Helgarröltið

Sá staður hér í Varsjá sem heimamenn eru mjög samtaka um að benda manni á að skoða er gamli bærinn. Það staðfestist hér með að sú ábending er góð enda mjög gaman að labba þarna um og virða fyrir sér húsin og mannlífið.

Gamli bærinn í Varsjá var upprunalega reistur á 13. öld og var girtur með borgarmúrum. Hann ásamt konungshöllinni, sem stendur við Kastalatorgið í jaðri gamla bæjarins, eru á lista UNESCO yfir friðaðar menningarminjar. Fyrir leikmann er þó erfitt að átta sig á hvað eru minjar og hvað endurgerðir í gamla bænum. Hann hefur verið endurnýjaður margsinnis, m.a. bæði fyrir og eftir aðra heimstyrjöldina þegar þýski herinn eyðilagði gamla bæinn með skipulegum hætti.

Þegar ráðist var í uppbygginguna eftir stríðið var leitast við að hafa endurgerðina eins “upprunalega” og hægt var, m.a. með því að nota það efni sem nýtilegt var úr rústunum sem þýski herinn skildi eftir sig. Hvort endurgerðin er vel heppnuð út frá byggingafræði skal ósagt látið (enda hef ég takmarkaða þekkigu á því) en hún er allavega mjög sjarmerandi. Í miðjum gamla bænum er markaðstorgið sem á sér jafn langa sögu og bærinn sjálfur. Það var fram á 18. öld miðpunktur allrar borgarinnar.

Þó gamli bærinn sé ekki stór að flatarmáli þá er auðvelt að eyða tímanum þar. Virða fyrir sér húsin og virkismúrana og njóta útsýnisins yfir Vistulu, lengsta og vatnsmesta fljót Póllands, sem rennur gegnum landið frá landamærunum við Tékkland. Ég er nú þegar búinn að fara tvisvar um gamla bæinn og á örugglega eftir að fara nokkrar ferðir til viðbótar.

Myndirnar sem ég birti á facebook síðunni minni í gær eru frá ferð minni um gamla bæinn um nýliðna helgi.

Lýðræði í hættu?

Fyrir þremur dögum birti ég pistil hér á blogginu þar sem ég ræddi um pólitískan populisma og einræðistilburði sem hafa farið vaxandi í stjórnmálum í Evrópu. Hafi sá pistill verið á alvarlegum nótum mun þess líklega slá honum við í þeim efnum.

Þar sem ég dvel nú í Póllandi er stjórnmálaþróun hér mér hugleikin. Hér reka hver tíðindin önnur í þeim efnum og engin góð. Nýjustu tíðindin urðu á föstudaginn en þá var umræða í efri deild pólska þingsins frumvarp ríkisstjórnarinnar um breytingar í dómskerfinu. Frumvarp hafði þá þegar verið samþykkt í neðri deild þingsins. Meðal þeirra breytinga sem verða þegar þetta frumvarp verður að lögum (en fátt virðist geta komið í veg fyrir það) er að embætti ríkissaksóknara og embætti dómsmálaráðherra verða sameinuð. Það þarf ekki að eyða löngu máli í að ræða hættuna af þessu enda er þarna vegið að þrískiptingu ríkisvaldsins sem er grunnurinn að lýðræðisskipulaginu. Ágæta umfjöllun um stjórnmálaþróunina hér í Póllandi má annars lesa í enskri vefútgáfu þýska tímaritsins Der Spiegel (http://www.spiegel.de/international/europe/opposition-to-right-wing-polish-government-grows-a-1073775.html).

Dönsk stjórnvöld hafa uppskorið mikla gagnrýni undanfarið fyrir lagabreytingu sem heimilar yfirvöldum að gera eigur flóttamanna upptækar. Bæði núverandi og fyrrverandi aðalritarar Sameinuðu þjóðanna eru meðal þeirra sem hafa gagnrýnt dönsk stjórnvöld. Það helsta sem komið hefur frá þeim eru hins vegar kvartanir vegna gagnrýninnar og vegna skopmynda, einkum myndar sem sýnir forsætisráðherra Dana í gervi Hitlers. Ef málið væri ekki svona alvarlegt þá væri auðvitað sprenghlægilegt að verða vitni að því að danskir stjórnmálamenn kvarti undan þessum skopmyndum. Einkum sé rifjuð upp umræðan sem varð í kjölfar birtingar Múhameðsteikninganna fyrir tæpum áratug. Í dag er það fólk úr sömu stjórnmálahreyfingum og á sínum tíma varði birtingu Múhameðsteikninganna á forsendum tjáningarfrelsis sem nú krefst afsökunarbeiðni frá fjölmiðlunum sem birtu skopmyndirnar.

Í dag las ég svo frétt á vef RÚV þess efnis að formaður þýska stjórnmálaflokksins Alternativ für Deutschland hafi lýst því yfir að réttlætanlegt sé að landamæraverðir skjóti ólöglega innflytjendur og vísaði til ótilgreindra laga máli sínu til stuðnings. Þau lög kannast enginn við og formaðurinn hefur ekki gert grein fyrir þau séu.

Hvert þessi pólitíska þróun mun leiða er ekki gott að spá um. En þó hún valdi mér áhyggjum ætla ég samt að sitja á mér að gerast dómsdagsspámaður og reka upp öskur um þriðju heimstyrjöldina, eins sumir bullukollarnir gerðu eftir árásirnar í París í nóvember. Slíkar upphrópanir eru einungis til þess fallnar að auka ótta sem er einmitt það sem þessi ömurlega stjórnmálaþróun þrífst á. Hún er raunverulegt áhyggjuefni og það er ekki aðeins á ábyrgð kjörinna fulltrúa í lýðræðisríkjum Evrópu að vinna bug á henni. Það er ekki síður á ábyrgð borgaranna sjálfra að standa gegn því að ætluð ógn sé notuð sem átylla til að grafa undan lýðræði og mannréttindum. Afskiptaleysi mun aðeins ýta undir að málin þróist illa.

Og úr því að ég er að deila áhyggjum mínum af þróun samfélaga og lýðræðis í Evrópu þá er ekki hægt annað en að nefna dálítið sem er hægt og hljótt að laumast aftan að fólki. Ég er að tala um TISA- og TTIP-samningana. Það verður að teljast merkilegt hversu litla umfjöllun þessi samningagerð hefur fengið (þó sú umfjöllun hafi vissulega verið nokkur) miðað við þau áhrif sem samningarnir munu hafa verði þeir að veruleika (miðað við upplýsingar um innihald þeirra sem lekið hafa út). Ýmsir hafa þó reynt að vekja athygli á þessu máli heima á Íslandi. Nú síðast rithöfundurinn Bergsveinn Birgisson. Hann ræðir þetta mál í grein sem birtist í Kvennablaðinu í fyrradag (http://kvennabladid.is/2016/01/29/friverslunartrollin-fram-i-dagsbirtuna/). Ég ætla að enda þennan pistil á þremur bútum úr grein Bergsveins sem draga fram hversu ofurseld við verðum alþjóðlegum stórfyrirtækjum ef þessir samningar verða að veruleika. Með þeim verður lýðræði afnumið að verulegu leyti því kjörnir fulltrúar og aðrir forsvarsmenn þjóðríkja munu varla geta annað en staðið og setið eins og stórfyrirtækin bjóða. Þessir samningar mega ekki verða að veruleika.

“Í stuttu máli er hér um að ræða endanlegan sigur hinna ríku yfir restinni, sem ekki mun geta huggað sig við hugtök eins og lýðræði lengur. Með orðum Joseph E. Stiglitz, Nóbelsverðlaunahafa í hagfræði, þjóna slíkir samningar hagsmunum ríkasta hóps amerískrar og alþjóðlegrar fjármála- og viðskiptaelítu „á kostnað allra annarra“ (New York Times 15. mars 2014)…. Eftir því sem lekið hefur m.a. á Wikileaks um þessa samninga, er mælt fyrir auknu valdi til stórfyrirtækja, m.a. gegnum enn sterkari gerðardóm utan við þjóðbundin og alþjóðleg lög og reglugerðir. Að baki þessum „einkavædda dómstól“ standa 75.000 fyrirtæki, sem geta lögsótt þjóðríki ef lög þeirra og reglugerðir brjóta í bága við „framtíðarhag fyrirtækis“…. Með TiSA-samningnum er stórfyrirtækjum gefið alræðisvald í nafni fríverslunar og „hagræðingar“. Samningurinn mun ná utan um 70% alþjóðamarkaðsins af allri þjónustu, allt frá fjármálum til heilbrigðismála. Á WikiLeaks má lesa að ákvæði um einkavæðingu eru óafturkallanleg, það þýðir að lönd geta ekki gert lykilþjónustu opinbera á ný, þótt þeir muni upplifa að allt versni þegar fjarlægt stórfyrirtæki fer að reka elliheimili eða leikskóla landsins.”

 

Brennivín, pillur og skýrara verðskyn

Yfirskrift þessa pistils er ekki stutt lýsingin á mínu plani fyrir helgina. Hún mun verða fremur hófstillt hjá mér. Mun einkennast af rölti og safnaferðum. Jú, ef til vill þátttöku í mótmælum. Og kannski verslunarferð, ef ég nenni.

Á nýjum stað þarf maður að finna út úr ýmsu, þ.á m. hvar maður nálgast þá verslun sem mann vanhagar um. Ég er farinn að verða örlítið hagvanur miðborg Varsjár og næsta nágrenni dvalarstaðar míns og því búinn að uppgötva nokkuð hvað er hvar af því sem mig vanhagar um.

Maður fer ósjálfrátt að miða þessa hluti – líkt og ýmislegt annað raunar – við það umhverfi sem maður þekkir að heiman. Í slíkum samanburði verður þó auðvitað að taka tillit til mismunar í íbúafjölda milli Reykjavíkursvæðisins og Varsjár (sem telur alls ríflega 2,6 milljónir íbúa þegar samliggjandi bæir eru taldir með). Auk þess ber að ítreka að sá hluti Varsjár sem ég er orðin kunnugur er miðborgin og næsta nágrenni hennar.

Ég staldraði fljótt eftir komu mína hingað við hversu mikið er af verslunum. Allskyns verslunum – út um allt. Af ýmsum stærðu – þó flestar séu smáar. Verslanir í miðborginni virðast lifa ágætu lífi þrátt fyrir tilkomu verslunarmiðstöðva. Það kom mér reyndar á óvart að verslunarmiðstöðvarnar sem ég hef komið í eru ekki eins stórar og ég hafði búist við. Á að giska svipaðar Kringlunni að flatarmáli – jafnvel heldur minni.

Hér þarf maður ekki að labba langan veg til að versla í matinn. Ég veit um 5 litlar matvöruverslanir í innan við 5 mínútna göngufæri frá dvalarstað mínum (líklega eru þær fleiri) sem er í um 40 mínútna göngufjarlægð frá miðborginni. En þær eru allar litlar og vöruúrvalið takmarkað. Minna helst á ríflega stórar vegasjoppur heima hvað snertir fjölda vörutegunda, þó samlíkingin nái ekki mikið lengra.

Það er líka óþarfi að fara langan veg eftir bjór, léttvíni eða sterku víni. Ef það sem maður leitar að fæst ekki í matvöruverslunum (tegundavalið af áfengi er þó takmarkað í litlu búðunum, eins raunar úrval af öðru þar) þá eru litlar áfengisbúðir víða. Kyrfilega merktar ALKOHOL. Held að það hljóti því að vera erfitt að vera afturbata-alki hérna. Síðan eru söluturnarnir, litlu kassalaga plexigler-sjoppurnar sem selja gosdrykki, nammi, strætómiða, blöð, tóbak o.fl. Þær eru með reglulegu millibili við fjölfarnar götur.

Það sem ég er þó mest hugsi yfir er mikill fjöldi apóteka. Þau eru það þétt í miðborginni að það má líkja því við söguna sem ég heyrði einhvern tíma af kirkjum í Skagafirði, þ.e. að ef þú værir staddur við eina þá sæirðu alltaf allavega eina aðra. Vitanlega má fá fleiri í þessum apótekum en lyf og væntanlega bera þau sig þrátt fyrir fjöldann. En þetta er eitt af því sem opinminntur ferðalangur klórar sér í höfðinu yfir.

Í dag las ég grein á íslenskri fréttasíðu þar sem fyrrum viðskiptaráðherra, Gylfi Magnússon, gagnrýnir kreditkortafyrirtækin fyrir næsta hömlulausa gjaldtöku. Hef ekki sett mig mikið inn í þessi mál en á þó ekki erfitt með að trúa því að slík gagnrýni sé réttmæt. Síðan ég kom hingað hef ég reynt að venja mig á að nota reiðufé. Manni finnst þetta skrítið, verandi vanur því að sveifla kortum seint og snemma heima á Íslandi, og vera nær aldrei með pening á sér. En það er eitt sem ég rek mig á strax við að taka þetta skref (til baka myndi einhver segja). Verðskynið verður allt annað. Þegar maður er að meðhöndla peninga daglega og sér þeim fækka í veskinu er maður meira með á nótunum um eyðsluna. Ég fer því með brosi á vör í hraðbankana hérna. En þeir eru eins og apótekin – út um allt.

 

Þróun sem verður að stöðva

Ég er hugsi yfir pólitískri þróun í Evrópu. Lagasetningin í danska þinginu í gær sem heimilar yfirvöldum að gera upptækar eigur hælisleitenda hefur hneykslað marga og ekki að ástæðulausu. Hún er beinlínis ógeðfelld og  jafnframt nýjasta merkið um þróun sem er varasöm, raunar uggvænleg.

Undanfarin ár hefur fylgi vaxið við stjórnmálaflokka, bæði á Norðurlöndum og víðar um álfuna, sem vilja taka harðar á flóttafólki, útlendingum og fólki af öðrum uppruna og trúarskoðunum en eru ríkjandi í landinu. Þetta er hægrisinnaðir flokkar sem ala á populisma. Talsmenn þeirra eru óbilgjarnir í orðum og boða einfaldaðar lausnir við flóknum úrlausnarefnum. Gefa sig út fyrir að vera þeir sem þora þegar hefðbundin stjórnmálaöfl hiki. Orðaræða þessara flokka elur markvisst á ótta og þjóðernisrembingi og leitast við að stilla þeim sem ekki falla að staðalmyndum þeirra upp sem ógn. En í raun eru það þessir flokkar og þeirra fylgismenn sem eru hin eiginlega ógn. Þeir eru ógn við mannréttindi og lýðræði með sinni þjóðernissinnuðu einangrunarhyggju. Því miður þarf maður ekki að leita lengi í opinberri umræðu heima á Íslandi, hvað þá á samfélagsmiðlum, til að finna viðhorf sem rýma við þau sem hér er lýst.

Til viðbótar stjórnmálaflokkum sem hafa áðurnefndan boðskap hafa víða í Evrópu sprottið upp hópar sem ganga enn lengra. Í þeim kemur saman fólk undir merkjum illa dulinni kynþáttahyggju og hótana um ofbeldi. Áhyggjur mínar snúast ekki um tilvist þessara hópa sem slíkra, heldur að því að þau viðhorf sem þeir boða eru tekin að hafa sýnileg áhrif á hvernig sumum ríkjum álfunnar er stjórnað. Dæmið frá Danmörku kemur þar strax upp í hugann. Annað dæmi er svo Ungverjaland sem hefur verið á leið frá lýðræði til fasísks einræðis undanfarin ár. Það sést m.a. í því hvernig þar hefur verið þrengt að fjölmiðlum og á framgöngu stjórnvalda þar gagnvart flóttafólki. Skýr merki eru á lofti um að núverandi stjórnvöld hér í Póllandi sé lögð af stað í svipaða vegferð.

Og hvað er hægt að gera? Við því er ekkert einfalt svar. Hins vegar er alveg á hreinu hvað á ekki að gera. Við sem viljum viðhalda og verja lýðræði, mannréttindi og frelsi fjölmiðla og viljum sjá samfélög okkar þróast sem umburðalynd, víðsýn og fjölbreytt megum ekki sitja þegjandi og vona að þessi óáran líði hjá. Því hún mun ekki hverfa nema tekist sé á við hana. Hún þrífst á þögn meginþorra fólks sem vill fá að lifa í friði og forðast pólitísk átök – er jafnvel áhugalítið um stjórnmál og samfélagsmál yfirleitt. Þessa þögn túlka populistar síðan blygðunarlaust sem stuðning við sinn málstað. Málstað sem byggir á ætlaðri ógn sem andlýðræðisleg öfl reyna að nota til að skerða réttindi fólks, oftast í nafni öryggishagsmuna eða annarra ástæðna sem þau gefa sér.

Pólverjar hafa þúsundum saman farið út á götur um hverja helgi síðan fyrir jól og mótmælt friðsamlega þeim aðgerðum stjórnvalda sem mótmælendur telja ganga gegn lýðræði í landinu. Þeim sem hingað kemur (og ekki hefur fylgst neitt með þróun mála) kynni að koma það á óvart að hér sé pólitísk ólga enda borgin friðsæl og ekkert að sjá dagsdaglega sem vekur ótta. En þetta er yfirborðið. Sú þróun sem ég er að vara við gerist sjaldnast í stökkum heldur í smáum skrefum sem geta verið búin að leiða fólk langt af leið áður en það áttar sig. Og þá kann að vera erfitt að snúa við.

Tortryggni gagnvart öðru fólki vegna litarháttar, þjóðernis, trúarbragða eða annars elur á samfélagslegri aðgreiningu og fordómum sem geta (og hafa) brotist út í ofbeldi. Kynþáttahyggja og þjóðernisrembingur hafa áður fengið að þróast með skelfilegum hætti í Evrópu – oftar en einu sinni og oftar en tvisvar á undangenginni öld. Það eru ekki nema 20 ár síðan fjöldamorð á óbreyttum borgurum áttu sér stað á Balkanskaga, réttlætt með þjóðernisrembingi og aðgreiningu milli trúarhópa. Verum ekki svo bláeyg að halda að það geti ekki gerst aftur.

Skólinn – fyrstu kynni

Skólinn sem ég stunda nám við þessa dagana heitir á ensku Graduate School for Social Research (GSSR). Þetta er sjálfstæð stofnun sem ekki er hluti af Varsjárháskóla, eins og ég hélt raunar áður en ég kom hingað. GSSR er þó steinsnar frá Varsjárháskóla í miðborginni og fer ég úr strætónum beint fyrir framan aðalinngang Varsjárháskóla.

GSSR er (eins og nafnið ber með sér) háskóli fyrir framhaldsnema (masters- og doktorsnema) í félagslegum rannsóknum. Áherslan er á félagsfræði og heimspeki og dregur framboð af námskeiðum dám af því. Sagnfræðingurinn var samt ekki í vandræðum með að finna eitthvað við sitt hæfi. Hafði raunar aldrei áhyggjur af því þar sem skil milli fræðigreina hafa með tímanum gerst óljósari enda margt gagnlegt hægt að sækja til annarra greina en þeirrar sem maður sjálfur leggur stund á. Íslenskur sagnfræðingur sem ástundar félags- og menningarsögu er því ágætlega staðsettur í GSSR.

Skólinn hefur víðtækar tengingar við háskólastofnanir í öðrum löndum, bæði innan og utan Evrópu, og er t.a.m. í formlegum tengslum við Lancaster University í Bretlandi. Liður í því er líka að laða hingað námsmenn víðsvegar að úr heiminum auk heimamanna. Þetta virðist hafa tekist ágætlega því að á þessum fyrstu dögum mínum hér hef ég rætt við samnemendur frá Eþíópíu, Nígeríu, Nepal, Turkmenistan, Kambódíu, Makedóníu og Úkraínu, auk Pólverja. Þrátt fyrir þessi fjölbreyttu þjóðerni hef ég þó ekki enn hitt nema lítinn hluta nemendanna. Ástæða þess er sú að fyrsta misseri af þremur er að ljúka nú um mánaðamótin og nemendurnir hér í GSSR eru önnum kafnir við verkefna- og ritgerðaskil. Ég reikna með að hafa meira af þeim að segja þegar nýtt misseri hefst í byrjun febrúar.

Misserin hérna eru þrjú. Það fyrsta hefst í október og lýkur núna í lok janúar. Í byrjun febrúar hefst annað misseri sem stendur til loka apríl og þriðja misserið hefst í byrjun maí og stendur til loka júlí. Það veldur mér örlitlum vandræðum að koma inn á miðju námsári vegna þessa að verulegur hluti námskeiðanna sem eru í boði eru kennd tvö samliggjandi misseri eða spanna öll misserin. En það kemur fljótt í ljós hvort ég fæ að sækja þau námskeið sem ég óskaði eftir.

Og þar til nýtt misseri hefst hef ég af nógu að taka við mína eigin rannsókn.

Mótmæli

Áður en ég kom hingað – og raunar einnig síðan – hef ég lesið um pólitíska ólgu í Póllandi vegna aðgerða núverandi ríkisstjórnar, sem tók við völdum í október. Í dag fylgdist ég með þessari ólgu í návígi.

Um hádegisbil rölti ég af stað í gegnum Lazienki garðinn áleiðis niður í miðborg. Þegar ég hafði gengið nokkra stund fór ég að verða var við lúðrablástur og heyrði rödd berast í gegnum hátalara. Ég beygði af aðalstígnum í garðinum inn á annan sem liggur í áttina að hliðinu sem er beint framan við forsætisráðuneytið, sem er við sömu götu og ég bý við. Ráðuneytið er raunar í ca. 7-8 mínútna göngufjarlægð frá dvalarstað mínum.

Þegar ég kom út úr garðinum blasti við mér mannfjöldi. Fólk á öllum aldri, sumt með börnin sín með sér, hafði safnast saman fyrir framan forsætisráðuneytið og sífellt bættust fleiri við. Lítið var um mótmælaskilti en þeim mun meira um að fólk sveiflaði fánum – þeim pólska og fána ESB. Ég gekk inn í hópinn og fór að svipast um eftir einhverjum sem væri líklegur til að geta skýrt fyrir mér tilefni mótmælanna.

Ég gaf mig á tal við mann – á að giska á fertugsaldri – sem talaði ágæta ensku.  Hann sagði mér að þessi mótmæli beindust gegn ríkisstjórninni og ýmsum aðgerðum hennar. Af þeim má helst telja umdeilda skipan í stjórnlagadómstól Póllands, lagasetningu á ríkisfjölmiðla (sem setur þá undir beina stjórn fjármálaráðherrans) og það nýjasta, sem eru lög sem gefa lögreglunni víðtækar heimildir til að fylgjast með borgurunum og afla gagna um þá. Það síðast talda var megintilefni mótmæla dagsins. Viðmælandi minn sagði að þessi mótmæli væru vikulega enda fjölgaði sífellt tilefnunum. Ég tók einmitt eftir því um síðustu helgi þegar ég var að koma með strætó úr miðborginni að þá var gatan lokuð og mér var sagt að það væri vegna mótmæla.

Þó mótmælin væru friðsöm og lögreglumenn sem þarna voru víða virtust mjög afslappaðir þá leyndu áhyggjurnar sér ekki í svip fólksins. Viðmælandi minn sagði að hann og margir aðrir upplifðu atburði síðustu vikna þannig að stjórnvöld væru markvisst og vísvitandi að grafa undan lýðræði í landinu. Fólk byggist ekki við að stjórnin léti staðar numið við það sem hún hefði þegar gert. Hann sagði að fólkið sem þarna væri að mótmæla vildi sýna í verki að það vildi verja lýðræði og frelsi í landinu. Samskonar mótmæli væru í flestum stærstu borgum Póllands og víða meðal Pólverja búsettra erlendis.

Þrátt fyrir kuldann í dag (10 stiga frost) var gríðarlegur mannfjöldi saman kominn. Viðmælandi minn sagði að það hefði verið áætlað að um 20 þúsund manns myndu koma og ég held að það hafi síst verið vanáætlað. Þegar ég olnbogaði mig út úr hópnum og hélt áfram áleiðis til miðborgarinnar mætti ég samfelldri röð fólks sem greinilega var á leið til mótmælanna. Þegar ég svo sneri aftur heim á leið tæpum tveimur klukkustundum síðar mætti ég mótmælendum þar sem þeir gengu fylktu liði í átt til forsetahallarinnar. Þá sá ég enn betur hversu gríðarlega fjölmenn mótmælin voru.

Pólskur samnemandi minn svaraði mér í vikunni á eftirfarandi hátt, þegar ég spurði hann um stjórnmálaástandið hér: “Við lifum á áhugaverðum tímum.”
Ég held að það sé nokkuð til í því.

Ekki sama áskorun og fyrr

Eins og ég hef sagt hér áður þá hef ég upplifað mig dálítið týndan fyrstu dagana í þessari borg, sem ég hef aldrei heimsótt áður. Borg sem er fjölmennasta samfélag sem ég hef búið í til þessa. Skrefin út í heiminn úr Breiðdal æsku minnar hafa verið mörg. Þetta er eitt það stærsta.

Samt er ekki yfir neinu að kvarta. Ég kann vel við Varsjá og er smám saman að komast betur inn í samfélagið hérna. Hef hins vegar efasemdir um að þessir þrír mánuðir muni duga mér til að komast sem neinu nemur inn í tungumálið. Enda það að læra tungumál aldrei verið mín sterka hlið. Er rétt svo búinn að læra að bjóða góðan daginn á pólsku (dzień dobry), en þekkingin nær ekki mikið lengra. Reikna því með að þurfa áfram að nota handapat, bros og kurteisi til að komast áfram þegar viðmælandinn er ekki talandi á ensku.

En ferðalög sem þetta samt orðin miklu mun einfaldari en maður ímyndar sér að þau hafi verið áður fyrr. Tilkoma internetsins og allra þeirra upplýsinga sem þar má finna einfaldar afskaplega margt. Með nettengingu getur maður ráðið fram úr flestu sem maður þarf að ráða fram úr. Ég á sannast sagna erfitt með að ímynda mér hvernig hefði verið að koma hingað fyrir segjum 25-30 árum. Miðað við þann kynslóðamun sem ég finn á enskukunnáttu hér hefði enskumælandi Íslendingurinn væntanlega verið alveg mállaus í samfélaginu og lítt geta stuðst við merkingar á tungumáli sem hann gæti lesið. Hefði því þurft að leita, gangandi eða akandi, að öllu sem hann hefði vanhagað um.

Þó er líklega annar kynslóðamunur sem vegur á móti. Ég held að eldri kynslóðir (ekki bar á Íslandi heldur víðar) hafi haft mun betra sjónminni en mín kynslóð og fólk yngra en ég. Hafi munað betur staði og verið ratvísara. Við sem ólumst upp við sívaxandi upplýsingaflæði og sífellt betra aðgengi að upplýsingum höfum ekki sömu þörf fyrir að muna. Við þurfum meira á því að halda að kunna að leita í upplýsingafrumskóginum.

Frá einum stað til annars

Eitt af því sem maður þarf að kanna fljótt á nýjum slóðum er hvernig maður kemst milli staða.

Fyrstu dagana mína hér labbaði ég það sem ég þurfti að fara. Var þá oft á gangi í hátt í 2 klukkutíma á dag. Það er reyndar þægilegt að vera gangandi hér því að landið er frekar flatt, gangbrautir góðar og ökumenn taka gott tillit til gangandi vegfarenda. Skylst að viðhorf ökumanna til hjólreiðafólks sé ekki alltaf jafn skilningsríkt. Samt er ágætlega búið að hjólafólki og eru sérmerktir stígar fyrir það við flestar helstu samgönguæðar sem ég hef farið um. Mér virðist þó vera frekar lítið um að fólk sé hjólandi, hvort sem það er árstíminn sem veldur eða að það sé ekki orðin eins útbreitt hér að ferðast á hjóli og það er heima.

Sá ferðamáti sem ég hef notað hér (annað en fæturnir og leigubíllinn frá flugvellinum) eru strætisvagnar. Það er mjög þægilegt að nota strætó hérna og tíðni ferða er góð. Vagnar á þeim leiðum sem ég hef ferðast með eru yfirleitt á 10 mín fresti frá morgni til kvölds. Nýting á vögnunum er líka góð og stutt á milli stoppa. Á annatímum er sjaldgæft að nokkurt sæti sé laust og á göngunum er staðið þétt. Einn morguninn varð ég að sleppa fyrsta vagninum sem kom á biðstöðina mína og taka næsta því að sá fyrri var svo troðfullur af fólki að það var ekki pláss fyrir fleiri. Samt eru þetta stórir vagnar sem ganga héðan og til miðborgarinnar – c.a. helmingi stærri en strætóarnir heima. Vagnarnir hér eru líka góðir hvað snertir upplýsingar. Skilti yfir stoppustöðvar viðkomandi leiðar er í öllum vögnum og í þeim nýjustu eru skjáir sem veita ýmsar upplýsingar og láta vita með hljóði og mynd um næsta stopp.

Í borginni er sporvagna- og lestakerfi en ég hef ekki ennþá þurft á því að halda. Það er kostur hér, fyrir þá sem þurfa að nota fleiri en eina gerð almenningssamgangna, að sömu miðarnir ganga í allt þrennt (strætó, lest og sporvagn). Það er hægt að kaupa ýmsar gerðir miða og sjálfsalar fyrir ódýrustu gerðirnar eru mjög víða. Auk þess er hægt að kaupa miða í litlum söluturnum sem eru víða við aðal umferðargöturnar.

Þrátt fyrir almenna notkun borgarbúa á öllum aldri á almenningssamgöngum er bílaumferðin nokkuð þung, einkum síðdegis. Bílaflotinn hér er frekar nýlegur tilsýndar, virðist á svipuðum aldri og almennt gerist heima (16 ára gamli jepplingurinn minn myndi hýfa meðalaldurinn upp hér eins og heima). Gatnakerfið sýnist mér vera ágætt en þar sem ég hef ekki keyrt bíl hér er ég tæplega dómbær á það. Leigubílar eru víða og virðist því tiltölulega einfalt að ná í slíkan ef á þarf að halda.

Upplifunin mín er sú að Varsjá er borg almenningssamgangna frekar en bílaumferðar. Hvort það er meðvituð stefna Varsjárborgar eða tilviljun sem ræður þá staldraði ég við að ódýrustu miðarnir í strætó (lestir og sporvagna) eru nokkru ódýrari en bensínlítrinn. Ódýrasti miðinn kostar ca. 108 kr. íslenskar meðan bensínlítrinn er á ca. 135 krónur.

Veður og færð

Það er vel þekkt að félagsmótun og uppruni setur mark sitt á mann. Verandi Íslendingur og alinn upp í sveit er ég sífellt að spá í veðri – og á veturna líka í færð á vegum. Íslenskir sauðfjárbændur eiga mikið undir veðurfari og því er eðlilegt að sá hluti félagsmótunar skuli vera ríkur í mér. Og þó ég hafi búið í þéttbýli meira og minna síðustu 20 ár leitast ég alltaf við að hafa á hreinu hvernig veðurspáin er og hvort eitthvað sé tíðinda af færð – jafnvel þó að ég sé í Reykjavík og eina ferðalag mitt þann daginn sé í skólann og til baka aftur. Þetta er bara greipt fast í mig.

Að sjálfsögðu var þessi ríka tilhneiging til veðurrýni með í farangrinum hingað til Varsjár. Ekki aðeins fylgist ég með því hvað er framundan í veðrinu hér – sem er sannarlega ekki eins fjölskrúðugt og breytilegt eins og heima á Íslandi – heldur hef ég ekki misst af veðurfréttunum á RÚV eitt einasta kvöld á þeirri viku sem liðin er síðan ég kom hingað. Áráttuhegðun, einhver??? 😉

En til að viðhalda áráttunni þarf maður að ræða veðrið. En hér hef ég engan til þess. Jú, ég hef reyndar reynt en það eina sem heimamenn segja er: “Já, það er ansi kalt.” Þar með er það útrætt af þeirra hálfu. Þetta er fjarri því nóg til að svala þörf Íslendingsins til að tjá sig um veðrið í löngu máli og í tíma og ótíma. En þetta er skiljanlegt. Hér hefur verið hægviðri og kalt alla daga síðan ég kom hingað. Eina breytingin var þegar snjóaði svolítið á föstudagskvöldið. Við það varð Indverji sem varð a vegi mínum mjög uppnæmur, enda hafði hann aldrei séð þetta áður. Brosti eins og krakki í leikfangabúð þar sem hann mændi á snjóhulið umhverfið og flögrandi snjókorn. Ég reyndi að spilla ekki gleðinni fyrir honum þó mér þætti þessi logndrífa frekar hversdagsleg. Þegar ég sagðist svo vera frá Íslandi kom örlítið skrítinn svipur á manninn – svona eins og hann héldi að ég væri að grínast.

En þrátt fyrir snjóinn sem féll voru gangstéttir hér flestar auðar daginn eftir, sem er mjög gott fyrir mann sem hefur það á afrekaskránni að hafa fótbrotnað við að detta í hálku á leiðinni á barinn á nýársnótt. En það voru ekki hlýindi sem ollu því að gangstéttirnar eru auðar. Nei, hér stökkva menn af stað, hver sem betur getur um leið og hættir að snjóa og skafa gangstéttir og tröppur. Hér og þar mátti sjá fólk sveifla handverkfærum við snjóhreinsun. Og það eru ekki bara íbúarnir sem nota handverkfærin. Ég vildi að ég hefði munað að taka mynd af sturtuvagninum sem ég sá kúffullan af snjó á laugardaginn, en skammt frá honum var vinnuflokkur vopnaður sköfum og skólfum.

Þá er ég búinn að tjá mig á íslensku (við Íslendinga) um veður og færð í Varsjá og get því farið ánægður í rúmið.

Dálítið týndur en samt glaður

Þegar maður kemur úr umhverfi sem maður þekkir vel og gengur inn í samfélag sem maður hefur aldrei tekið þátt í verður maður óhjákvæmilega að hugsa og hegða sér á annan hátt en maður er vanur. Þetta eru svo sem engin ný tíðindi. Einkum fyrir þá sem hafa ferðast á eigin vegum eða flust búferlum til annarra landa. Fyrir mig er hins vegar margt nýtt við þessa reynslu.

Ein ástæða þess að ég stökk á það tækifæri að fara hingað til Varsjár í skiptinám var að mér fannst vanta í minn reynslubanka að hafa búið erlendis. Ég hef prófað mörg búsetuform á Íslandi og á að baki nokkrar ferðir sem túristi erlendis. En að fara til að búa er ekki það sama og að vera túristi. Það vissi ég (af reynslu annarra) áður en ég fór og það blasir við mér á þessum fyrstu dögum.

Hafandi búið í miðbæ Reykjavíkur síðastliðið ár (og áður í sex ár skömmu uppúr síðustu aldamótum) er ég orðinn vanur því að á vegi mínum verði stóreygir og opinmynntir ferðamenn sem skima í allar áttir, ráfa stefnulítið og taka mikið af myndum. Dálítið týndir en almennt voða glaðir með lífið og tilveruna. Ég hef stundum labbað framhjá hverjum ferðamanninum á eftir öðrum á leið minni yfir Skólavörðuholtið, nývaknaður og úrillur af nepjunni og ónógri kaffidrykkju. Þá hefur stundum gerst að ég hef látið einhvern sem ég mæti pirra mig af því hann/hún er of upptekinn af því sem fyrir augu ber hinum megin götunnar. Jafnvel svo mjög að viðkomandi er við það að klessa á mig þegar ég labba framhjá.

En skyndilega er ég kominn í einmitt þetta hlutverk. Allt er nýtt og margt er öðruvísi en heima. Ég er strax farinn að skammast mín fyrir pirringinn á Skólavörðuholtinu. Þessir dagar hér hafa fengið mig til að hugsa um hvað það er auðvelt að festast í sínu umhverfi, þar sem manni finnst flest liggja ljóst fyrir, og fara ósjálfrátt að stimpla þá sem hálfgerða einfeldninga sem virðast eiga erfitt með að ráða fram úr því sem heimanninum þykja “sjálfsagðir hlutir”.

Síðustu daga hef ég þurft að leita að öllu sem mig vanhagar um. Skólanum, verslunum, strætóstoppum o.s.frv. Ég geng ekki að neinu vísu. Og í landi þar sem fleiri en færri sem maður hittir eru ekki talandi á ensku hef ég þurft að brosa meira en ég geri venjulega og nota ýmiskonar látbragð til að gera mig skiljanlegan. Verð líklega betri í actionary eftir dvölin hér. Ég þarf að vera auðmjúkari en ég er vanur – sem er mjög hollt. Ég hef stundum þessa fyrstu daga upplifað mig dálítið ósjálfbjarga og smærri en ég er vanur – en það er samt mjög gott. Og hollt. Hvers vegna? Jú, vegna þess að ástæðan er að ég er að læra eitthvað nýtt, kynnast einhverju nýju, afla mér reynslu sem ég fengi ekki annars. Þetta hefur verið góð reynsla og ánægjuleg og vonandi verður svo áfram.

Ég held að ég muni koma kurteisari, brosmildari og umburðalyndari heim í apríl.