um störf en áður sé af hinu góða og það á að sjálfsögðu að eiga við um þingmennsku eins og önnur störf. Það er ekki þeirri mikilvægu stofnun sem Alþingi er til góðs að reglan sé að fólk leitist við að sitja þar sem fastast út starfsævina og aðrar leiðir séu ekki út en þær að falla frá, fara á eftirlaun eða tapa í kosningum. Ég er þó ekki að tala fyrir því að öllum þingmönnum sé skipt út á fjögurra ára fresti. Alþingi eins og aðrir vinnustaðir þarf á að halda hæfilegri blöndu af reynslu og endurnýjun. Of hröð endurnýjun býður heim hættunni á að þingmenn verði vegna reynsluleysis um of háðir stjórnsýslunni. Þannig gætu völd og áhrif kjörinna fulltrúa færst til embættismanna sem almenningur hefur enga aðkomu að því að velja hverjir eru.

Ef ég ætti að setja eitthvert viðmið myndi ég segja að 8-12 ára þingseta sé hæfileg. Eftir áratug í sama starfinu tel ég að veruleg hætta sé orðin á kulnun í starfi og að fólk verði værukært og taki e.t.v. að líta á starfið sem sína persónulegu eign. Fólk er auðvitað misjafnt og sumum tekst að halda sér ferskum í sama starfi lengur en í áratug, en þau tilvik eru fá. Í þessu samhengi er líka vert að minnast á forstöðumenn opinberra stofnana. Þó gildandi lög geri ráð fyrir að þeir séu skipaðir til 5 ára er raunin sú að gamla æviráðningin er enn við líði, því ef ekkert alvarlegt hefur komið upp á fá þeir nær undantekningalaust framlengingu um önnur 5 ár (og svo aftur og aftur). Að mínu mati ætti að leiða í lög að forstöðumenn opinberra stofnana gætu ekki setið lengur í sama embættinu en í 10 ár. Þannig mætti tryggja endurnýjun og fyrirbyggja að stofnanir líði fyrir að sitja uppi með kulnaða og heimaríka forstöðumenn.

Enginn er ómissandi.

Kennsla, spilling og ritstuldur

Þá er vormisserið hafið hér í skólanum (hefst um miðbik febrúar) og ég búinn að sitja nokkrar kennslustundir og málstofur. Var búinn að vera dálítið spenntur fyrir því að kennslan byrjaði þar sem ég hef ekki setið tíma með reglubundnum hætti síðan 2004.

Ég sá líka kennslustundirnar og málstofurnar sem tækifæri til að komast í frekari kynni við aðra nemendur, en flestir þeirra eru lítt á ferli í skólanum nema þeir séu að sækja kennslustundir, málstofur, fundi eða komi til að hitta kennara eða starfsmenn skólans. Slíkt er svo sem ekki óvenjulegt í rannsóknarnámi en helgast líka af því að námsaðstaðan hér er ekki alveg uppá það besta. Sameiginlega vinnurýmið sem ætlað er nemendum (og ég nota á hverjum degi – og þar er þessi pistill skrifaður) er frekar lítið og ekkert sérstaklega hentugt auk þess sem vandamál hafa verið með nettengingar í húsinu. Að vísu sleppur það til þar sem tölvustofa er fáeinum skrefum frá.

Kennslan hér er í frekar kunnugleg að formi. Kennarinn reifar efnið og leiðir umræður og nemendur kom með spurningar og innlegg. Fljótlega fer svo að ganga á með nemendafyrirlestrum. Námsmatið felst almennt í fyrirlestrum nemenda og ritgerðaskilum. Í þeim námskeiðum sem ég sit, og öðrum sem ég las um í kennsluskrá (bæði á MA og doktorsstigi), sá ég hvergi getið um skrifleg lokapróf. Ég fæ að sitja þrjú námskeið og eina vikulega málstofu meðan ég er hérna. Þar sem fyrirkomulag doktorsnáms míns við HÍ byggir á að vinna að rannsókn sem lýkur með skilum á lokaritgerð (í fyllingu tímans) ber mér ekki að taka nein námskeið. En mér fannst annað ótækt verandi kominn hingað. Ég sé námskeiðin sem bestu leiðina til að afla mér nýrrar þekkingar hér og kynnast skólanum, kennsluháttum og nemendum.

Annars hef ég verið að velta fyrir mér starfsumhverfi háskólafólks hér, bæði nemenda, kennara og fræðimanna. Fyrir skömmu sat ég fund þar sem megin umræðuefnið var hvernig væri að vera erlendur nemandi við þennan skóla. Þar koma margt áhugavert fram sem of langt mál er að rekja. Það sem situr mest í mér frá þessum fundi eru frásagnir nemenda frá Úkraínu af mennta- og fræðaumhverfinu þar í landi. Nemendur frá Úkraníu eru raunar nokkuð fjölmennir hér við skólann, eru næst fjölmennastir á eftir heimamönnum.

Samkvæmt frásögnum úkraínsku nemendanna á fyrrnefndum fundi er háskólaumhverfið og fræðaheimurinn í heimalandi þeirra ekki spennandi. Margskonar spilling í menntakerfinu er landlæg, s.s. mútugreiðslur til kennara. Kennslan er léleg og kennsluálag á doktorsnema víða það mikið að þeir hafa ekki tími til að sinna eigin rannsóknum – sem þeim er þó gert að standa skil á. Ritstuldur er annað stórt vandamál, bæði innan skóla (þ.á m. í lokaverkefnum) sem og í birtu efni í fræðitímaritum. Einn nemandinn sem sat fundinn sagði frá því að hann hefði rekist á borðleggjandi dæmi um ritstuld þar sem sama greinin birtist undir öðru höfundarnafni 8 árum eftir upphaflega birtingu hennar í öðru fræðiriti. Nemandinn sendi tölvupóst til ritstjóra beggja fræðiritanna sem birt höfðu greinina. Viðbrögðin voru engin. Umhverfi sem þetta er til þess fallið að fæla metnaðaðarfullt fólk frá, það leitar til annarra landa, bæði eftir námi og síðar starfi. Hættan er að diplómur frá úkraínskum háskólum verði álitnar lítils virði utan heimalandsins (og jafnvel innan þess líka) séu þessar lýsingar í samræmi við það sem almennt gerist.

Þessar frásagnir fengu aukið vægi í samtali mínu við pólskan doktorsnema skömmu eftir fundinn. Sá sagði mér frá því að þegar hann var í MA-námi (við annan skóla) hafi hann kynnst 28 ára gamalli konu frá Úkraínu, sem líka stundaði nám þar. Sú var með tvær MA-gráður og eina doktorsgráðu frá heimalandinu! Viðmælandi minn kvaðst hafa haldið þegar hann heyrði þetta þarna hlyti að vera um eitthvert „undrabarn“ að ræða. En eftir því sem hann kynntist „undrabarninu“ nánar fóru að renna á hann tvær grímur. Konan virtist ekki kunna skil á algengum hugtökum og kenningum og svör hennar um eigin rannsóknir voru bæði loðin og almenn.

Staðan virðist öll önnur og betri hér í Póllandi þó manni heyrist að margt megi bæta. Sum vandamálin sem lýst hefur verið fyrir mér eru kunnugleg, t.d. „gengisfelling“ náms með því að tengja greiðslur til menntastofnana við fjölda sem klárar námskeið og útskrifast sem svo elur af sér einkunnabólgu og að slegið er af kröfum. Einnig kom út úr spjalli við samnemanda hér um daginn að sá þekkti dæmi þess að foreldrar háskólanema settu sig í samband við kennara til að kvarta undan því að „barnið þeirra“ hefði ekki náð þeim námsárangri sem hann hafði vænst. Samsvarandi sögur þekki ég að heiman.

Ég skrifa vonandi meira um námið hér og menntakerfið þegar ég verð búinn að kynnast því betur.

Samfélag mótsagna

Eftir rúmlega mánuð í Varsjá er komið að því að skrifa smá pistil um það hvernig samfélagið hér og umhverfið í borginni blasir við mér. Það segir sig sjálft að þessi umfjöllun er ekki djúp eða fræðileg heldur mótuð af því sem fyrir augu mín hefur borið og það sem mér hefur verið sagt. Ég er alveg viðbúinn því að hafa misskilið eitt og annað og er meðvitaður um takmarkanir þess að skrifa um þetta efni eftir svo skamma dvöl hér. Þessi pistill er því fyrst og síðast vitnisburður um mína upplifun.

Það sem við mér blasir hér er samfélag sem hefur yfirbragð margvíslegra mótsagna. Ég ætla hér að ræða um fáein atriði.

Byrjum á fólkinu. Það fólk sem ég mæti á ferðum mínum um borgin er upp til hópa mjög vel til fara. Ég myndi hiklaust segja almennt betur til fara en maður á að venjast heima. Samt fylgir þessu ekki tilgerð. En maður fær á tilfinninguna að það sé ákveðinn metnaður fyrir því hér að vera vel til fara, hvort sem er á virkum degi eða um helgar. Án þess að ég hafi lagst í einhverja rannsókn á því þá sýnist mér að verðlag á fatnaði sé mun hagstæðarar hér en heima (ég er þá að tala um m.t.t. til kaupmáttar, ekki einungis verðs) og því auðveldara fyrir þá sem hafa þokkalegar ráðstöfunartekjur að endurnýja fataskápinn reglulega. Hafa ber í huga að það svæði sem ég þvælist mest um er miðborgin. Stíllinn kann að vera allt annar í úthverfunum.

En þrátt fyrir þetta þarf maður ekki að horfa lengi til að sjá annarskonar veruleika birtast í fasi fólks og klæðaburði. Ég hef ekki séð mikið af betlurum eða útigangsfólki, en þó ber það við. Nokkrum sinnum hef ég verið stoppaður af fólki sem greinilega er að biðja um pening, en talar ekki ensku og ég skil ekki pólsku. Eftirminnilegasta og erfiðasta “samtalið” sem ég hef átt þannig var við mann sem gaf sig að mér við gangbraut. Það vantaði framan á báða handleggi hans við olnboga.

Annað sem vakti athygli mína strax hér fyrstu dagana er hve algengt er að mæta fólki sem réttir að manni auglýsingabæklinga frá matsölustöðum. Flestir þeir sem sinna þessum störfum (sem ég reikna ekki með að sé sérlega vel launuð) bera það með sér að hafa ekki að öðru að hverfa. Atvinnuleysið hér er rúm 10% en hefur farið heldur minnkandi. Heimamaður sem ég ræddi við hér um daginn sagði mér að stemmingin væri víða þannig að fólk héldi fast í þau störf sem það hefði (jafnvel þó það væri e.t.v. ekki ánægt). Það væri hikandi við að taka áhættuna á að skipta um starf því ef samdráttur yrði á nýja staðnum þá væru þeir sem hefðu stystu starfsreynsluna jafnan þeir fyrstu sem misstu vinnuna.

Ég hef áður nefnt að bílaflotinn sem fyrir augun ber hérna. Hann er ekki óáþekkur því sem maður sér á götunum á Íslandi – bæði að gerð og aldri – og bílaumferðin allmikil. Nýting á almenningssamgöngum virðist þó mikil líka (allavega á þeim strætóleiðum sem ég nota mest) og ungt fólk er þar áberandi. Maður leyfir sér því að draga þá ályktun að bílaeign sé ekki eins almenn og heima – sem raunar er eðlilegt þegar borið er saman stórborgarsamfélag og dreifbýlissamfélagið á Íslandi (Reykjavík og nágrenni þar með talið).

Mestu mótsagnirnar sem blasa við mér hérna snúa að húsum. Í dag gekk ég um íbúðargötu þar sem öðru megin voru nýlega málaðar blokkir með nýjum gluggum og snyrtilegum görðum í kring. Handan götunnar voru mun eldri blokkir í augljósri niðurnýðslu, með veggjakroti og óræktarbletti fyrir framan þar sem illgresi virtist hafa náð að dafna vel síðasta sumar. Annarsstaðar sá ég hús sem stóð stakt, gluggalaust og að mestu þaklaust, greinilega mjög gamalt og löngu yfirgefið. Ég hef séð fleiri slík þó ekki samt eins hrörlegt og þetta. Þó það megi víða sjá glæsileg og nýtískuleg hús er samt mjög áberandi víða að það skortir á viðhald og lagfæringar. Þetta er ekki síst áberandi á sumum reisulegum steinhúsum í miðborginni sem virðast hafa verið byggð fljótlega eftir aðra heimsstyrjöldina.

En til að enda þetta á jákvæðum nótum þá langar mig að nefna almenningsgarðana. Þeir eru margir í Varsjá. Og þó að veturinn sé líklega ekki besti tíminn til að skoða þá er greinilegt að það er lagður metnaður í að halda þeim vel við þannig að þeir séu til prýði og ánægju. Það virðist líka falla í kramið því að um helgar er fjöldi fólks á ferli um garðana.

Lífstíll

Yfirskrift þessa pistils er hugtak sem sífellt skýtur upp kollinum í umræðum fólks á meðal, bæði í raunheimum og á netinu. Lífstíll, með allskyns viðskeytum og forskeytum, er orðin ein af mest tuggðu klisjunum í íslensku máli. Þetta hugtak tekur í einhverri mynd til nær alls í daglegu lífi fólks – mataræðis, klæðaburðar, áhugamála o.s.frv.

Ísland er neyslusamfélag og lífstílarnir sem mesta athygli fá eru jafnan mjög áberandi markaðsdrifnir. Lífstíll í þessu samhengi vísar til erkitýpu sem ætlast er til að fólk horfi til og leitist við að tileinka sér. Kaupi þennan drykk, þetta efni, þessa bók o.s.frv. Með það að markmiði að ná þessum eða hinum skilgreinda árangrinum.

Á síðasta ári komst í umræðuna lífstíll sem virðist í fljótu bragði vera á skjön við aðra sem brenndir eru marki neysluhyggju. Þetta er mínimaliskur lífstíll. Á Facebook má finna hóp sem nefnist „Áhugafólk um mínimaliskan lífsstíl“. Hann telur hátt í 10 þúsund manns. Ég skal viðurkenna að ég hef ekki gengið í þennan hóp en fylgst dálítið með umræðu um þetta hugtak. Óinnvígðir geta fræðst um  hvað felst í mínimaliskum lífsstíl á “útidyrum” umræddra Facebook-síðu. Þar segir:

„Mínimalískur lífsstíll er að hafa í lífi þínu aðeins það sem þú þarft og *nýtur* þess að hafa. Laus við óþarfa. Það eru engar reglur um hvað á að eiga mikið af hinu eða þessu. Mínimalískur lífsstíll snýst ekki um að eiga eins lítið og maður getur eða að eiga bara nauðsynjar, heldur að það sem þú átt gefi lífi þínu gildi. Þess vegna er mínimalískur lífsstíl jafn ólíkur á milli einstaklinga og við erum mörg.“

Af þessari fáorðu skilgreiningu að dæma getur maður í raun skilgreint sig sem mínimalista í lífsháttum alveg sama hvernig maður hagar lífi sínu. Þetta er bara spurning um að taka upp merkið. Ef mér finnst það brýn lífsnauðsyn að eiga 400 fm einbýlishús með viðeigandi bílskúr og keyra um á glænýjum upphækkuðum jeppa get ég vel haldið því fram að minn lífstíll sé mínimalískur. Skilgreiningin er svo opin að hún segir í raun ekkert. En það skiptir sennilega minnstu. Þetta tísku-skilgreining. Þær snúast um að laða að – ekki að vera rökréttar.

Ég er almennt áhugalítill um þá lífstíla sem haldið er að okkur enda flestir dellur sem detta jafnharðan úr tísku. En í þessu tilfelli sperrti ég eyrun. Er það sem ég var alinn upp við og hef tamið mér í mörg ár nú komið í tísku? Já og nei. Þetta er tíska og því þurfti að búa til nýtt hugtak sem virkar inn í orðræðuna. Já og skrifa bók um efnið. Það tilheyrir líka. Las einmitt í vikunni pistil á Stundinni eftir höfund bókar um efnið. Sá pistill sagði minna en lýsingin hér að ofan um hvað fælist í hugtakinu enda tilgangur pistilsins líklega einkum sá að koma því að (sem kemur fram neðanmáls) að höfundur hafi skrifað bók um efnið.

Það er raunar eðlilegt – og jafnvel mætti segja fyrirséð – að leitast sé við að koma mínimalisma í tísku. Með því að fara “all in” í þá tísku getur fólk losað sig við allt dótið sem það sankaði að sér þegar það tileinkað sér fyrri tískubólur í lífstíl. Og þegar þessi bóla er sprungin þá er nóg pláss á heimilinu fyrir þá næstu. Þegar þú verður búinn að kaupa bók um mínimaliskan lífstíl, ryðja til í stofunni og losa þig við allan óþarfa, þá er ekki annað en að gera en að bíða eftir næstu tísku. Kannski verður það maximal lífstíllinn? Inntak hans gæti verið eftirfarandi: “Kauptu eitthvað á hverjum degi og helst eins fyrirferðarmikið og hægt er. Hladdu sem mestu dóti inn í íbúðina þína alveg þangað til þú átt erfitt með að ganga um hana.” Þetta myndi smellpassa í beinu framhaldi af mínimalismanum og vera auk þess í anda neysluhyggjunnar.

Annars ætti ég kannski manna síst að vera að gera grín af þessu. Ég hef frá unglingsaldri haft takmarkaða löngun til að eignast hluti umfram það sem ég þarfnast. Ég bý í lítilli leiguíbúð og hef aldrei átt eigið húsnæði – langar það ekki. Ég keyri um að 16 ára gömlum bíl og dreymi ekki um að eignast jeppa, o.s.frv. Ég lít því á sjálfan mig sem nægjusaman mann en hef ekki haft hugmyndaflug í að búa til tísku-hugtak yfir það.

En í neyslusamfélagi er nægjusemi illa séð. Hún hefur þótt púkaleg og gamaldags svo ekki sé talað um hvað hún er vond fyrir hagvöxtinn. Það var því líklega nokkuð sjálfgefið að ef þú ætlar að “selja” fólki nægjusemi þá verður að kalla hana öðru nafni. Fara á smá hugtaka-flakk, sem er frekar auðvelt hjá þjóð sem er vanist hefur kennitöluflakki.

 

Togstreita og aðgreining

Við sem fylgjumst með almennri umræðu og notum samfélagsmiðla verðum reglulega vör við deilur. Yfirleitt snúast deilurnar um dægurmál, oft um “málið” sem allt snýst um í umræðunni á Íslandi þann daginn og er jafnan gleymt tveimur dögum síðar. Svona deilur (ég á dálítið erfitt með að nota hugtakið rökræður í þessu sambandi) þróast gjarnan í nokkurskonar liðsíþrótt sem má draga saman í reiðilegu spurninguna: “Af hverju eru ekki allir eins og “við”?”

Nú er ég búinn að alhæfa hressilega. Það er líklega vegna þess að ég er eins og aðrir smitaður af þessari umræðuhefð – hef alltof oft staðið mig að því að taka þátt í henni, eins yfirborðskennd og hún jafnan er. Sem betur fer leiðast ekki öll opinber skoðanaskipti út í deilur, en sá samskiptamáti er þó alltof algengur og virðist mörgum eðlilægur. En þó ég hafi verið þátttakandi í slíku (reyni þó almennt að forðast það) finnst mér þessi umræðuhefð (sem líklega væri réttara að kalla þrætuhefð) samt ekki í lagi. Hún þarf að breytast. Verða yfirvegaðri og lausari við upphrópanir, tortryggni og dilkadrátt sem lítið gerir annað en að festa í sessi aðgreiningu, skilningsleysi og jafnvel heift milli fólks sem skilur ekki og (það sem verra er) reynir ekki að skilja hvert annað.

Okkur virðist mjög lagið að skapa og viðhalda togstreitu um hin aðskiljanlegustu mál og draga okkur í aðgreinda hópa. Nálgast umræðuna eins og kappleik þar sem það eina sem gildir er að hafa einhvers konar (ímyndaðan) sigur á (oft ímynduðum) mótherja. Ekki ástunda rökræður heldur frekar að reyna að þagga niður í mótaðila. Taka ekki tillit til mótraka heldur halda fram málstað með sem einstrengingslegustum hætti og af sem mestri þrjósku og hörku – þannig að jafnvel þróist yfir í áreitni og dónaskap. Í slíku samhengi skipum við okkur í liðin: landsbyggðarfólk gegn höfuðborgarbúum, listunnendur gegn íþróttaaðdáendum, menntamenn gegn bændum, heimamenn gegn ferðamönnum o.s.frv. Alltaf “við” gegn “hinum” sem eru “eitthvað annað”.

Þegar ég lít á eigin uppruna og stöðu kemur eftirfarandi í ljós. Ég er uppalinn á landsbyggðinni og hef alið mestann minn aldur þar, en er nú búsettur á höfuðborgarsvæðinu. Ég hef áhuga á listum og menningu en fylgist líka með íþróttum og stunda þær að einhverju marki. Ég er menntamaður og háskólanemi en hef jafnframt sterkar tengingar við búskap æskuheimilis míns og er vanur líkamlegri vinnu. Á Íslandi er ég heimamaður en hér í Varsjá er ég ferðamaður (skiptinemi). Svona gæti ég líklega haldið lengra áfram. Það er því ekki að undra að maður verði dapur þegar reglubundnir hanaslagir milli fyrrnefndra hópa hefjast með öllum sínum sleggjudómum og skilningsleysi. Það þarf ekki annað en að nefna Reykjavíkurflugvöll og listamannalaun til að öllum sé ljóst hvað ég á við.

Þrátt fyrir allt hef ég jafnan verið frekar tregur við að merkja mig hópum. Það er reyndar slæmt þar sem ég tel að okkur sé almennt betur borgið með því að vinna saman frekar en að hver sé sjálfum sér næstur. En það sem hefur fælt mig frá eru stimplarnir sem sífellt er veifað yfir fólki og eigna manni viðhorf og kenndir – sem oft passa ekki við sannfæringu manns, en aðrir hafa skilgreint sem óhjákvæmilegan fylgifisk þess að tilheyra viðkomandi hóp. Annað er svo það að stilla manni upp með að vera sjálfkrafa í andstöðu við annan hóp ef maður tilheyri einum. Ég er ekki að tala hér fyrir afstöðuleysi heldur einungis að benda á þann niðurdrepandi plagsið þrætuhefðarinnar að þurfa sífellt að skilgreina aðra og skapa óþarfa aðgreiningu.

Það má ekki aðeins finna fordóma og dómhörku í máli þeirra sem skilgreina sig utan einhvers hóps um þá sem þeir telja að tilheyri honum. Þetta á líka við innan hópa (formlegra og óformlegra) þar sem einstaklingar leitast við að skilgreina “viðhorf hópsins” fyrir sjálfum sér og öðrum. Slíkt fellur oft í far tvíhyggju, þ.e. því að stilla þeim sem eru á áþekkri skoðun upp með tvo valkosti, annað hvort „mína“ afstöðu eða „hina“ (sem skilgreind er þannig að ómögulegt er að styðja hana). Aðrar leiðir eru ekki í boði. Annað hvort ertu með “okkur” eins og “við” skilgreinum afstöðuna. Ef ekki: þá ertu móti okkur. Önnur afstaða er illa séð og er í raun afneitað, þ.m.t. þeirri að sætta sig ekki við svo svarthvítar skilgreiningar og láta ekki aðra setja sér mörk um hvaða skoðanir maður eigi að hafa og á hvaða forsendum.

Hæðni er vinsælt vopn í orðaskilmingum og mikið notað innan hópa til að gera þá sem utan standa hlægilega og tortryggilega. Bak við hæðnin glittir oft í óþol fyrir þeim sem eru á öðru máli. Hún getur því virkað sem þöggunarmeðal. Hæðnin er enda eitthvað sem oft er beitt til að leggja fólk í einelti. Fáir treysta sér til að taka undir viðhorf einhvers sem “skoðanasystkin” hefur gert hlægileg og kjósa því heldur að þegja. Annað þekkt mælskubragð, sem miðar að því að þagga niður í öðrum og er fyrir löng orðin klassískt í þrætuhefðinni, er að gera öðrum upp (neikvæðar) tilfinningar og láta að því liggja að skoðun byggist á þeim. “Við hvað eruð þið hrædd?” er í þessu samhengi ekki spurning heldur staðhæfing sem miðast við að láta aðra finna til skammar fyrir skoðanir sínar. Láta mótaðilann (og aðra tilheyrendum) fá á tilfinninguna að forsenda skoðana hans sé hlægileg íhaldssemi. Þetta bragð leitast við að láta þann sem er beittur því falla í það far að þræta fyrir að vera ekki óttasleginn eða hengja haus og gefast upp. Það er enda oft notað af þeim sem tala fyrir einhverjum breytingum en eru orðnir rökþrota og grípa þá til þess ráðs að reyna að þagga niður í mótaðilanum og “vinna þannig sigur”.

Íslenska þrætuhefðin leiðir sjaldan til vitrænnar eða skynsamlegrar niðurstöðu. Hún afhjúpar hins vegar reiði, dómhörku, óþol og jafnvel ákveðið form ofbeldishegðunar (þöggun). Hvort sem umræðuhefðin þróast til betri vegar er erfitt að spá um (því miður bendir fátt til þess), en það er allavega gott að halda því á lofti að ríkjandi hefð er meingölluð og að henni má breyta.

 

Örlítið um isma og forsendur

Í strætóferð morgunsins var ég að velta fyrir mér námskeiðum sem ég mun taka hérna við skólann, en þau virka bæði áhugaverð og ögrandi ef marka má kennsluáætlanirnar. Þessar vangaveltur leiddu svo hugann að námskeiðum sem ég tók við HÍ á sínum tíma þegar ég var þar í BA og MA námi í sagnfræði.

Innan þessarar samgöngu-tengdu-hugleiðinga-minna skaut upp í kollinn minningu af námskeiði sem ég tók þegar ég var um það bil að klára BA námið fyrir rúmum áratug síðan. Meginefni þess námskeiðs (sem snerist þó reyndar líka um fleira) var innihald hugtaks sem hefur verið fyrirferðarmikið í almennri umræðu heima undanfarin ár. Hugtakið femínismi. Áður en ég skráði mig í þetta námskeið hafði ég ójósa hugmynd um hvað fælist í femínisma og þó þekkingin yxi í námskeiðinu leiddi það ekki til þess að gengi þaðan út og “vissi þetta alltsaman”. Hef raunar aldrei litið á mig sem neinn sérfræðing í þessum efnum, þó ég viti umtalsvert meira nú en ég gerði þá.

Ef ég man rétt þá voru það nokkrar skólasystur mínar (sem einnig sátu námskeiðið) sem hvöttum mig til að taka þetta námskeið. Fyrir það er ég þakklátur því þegar upp var staðið reyndist þetta með betri námskeiðum sem ég tók við HÍ. Áhugi nemendanna á efninu var meiri en almennt gerðist og umræðurnar fjörugri að sama skapi. Sjálfur hélt ég mig yfirleitt til hlés en fylgdist með. Kynjahlutföllin voru dálítið fyrirsjáanleg ca. 80/20. Við vorum þrír strákar sem hófum námskeiðið, hver á sínum forsendum. Ég var þarna aðallega fyrir sakir almennrar forvitni og áðurnefndar hvatningar. Hafði litist hvað best á þetta valnámskeið af þeim sem voru í boði. Hinir tveir höfðu sínar ástæður. Annar var kominn þarna til að sannfæra sjálfan sig um að efni námskeiðsins væri tómt rugl. Hinn var jákvæðari gagnvart efninu en lét af því að ástæðan fyrir valinu væri hans eigin leti og því hefði ráðið miklu að kennslustundirnar voru jafnan eftir hádegi. Ég held ég muni rétt að ég hafi verið sá eini af okkur þremur sem lauk námskeiðinu. Brottfallið kvennamegin var hins vegar lítið eða ekki neitt.

Það sem eftir stendur hjá mér þegar ég hugsa um þetta námskeið er að það átti stóran þátt í að opna minn huga fyrir inntaki femínisma og færa mig nær skilningi á honum. Sá skilningur er ekki eins einfaldur og oft mætti ætla af almennri umræðu þar sem fólk dregur sjálft sig og aðra í fylkingar og einfaldar femínisma niður í að vera næsta marklaust slagorð. Þessi hugmyndastefna á sér margar hliðar og þó markmiðin séu nokkuð þau sömu hjá þeim sem kenna sig við þennan tiltekna -isma þá var einn helsti lærdómur minn af námskeiðinu (og reynslunni síðar) að það er fjarri því einhlýtt hvaða leiðir fólk vill fara að markmiðunum.

Í umræðu um femínisma (líkt og um aðrar pólitískar hugmyndastefnur) verður að gera greinarmun á málstað og einstaklingum. Engin ein persóna er hugmyndastefna hold klædd, til þess er þær of margslungnar og víðfeðmar. Því er firra að fella dóma yfir hugmyndastefnu vegna túlkunar eins eða fárra einstaklinga á henni. Slíkir dómar segja jafnan meira um þá sem fella þá fremur en um efnið sem er til umræðu.

Einstaklingurinn er aldrei stærri en málstaðurinn.

Kennslustund með truflun

Í dag mætti ég í fyrstu kennslustundina í skólanum. Fyrirkomulagið á kennslunni hér er almennt þannig að kennslustundir eru lengri og strjálli en maður á að venjast að heiman. Þær eru yfirleitt viku eða hálfsmánaðarlega og þá í 3-4 klst í senn. Þar sem verulegur hluti nemendanna eru í vinnu meðfram náminu (sumir í fullu starfi) þá fer stór hluti kennslunnar fram síðdegis á virkum dögum eða á laugardögum.

Þessi fyrsta kennslustund var mjög áhugaverð. Ég var búinn að vera dálítið spenntur fyrir henni því að ég hef ekki setið í tímum að staðaldri í tæp tólf ár, eða frá vorinu 2004 þegar ég kláraði síðasta masterskúrsinn heima. Þetta er námskeið í samtíma félagsfræðikenningum og er á MA-stigi en doktorsnemum er heimilt að sækja þennan kúrs.

Prófessorinn sem kennir námskeiðið er frekar spes týpa en mjög skemmtilegur. Það eru klárlega meðmæli með honum sem fagmanni að takast að halda góðri athygli nemenda í fjórar klukkustundir (með tveimur stuttum hléum) þegar námsefnið er nokkuð tyrfið. Raunar er náunginn frekar fyndinn á köflum. Í byrjun kennslustundarinnar veifaði hann framan í okkur bók sem hann kom með. Ég man ekki titilinn á bókinni en hann sagði þetta vera fræga bók um kenningar – mjög lélega, en fræga. Hann kvaðst hafa fengið bókina að láni hjá öðrum prófessor en gleymt að skila henni. Svo dó sá prófessor og því ástæðuaust að skila bókinni. Eftir þessa kynningu tók hann bókina (sem er nokkuð þykk) og stakk henni undir skjávarpann (til að stilla hann af á tjaldinu) með þeim orðum að þetta væri helsta gagnið sem mætti hafa af þessari bók.

Skömmu áður en kennslustundinni lauk (um kl. 16.30 að staðartíma) barst skyndilega háreisti utan af götu. Eitthvað sem hljómaði sem slagorð og öskur frá hópi fólks. Gluggarnir á kennslustofunni eru beint ofan við andyrið inn í skólann sem vísar að litlu torgi hér í miðborginni. Þegar þessi hávaði hafði varað í stutta stund heyrðist eitthvað sem hljómaði eins og tvær litlar spengingar (eins og frá frekar stórum kínverjum). Andartaki síðar heyrðist í sírenum lögreglubíla og hávaðinn hljóðnaði um leið. Þetta stóð ekki langa stund og þar sem ég hafði ekki útsýn út um gluggann sá ég ekki hvort þarna var um einhvern verulegan fjölda að ræða.

Kennslustundinni lauk skömmu síðar og þá upplýsti einn nemandinn okkur um það (eftir að hafa leitað upplýsinga í símanum sínum) að þarna hefði verið um að ræða mótmælaaðgerðir hóps sem berst gegn komu innflytjenda (og að því er mér skylst útlendingum í Póllandi almennt). Líklega var það því ekki tilviljun að hópurinn stoppaði einmitt þarna því að við þennan skóla eru margir útlendingar og í kennslustundinni í dag var fólk bæði frá Afríku og Asíu þó meirihlutinn séu Pólverjar.

Þegar ég kom út á götu (ca. 15 mínútum eftir að hávaðanum lauk) var allt með kyrrum kjörum fyrir utan. En á stuttri göngu frá skólanum að strætóskýlinu mætti ég 8-10 lögreglubílum í röð.

Ég læt hér fylgja slóð á frétt af þessum mótmælum. Hef ekki fundið fleiri en þessa.

http://www.thenews.pl/1/10/Artykul/239661,Antiimmigration-protests-in-Poland

 

Lífið er núna!

Ég er einrænn. Það eru engin tíðindi, hvorki fyrir sjálfan mig né þá sem mig þekkja. En þó ég sé einrænn og hafi ekki þörf fyrir að vera í næsta stöðugum samskiptum við fólk, frá því ég vakna á morgnana og þar til ég sofna á kvöldin, lít ég ekki svo á að ég sé félagsfælinn. Allavega ekki svo að það hái mér. Hef líklega bara ríka tilhneigingu til að haga hlutunum eftir eigin höfði. Svo er ég sjálfhverfur – eins og svo margir, þó fæstir gangist við því.

Það að vera einrænn hefur oft valdið mér vangaveltum og stundum hef ég verið með hálfgert samviskubit yfir að kjósa frekar einveru og rólegheit fremur en að hitta fólk eða mæta á viðburði, þegar það stendur til boða. Því er ekki að leyna að þetta tengist vafalaust því að ég var verulega þunglyndur í rúman áratug og þá lokaði ég mig oft af. Svo má ekki vanmeta vanann. Hann er eitt sterktasta aflið í okkur flestum og nær oft að halda manni í sömu skorðum. Vaninn ásamt þunglyndinu var líklega það sem hélt mér frá því að prófa skiptinám þegar ég var í HÍ 2000-2006. Ég hugsaði oft um það þá en ég hafði mig aldrei af stað.

Það hljómar kannski sem ákveðin mótsögn að einstaklingur eins og ég ákveði að stökkva til og flytja til framandi lands. Kann að vera. En mér finnst það ekki. Að vera einrænn og sjálfum mér nægur hefur þvert á móti reynst vera ótvíræður kostur þessar fyrstu vikur mínar hér í Varsjá. Ég þekkti engan hér áður en ég kom. Síðan kem ég hingað þegar misseri í skólanum er að ljúka og væntanlegir samnemendur eru á fullu við verkefnaskil og hafa eðlilega lítinn tíma til að spjalla við þann nýkomna. Stundirnar með sjálfum mér hafa því verið margar undanfarið – en lífið er gott.

Mesta átakið og hæsti þröskuldurinn á vegi þess að gera eitthvað nýtt er að taka ákvörðunina. Þetta er eiginlega mjög svipað því að velja á milli þess að eyða kvöldi fyrir framan sjónvarpið eða fara út og hitta fólk, fara á sýningu eða gera eitthvað sem manni ber ekki skylda til. Erfiðasti hlutinn á leiðinni er að hafa sig uppúr sófanum. Það sem á eftir kemur er yfirleitt minna mál og oftast bæði gefandi og áhugavert.

Fyrir rúmum þremur árum tók ég ákvörðun sem kom ýmsum í kringum mig á óvart. Ég ákvað að segja upp ágætu starfi og leggja út í óvissuna. Ákvörðunin að hætta í starfinu í Héraðsskjalasafninu var búin að vera að veltast í mér í töluverðan tíma áður en ég gerði upp hug minn. Og þó ég vissi að ég myndi sakna samstarfsfólksins og vinnustaðarins fannst mér þetta rétti tíminn til að breyta. Óvissan um hvernig ég myndi framfleyta mér var það sem truflaði mig mest. En ég lét vaða og sé ekki eftir því. Ég ákvað að elta eigin væntingar til lífsins, afla mér meiri menntunar og nýrrar reynslu í von um að skapa mér síðar líf og starfsvettvang sem falli að hæfileikum mínum og áhugasviði. Það er enn löng leið þangað. En ferðin hefur verið frábær til þessa.

En var það sem knúði mig til að taka þessa ákvörðun fyrir þremur árum? Það var einföld uppgötvun sem má draga saman í þrjú orð: Lífið er núna!
Þessi einfalda fullyrðing á við hvað sem maður er að gera og hvar sem maður er. Ég er óþolinmóður og hef þörf fyrir að takast á við ný verkefni. Sumir finna ró og ánægju í því að hafa líf sitt í föstum skorðum. Það á ekki við mig. Ég hugsaði: Hvers vegna að bíða með að lifa þangað til á morgun, eftir viku eða á næsta ári? Mér fannst ég vera að festast í vananum. Var í þægilegu umhverfi og í vinnu sem ég var farinn að kunna vel á. Mér fannst ég vera orðinn latur og syfjaður. En ég gat rifið mig upp. Ég gat breytt til. Þegar ég fór að hugsa málið sá ég að hindranirnar í veginum voru færri en ég hélt. Það eina sem raunverulega hamlaði mér var ég sjálfur. Löngunin til að leggja af stað og reyna að grípa tækifærin sigraði. Löngunin til að byggja upp reynslu og þekkingu, ögra sjálfum mér og reyna eitthvað nýtt.

Hvert þetta allt saman leiðir mig á endanum veit ég ekki. En ég er ánægður með lífið og það skiptir mestu.